Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson
Lífeyrissjóðir hafa ekki leyfi til að gefa fé sjóðfélaga og styðja við góð málefni, sama hversu mikilvæg og nauðsynleg þau eru. Þeir fá ótal slíkar beiðnir á hverju ári og verða að hafna þeim öllum.

Gunnar Baldvinsson

Innviðaráðherra var í viðtali í morgunútvarpi í byrjun ársins og sagði óskiljanlegt að lífeyrissjóðirnir tækju ekki utan um Grindvíkinga. Með því vísar hann til þess að lífeyrissjóðir hafa lýst því yfir að þeim sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur af lánum til Grindvíkinga í almennri aðgerð. Eðlilegt er að fólk spyrji sig að því hvað skýrir þessa afstöðu sjóðanna og hvað er til ráða til að veita fjárhagslegan stuðning vegna náttúruhamfara.

Víðast hvar hefur verið litið svo á að það sé ein af skyldum þjóðfélagsins að tryggja öldruðum fjárhagslegt öryggi þegar ævistarfi þeirra lýkur. Á Íslandi greiða lífeyrissjóðir meirihluta eftirlauna. Sjóðirnir byggjast á skyldusparnaði vinnandi fólks á aldrinum 16-70 ára en samkvæmt lögum skulu allir greiða 15,5% af launum í lífeyris-
sjóð. Margir eru einnig með
viðbótarlífeyrissparnað, sem segja má að sé einnig þvingaður sparnaður vegna mótframlags launagreiðanda, og leggja því fyrir rúmlega 20% af launum eða fimmtung af launum.

Það gefur augaleið að setja verður reglur um meðferð skyldusparnaðar. Á sama tíma og löggjafinn skyldar fólk til að spara verulegan hluta launa verður að búa til reglur um meðferð sparnaðarins og eftirlit. Ein af grundvallarreglunum er að lífeyrissjóðum og vörsluaðilum lífeyrissparnaðar er ekki heimilt að greiða fyrir annað en það sem er nauðsynlegt vegna starfsemi þeirra. Lífeyrissjóðir hafa þá einu skyldu að varðveita sparnað sjóðfélaga, ávaxta hann samkvæmt fjárfestingarstefnu og greiða lífeyri.

Sjóðirnir hafa ekki leyfi til að gefa fé sjóðfélaga og styðja við góð málefni, sama hversu mikilvæg og nauðsynleg þau eru. Lífeyrissjóðirnir fá ótal slíkar beiðnir á hverju ári og verða að hafna þeim öllum. Það eru engar undantekningar á þessari reglu. Ef svo væri hvar ætti þá að draga mörkin?

Innanríkisráðherra, sem er einn af oddvitum ríkisstjórnarinnar, hlýtur að tala gegn betri vitund þegar hann kallar eftir að lífeyrissjóðir geri undantekningu frá lögum. Ráðherrann tók þátt í að hækka skyldusparnað í lífeyrissjóð um tæp 30% árið 2022 og þekkir því reglur sem gilda um sparnaðinn. Innviðaráðherra getur heldur ekki verið alvara þegar hann kastar því fram að forráðamenn lífeyrissjóðanna ættu þá bara að koma til stjórnvalda og óska eftir lagabreytingu til þess að sjóðirnir geti stutt við góð málefni.

Þjóðin stendur með Grindvíkingum og fólk vill að þeim sé hjálpað fjárhagslega vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga. Þegar áföll dynja yfir einstaka hópa og tryggingar duga ekki til að bæta tjón er nærtækast að stuðningur komi úr ríkissjóði sem er sameiginlegur sjóður allra landsmanna. Með því móti eru allir með og slíkan stuðning er hægt að fjármagna með sértækri skattlagningu.

Stjórnvöld hafa alla þræði í hendi sér til að bregðast við ákalli um fjárhagslega aðstoð vegna náttúruhamfara. Til lengri tíma gæti einnig verið skynsamlegt að þau beiti sér fyrir bættum náttúruhamfaratryggingum eða úrræðum til að bæta tjón af þeim toga sem Grindvíkingar standa frammi fyrir. Slík tryggingavernd kæmi bæði fasteignaeigendum (lántökum) og lánveitendum til góða.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Höf.: Gunnar Baldvinsson