Katrín Tinna Jensdóttir, landsliðskona í handknattleik, gekk í gær til liðs við úrvalsdeildarlið ÍR og samdi við félagið til ársins 2026. Katrín er 21 árs gömul, leikur sem línumaður, en hún hefur spilað með Skara í sænsku úrvalsdeildinni að undanförnu og áður með Volda í Noregi

Katrín Tinna Jensdóttir, landsliðskona í handknattleik, gekk í gær til liðs við úrvalsdeildarlið ÍR og samdi við félagið til ársins 2026. Katrín er 21 árs gömul, leikur sem línumaður, en hún hefur spilað með Skara í sænsku úrvalsdeildinni að undanförnu og áður með Volda í Noregi.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir til sumarsins 2027. Þórey Anna er 26 ára gömul og leikur sem hægri hornamaður og skytta. Hún gekk til liðs við Val frá Stjörnunni sumarið 2020 og hafði áður leikið með FH og Gróttu. Hún var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í fyrravor.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley töpuðu dýrmætum stigum á heimavelli í miklum fallslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Þeir tóku þá á móti Luton sem jafnaði, 1:1, með umdeildu marki sem Carlton Morris skoraði í uppbótartímanum. Zeke Amdouni hafði komið Burnley yfir í fyrri hálfleik. Burnley er áfram illa statt í næstneðsta sætinu, fjórum stigum á eftir Luton.

Dominic Solanke, sóknarmaður Bournemouth, var í gær útnefndur besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í desember. Unai Emery hjá Aston Villa var útnefndur besti knattspyrnustjóri desembermánaðar.

Jakob Franz Pálsson knattspyrnumaður frá Akureyri, sem lék með KR á síðasta tímabili, hefur samið við Valsmenn til fjögurra ára. Jakob, sem er nýorðinn 21 árs og lék áður með Þór, spilaði 25 af 27 leikjum KR í Bestu deildinni í fyrra og skoraði eitt mark. Hann var í láni hjá Vesturbæingum frá Venezia á Ítalíu.