Með börnunum Skíðaferð í Austurríki árið 2006. Frá vinstri: Svana, Hildigunnur, Herdís (Dísa), Jón Ingi og Árni Björn.
Með börnunum Skíðaferð í Austurríki árið 2006. Frá vinstri: Svana, Hildigunnur, Herdís (Dísa), Jón Ingi og Árni Björn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Herdís Jónsdóttir (Dísa) fæddist í Reykjavík 13. janúar 1924 en ólst upp á Bakka í Ölfusi til rúmlega tveggja ára aldurs og síðan á Lindargötu í Reykjavík. „Móðir mín varð ekkja með mig og Hannes bróður minn þegar ég var nýlega orðin tveggja ára

Herdís Jónsdóttir (Dísa) fæddist í Reykjavík 13. janúar 1924 en ólst upp á Bakka í Ölfusi til rúmlega tveggja ára aldurs og síðan á Lindargötu í Reykjavík.

„Móðir mín varð ekkja með mig og Hannes bróður minn þegar ég var nýlega orðin tveggja ára. Við fluttum fljótlega til Reykjavíkur. Mamma vann fyrir okkur sem verka- og prjónakona. Hún giftist Ingimar Magnúsi Björnssyni þegar ég var unglingur og eignaðist þá systkini mín Ingimar Braga, sem dó 11 ára, og Jóhönnu Þórunni. Á þeim árum fluttum við í Meðalholt 9 og þar bjó Þórir Jónsson frændi minn og vinur á efri hæðinni. Við stunduðum skíði saman og var þá lagður grunnur að lífstíðaráhuga á skíðaíþróttinni.“

Að loknu gagnfræðaprófi lá leiðin í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og vann Herdís í hannyrðaverslun til að safna fyrir handavinnukennaranámi í Danmörku. „Tilvonandi maður minn var við nám í Bandaríkjunum og óskaði eftir að ég kæmi út til að giftast honum. Ég fylgdi þá ástinni til Ameríku, við giftumst þar og lagði ég sparifé mitt í búið. Frænka mín hafði styrkt mig til að læra á píanó sem barn og tók ég aftur upp þráðinn þar ytra og stefndi á að verða píanókennari. Þá fæddist fyrsta barnið Árni Björn og var nóg að gera við heimilisstörf. Þrjú börn bættust við eftir að fjölskyldan flutti til Íslands.

Þegar börnin fjögur voru 4 til 12 ára stóð ég skyndilega uppi sem einstæð móðir án starfsmenntunar eða vinnu. Fór ég þá að vinna í verslun, síðan sem kokkur til sjós hjá Landhelgisgæslunni. Fékk síðan bankalán og lét gamla drauminn um handavinnukennaranám rætast og vann með náminu til að geta lokið því. Farartækið sem ég notaði til að komast frá gamla Kennaraskólanum í Kópavoginn til að gefa börnunum hádegismat var gömul Volkswagen-bjalla. Allir hjálpuðust að og við vorum alla tíð miklir félagar, fórum í sund, gönguferðir, á skauta eða skíði um helgar.“

Herdís var handavinnukennari í Gagnfræðaskóla Kópavogs og líkaði vel. „Þegar börnin voru að komast á fullorðinsár fékk ég árs námsleyfi og fór í nám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Námið sameinaði myndlist og annað handverk og handavinnu. Eftir eitt ár heima hélt ég áfram í sérkennslufræðum í tvö ár í Kaupmannahöfn og vann síðan sem sérkennari m.a. við Öskjuhlíðarskóla. Loks kenndi ég sex ára bekk í Kópavogsskóla, gamla skóla barnanna minna, og urðu allir nemendur mínir læsir.

Á efri árum kynntumst við Einar Guðmundsson og nutum þess að dansa og ferðast saman. Við hófum búskap og leið mjög vel. Hann dó sorglega snemma og var saknað af allri fjölskyldunni.“

Helstu áhugamál Herdísar hafa verið tónlist, dans, skíðaiðkun, sund, gönguferðir, ferðalög og að spila bridge og félagsvist. „Á efri árum hafði ég mjög gaman af að vera í kór eldri borgara og í kór eldri kennara.

Mikilvægast í lífi mínu hefur verið fjölskyldan, börnin mín og barnabörnin. Gömlu góðu vinirnir eru fallnir frá.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Herdísar var Einar Guðmundsson, f. 17.9. 1915, d. 15.5. 1994, smiður og áður bóndi og var hann alla tíð hestamaður. Sambýlismaður Herdísar var einnig Sveinbjörn Þórhallsson, f. 30.8. 1922, d. 8.2. 1983, vélvirki og flugvirki.

Fyrrverandi eiginmaður Herdísar var Haraldur Árnason landbúnaðarverkfræðingur, f. 7.2. 1923, d. 10.3. 2003, sem vann m.a. í Stilli, Vélasjóði ríkisins og sem landbúnaðarráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands. Þau bjuggu í Bandaríkjunum fyrstu árin og í Reykjavík frá 1949 og loks í austurbæ Kópavogs þar til þau skildu 1958. Frá 1970 hefur Herdís búið í Reykjavík og dvalið á Hrafnistu síðustu þrjú árin.

Foreldrar Haralds voru hjónin Árni Björn Björnsson, f. 11.3. 1896, d. 2.7. 1947, gullsmiður í Reykjavík, og Svanbjörg Hróðný Einarsdóttir, f. 20.7. 1899, d. 27.11. 1986, húsfreyja.

Börn Herdísar og Haralds eru 1) Árni Björn, f. 1.10. 1946, landbúnaðarverkfræðingur, búsettur í Noregi. Maki er Elena V. Haraldsson, f. 10.11.1961, og á hún tvö börn. Fyrri maki: Solveig Ingebrigtsen Haraldsson, f. 1949, og börn þeirra eru Andreas Ívar, f. 27.11. 1972, Haraldur, f. 3.7. 1976 og Vigdís, f. 30.5. 1983. 2) Jón Ingi, f. 28.10. 1949, véltæknifræðingur og kennari í Reykjavík. Kona hans er Sigrún Erlendsdóttir, f. 19.9. 1952, og börn þeirra eru Hildigunnur, f. 16.11. 1976, Kristín f. 1.3. 1982, og Einar Ingi, f. 18.11. 1986. 3) Svanbjörg Helga, f. 29.1. 1951, jarðeðlisfræðingur, dr. í snjóflóðafræðum og kennari í Reykjavík, sambýlismaður er Gunnlaugur H. Jónsson, f. 5.4. 1946. Fyrrverandi maki er Reynir Eyvindur Böðvarsson, f. 2.12. 1950. Börn þeirra eru Herdís, f. 28.12. 1975, og Böðvar Rafn, f. 28.6. 1978. 4) Hildigunnur, f. 8.6. 1954, arkitekt í Reykjavík og á Rifi í Snæfellsbæ. Sambýlismaður er Þórir Gunnarsson, f. 24.8. 1946. Fyrrverandi maki er Ásgeir Sverrisson, f. 15.11. 1952. Börn þeirra eru Sverrir, f. 20.12. 1977, og María, f. 16.11. 1982.

Bróðir Herdísar var Hannes Jónsson, f. 20.10. 1922, d. 10.7. 2006. Hann vann í utanríkisþjónustu Íslands og varð sendiherra í sendiráðum víða erlendis, en bjó lengst af í Kópavogi. Hálfsystkini Herdísar: Ingimar Bragi, f. 9.12. 1939, d. 24.12. 1950, og Jóhanna Þórunn, f. 18.12. 1947, handavinnukennari í Reykjavík.

Móðir Herdísar var María Hannesdóttir, f. 5.4. 1902, d. 4.6. 1992, verka- og prjónakona og húsmóðir í Reykjavík og varð ung ekkja. Faðir Herdísar var Jón Guðmundsson, f. 15.11. 1890, d. 15.1. 1926, bóndi á Bakka í Ölfusi en áður sjómaður í Reykjavík. Stjúpfaðir Herdísar var Ingimar Magnús Björnsson, f. 5.7. 1904, d. 14.2. 1967, sjómaður og síðar vélsmiður í Reykjavík.