Björgunarsveitir við sprunguna í Grindavík, sem maður féll niður í á miðvikudag. Hún er um 20-30 m djúp og vatn í henni. Ekki þótti óhætt að senda kafara niður í hana, svo m.a. var notast við dróna til leitarinnar en án árangurs.
Björgunarsveitir við sprunguna í Grindavík, sem maður féll niður í á miðvikudag. Hún er um 20-30 m djúp og vatn í henni. Ekki þótti óhætt að senda kafara niður í hana, svo m.a. var notast við dróna til leitarinnar en án árangurs. — Morgunblaðið/Kristinn
Hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra síðastliðið sumar hafði hvorki nægilega stoð í lögum né gætti ráðherrann meðalhófs við reglugerðarsetningu um það, að því er fram kom í áliti umboðsmanns Alþingis

6.1.-12.1.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra síðastliðið sumar hafði hvorki nægilega stoð í lögum né gætti ráðherrann meðalhófs við reglugerðarsetningu um það, að því er fram kom í áliti umboðsmanns Alþingis. Hvalveiðibannið var því ólögmætt og braut gegn stjórnarskrárbundnu atvinnufrelsi og eignarréttindum Hvals hf., sem eitt varð fyrir barðinu á banninu.

Hringrás segir vart svara kostnaði að flytja brotajárn úr landi, heimsmarkaðsverð á því hefði fallið mjög og styrking krónunnar gagnvart evru hefði gert illt verra.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kvaðst styðja hugmyndir um sérlög til þess að tryggja nýja raforkuöflun í landinu. Orkuskorturinn væri orðinn þjóðaröryggismál.

Athugun Faxaflóahafna bendir til að Reykvíkingar hafi miklar tekjur af farþegum skemmtiferðaskipa, en tæpir 14 milljarðar kr. koma með þeim inn í íslenskt hagkerfi.

Flugumferðarstjórar og Samtök atvinnulífsins vilja reyna nýja nálgun í vinnudeilu þeirra, en lítið hefur miðað í samkomulagsátt.

Tvennt lést í bílslysi á Grindavíkurvegi.

Þingmenn í stjórnarandstöðu töldu að Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra hefði ljóslega orðið á í messunni og sú skoðun útbreidd að hún ætti að segja af sér. Ella þyrfti þingið að grípa til sinna ráða, sem var illa dulin hótun um vantrauststillögu.

Mikill kurr var í stjórnarliðinu vegna álits umboðsmanns Alþingis á ólögmæti hvalveiðibanns Svandísar matvælaráðherra. Meðal þingmanna Sjálfstæðisflokks ríktu miklar efasemdir um að þeir myndu verja Svandísi vantrausti, kæmi tillaga fram um það á Alþingi. Sömu sjónarmið mátti heyra meðal framsóknarmanna, þó þeir væru ekki jafnafgerandi.

Nefnd var sú lausn að Svandís
færi úr stól matvælaráðherra yfir í annan við ríkisstjórnarborðið, en samherjarnir gætu ella trauðla varið hana vantrausti vegna drengskaparheits þeirra við stjórnarskrána.

Þingmenn Vinstri grænna vildu sem minnst tjá sig um málið, en ekki var á þeim eða forystu flokksins að heyra að tomma yrði gefin eftir. Fyrr yrði ríkisstjórnarsamstarfið gefið upp á bátinn en að Svandís Svavarsdóttir játaði mistök.

Tjaldbúðir Palestínuaraba á Austurvelli vöktu spurningar, þar sem bannað er samkvæmt lögreglusamþykkt að tjalda annars staðar en á sérmerktum tjaldstæðum, en leyfi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar var aðeins gefið fyrir mótmælum, ekki tjöldum.

Jarðfræðingar töldu að nýtt eldgos við Sundhnúkagígaröð á Reykjanesskaga væri líklegt.

Bæði Miðflokkur og Flokkur fólksins boðuðu vantrauststillögu á Svandísi matvælaráðherra þegar þingfundir hæfust að nýju hinn 22. janúar. Miðflokksmenn töldu meirihluta fyrir henni á þingi.

Sorphirða í Reykjavík hefur verið meira og minna í molum frá því fyrir jól, svo víða safnaðist upp sorp og tunnur yfirfylltust. Sorphirðumenn á vegum borgarinnar vildu hins vegar ekki tæma yfirfullu tunnurnar nema fyrir aukagjald.

Tómas Guðbjartsson læknir kvaðst hafa farið í leyfi af Landspítala að eigin ósk. Hann baðst afsökunar á því sem út af hefði borið hjá honum í svokölluðu plastbarkamáli, tilraunalækningum undir stjórn erlends læknis, sem reyndust eiga meira skylt við skottulækningar.

Reykjavíkurborg kvað upp úr um að Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og borgarfulltrúi, væri ekki vanhæfur til þess að fjalla um málefni flóttamanna á vettvangi borgarinnar, þó hann fengist líka við lögmennsku fyrir flóttamenn. Hann væri Pírati og þessi borgarapparöt réðu þar fyrir utan engu.

Spjótin stóðu áfram á Vinstri- grænum, en æ fleiri atkvæðamenn í samstarfsflokkunum kváðu upp úr um það að matvælaráðherra yrði að axla ábyrgð á löglausu hvalveiðibanni.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, telur að það séu efni til ákæru landsdóms á hendur Svandísi Svavarsdóttur vegna hvalveiðibannsins, án þess að hann sé því hlynntur.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsfrömuður á Akranesi, telur að bótakröfur á hendur ríkissjóði vegna hins ólögmæta hvalveiðibanns muni nema 2-4 milljörðum króna.

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor um árabil sagði útreikninga Samkeppniseftirlitsins (SKE) um þjóðhagslegan ávinning íhlutana þess úr öllum tengslum við raunveruleikann. Efamál væri að ríkisútgjöld vegna þess svöruðu kostnaði.

Í ljós kom að mótmælendur í tjaldbúðum Palestínuaraba á Austurvelli lögðu óvarinn rafmagnskapal í óleyfi í rafmagnsskáp á vegum borgarinnar og stálu rafmagni.

Mótmælendur gerðu hróp að ráðherrum og kölluð þá svikara og morðingja fyrir að styðja ekki Hamas í viðleitni samtakanna til að útrýma gyðingum.

Maður var dæmdur í 8 ára fangelsi í héraði fyrir að hafa orðið öðrum að bana á Ólafsfirði haustið 2022. Hann áfrýjaði.

Guðlaugur Þór Þórðarson varð staðgengill Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en hálf ríkisstjórnin var utan þjónustusvæðis. Allt kom fyrir ekki, landið var ekkert skárra undir Gulla.

Jarðvegur hrundi undan manni að störfum við sprungufyllingar í Grindavík og féll hann niður í hyldjúpa sprungu fulla af jarðvatni, um 13 m djúpu. Meira en hundrað manns komu að björgunaraðgerðum, en erfitt var um vik og ekki hægt að senda menn niður í sprunguna.

Samtök iðnaðarins gera ráð fyrir verulegum samdrætti í byggingu íbúðarhúsnæðis á komandi misserum. Lóðaskortur og hár fjármagnskostnaður eru helstu ástæðurnar.

Góður gangur er sagður vera í viðræðum vinnuveitenda og verkalýðsrekenda.

Hjálmari Jónssyni, framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins, var fyrirvaralaust sagt upp störfum, en hann hafði gagnrýnt að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, hefði ekki viljað svara blaðamönnum um skattamál sín. Hann fullyrti að hún hefði orðið uppvís að skattsvikum þrjú ár í röð vegna útleigu á ferðamannaíbúðum. Hún neitaði því en skýrði það ekki nánar.

Ásmundur Einar Daðason barnaráðherra kynnti áform um byggingu þjóðarhallar í 84. sinn.

Skerðing raforkuafhendingar Landsvirkjunar mun hefjast í komandi viku.

Sorpa hætti að dreifa bréfpokum undir matarleifar eftir að hafa gefið þá í tugmilljónatali án þess að nokkur vita hvað af þeirri gommu varð.

Björgunaraðgerðir í Grindavík báru engan árangur.

Deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands telur koma til greina að lög um ráðherraábyrgð eigi við um matvælaráðherra vegna hvalveiðibanns hennar. Reynist um ásetningsbrot eða stórkostlegt hirðuleysi að ræða getur Svandís reynst refsi- og skaðabótaábyrg.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vill styrkja eftirlit í landamærastöðvum Íslands.

Jökulhlaup hófst í Grímsvötnum og auknar líkur eru á eldgosi þar.

Íslendingar náðu hetjulegu jafntefli við Serba, 27:27, á Evrópumeistaramóti í handbolta.

Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi og fv. borgarfulltrúi, lést 92 ára.