Mannfræðirannsókn Kristín Loftsdóttir ákvað að skrifa ritrýnda fræðibók fyrir almenna lesendur.
Mannfræðirannsókn Kristín Loftsdóttir ákvað að skrifa ritrýnda fræðibók fyrir almenna lesendur. — Morgunblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannfræðingurinn Kristín Loftsdóttir var á ferð á Gran Canaria fyrir nokkrum árum og var leidd inn á safnið El Museo Canario í gamla borgarhluta Las Palmas, höfuðborgar Kanaríeyja. Það var fátt á safninu sem vakti athygli hennar, enda var það…

DAGMÁL

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Mannfræðingurinn Kristín Loftsdóttir var á ferð á Gran Canaria fyrir nokkrum árum og var leidd inn á safnið El Museo Canario í gamla borgarhluta Las Palmas, höfuðborgar Kanaríeyja. Það var fátt á safninu sem vakti athygli hennar, enda var það forngripasafn, ekki mannfræðisafn, þar til hún rak augun í hvítar brjóstmyndir uppi á skáp og þekkti þar brjóstmyndir sem listakonan Ólöf Nordal hafði ljósmyndað og sýnt í Listasafni Íslands. Í framhaldinu tók Kristín að rannsaka brjóstmyndirnar og tilurð þeirra, en nokkrar þeirra voru af Íslendngum og gerðar um miðja nítjándu öldina. Afraksturinn var bókin Andlit til sýnis sem kom út seint á síðasta ári.

„Þetta var eins og röð tilviljana, en ég var sem sagt stödd með systur minni á Gran Canaria í minni fyrstu ferð til Kanaríeyja, og var í raun að klára aðra bók undir mjög mikilli tímapressu. Við fórum til Las Palmas, en ég var með fyrirlestur í háskólanum þar, og höfðum mjög lítinn tíma, en tengiliður minn við háskólann vildi endilega að ég færi á þetta safn, El Museo Canario, sem fjallar um efnismenningu og hafði líka til sýnis líkamsleifar frumbyggja Kanaríeyja.“

Kristín segir að hún hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á að fara inn á safnið, enda er hún ekki líkamsmannfræðingur, en hefði fundist frekar dónalegt að segja nei. Að því sögðu hafi safnið verið forvitnilegra en hún bjóst við í upphafi, ekki síst þegar komið var inn í svonefnt Verneau-herbergi safnsins, sem hefur nafn sitt af franska mannfræðingnum René Verneau. „Þar varð ég fyrir mjög sterkum hughrifum, því það herbergi var eins og að labba inn í tímahylki. Það var opið í báða enda og meðfram veggjunum voru stórir skápar og þar voru hauskúpur og aðrar líkamsleifar frumbyggja og efst uppi á skápunum voru brjóstmyndir gerðar eftir raunverulegum manneskjum, lífs eða liðnum. Þetta tengist mjög sterklega sögu mannfræðinnar og kynþáttavísindum, sem er einmitt efni sem ég hef verið að skoða í mínum ransóknum í langan tíma. Ég stóð þarna bara og hugsaði: hvaðan kemur þetta fólk og hvernig rataði það inn á þetta safn á Kanaríeyjum svo langt frá meginlandi Evrópu?“

Brjóstmyndirnar sem voru efst á skápunum voru líka kunnuglegar, því það rifjaðist upp fyrir Kristínu að hún hafði einmitt flutt fyrirlestur í tengslum við sýningu Ólafar Nordal í Listasafni Íslands á ljósmyndum af brjóstmyndum af Íslendingum. Hún vissi að Ólöf hafði tekið hluta myndanna á einhverju safni á Spáni og kom í ljós að það var einmitt þetta safn, sem skýrir undirtitil bókarinnar: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu.“

Brjóstmyndir eins og þær sem Kristín rakst á á Kanarísafninu voru gerðar af frönskum vísindamönnum og hún segir að þær tengist að nokkru höfuðlagsfræðum, sem voru mjög vinsæl um í byrjun nítjándu aldar í Frakklandi og víða annars staðar reyndar líka. Um miðja öldina eru svo að verða til kynþáttavísindi sem Frakkar voru leiðandi í undir lok aldarinnar.

Sjö brjóstmyndir eru til af Íslendingum, ein þeirra, mynd af Bjarna Johnson, lektor Lærða skólans, var gerð í París en hinar sex gerðar í frönskum leiðangri hingað til lands árið 1856. Í bókinni fjallar Kristín um tilurð brjóstmyndanna og þeirrar hugmyndafræði sem lá að baki, en hún tekur sér líka fyrir hendur að leita að fyrirmyndunum og segja sögu þeirra, þá ekki bara Íslendinganna, heldur einnig sögu fyrirmynda frá Brasilíu, Nígeríu, Tonga, Eldlandi, Norður-Ameríku, Nýja-Sjálandi og Grænlandi. Hún segir að það hafi verið snúið að leita fólkið uppi. „Það var mjög erfitt, sérstaklega í byrjun, því þá fannst mér ég ekki hafa neitt í höndunum. Að finna fyrstu upplýsingarnar var eins og að rekja pínulítinn þráð. Á Kanarísafninu voru til að mynda engar upplýsingar um þessa einstaklinga og oft ekki einu sinni nöfnin. Þetta var því svolítið langt ferli með marga, en ég hef nú upplýsingar um miklu fleiri einstaklinga en eru í bókinni og það var rosalega gefandi þegar tókst að finna eitthvað. Í sumum tilfellum var til heilmikið efni um þessa einstaklinga en hafði ekki verið tengt við þessar brjóstmyndir. Það var mjög áhugavert þegar brjóstmyndir sem ég hafði verið að horfa á í safninu voru allt í einu orðnar að manneskju sem átti einhverja sögu.“

Kristín segir að fyrir sér vaki að skrifa fræðilega ritgerð um rannsóknir sínar, en hún hafi ákveðið að skrifa bók fyrir almenna lesendur þó Andlit til sýnis sé vissulega ritrýnd fræðibók. „Þetta er bók sem skrifuð er fyrir almennan lesanda hvað tungutak varðar og mikið af myndum, því þær grípa mann meira og færa efnið nær lesandanum.“