Magnús Valdimar Ármann fæddist 7. janúar 1933. Hann lést 22. desember 2023. Útför hans fór fram 5. janúar 2024.

„Veistu hvað, afi? Við erum alveg viss að það hefur aldrei verið sprengt eins mikið og í ár.“

Afi hélt mikið upp á barnabörnin og var mjög ánægður að fá okkur í heimsókn. Honum þótti líka alltaf svo gott þegar við komum, því þá bauð amma upp á eftirrétt. Afa þótti fátt betra en eftirréttur hjá ömmu og deilum við öll hans ánægju af að fá góðan eftirrétt og þá sérstaklega ís.

Afi var ávallt fastagestur á kaffihúsinu sem ég rak samviskusamlega á Sunnubrautinni og hlustaði alltaf þegar ég æfði mig á píanó hjá þeim. Þó var alltaf mikilvægt að hlusta á fréttirnar og með hækkandi aldri þá hækkaði hljóðstillingin í útvarpinu sömuleiðis, þá mátti oft heyra ömmu segja: „Maggi! Viltu lækka í þessu.“

Afi átti sína stóla, annan heima og hinn í sumarbústaðnum, þar sem hann sat og horfði á sjónvarpið og hlustaði á fréttirnar. Þegar hann kom í heimsókn til okkar sat hann alltaf í svaninum. Afi fékk okkur til þess að hlæja og vinna ýmis verkefni eins og að hreinsa lækinn í sumarbústaðnum. Í bústaðnum átti afi flottar derhúfur og marga fíla sem hann hafði safnað sér.

Afa fannst mikilvægt að gera greinarmun á því hvort við værum að koma eða fara og leiðrétti okkur oft þegar við notuðum þessi orð á rangan hátt. Hann fylgdist alltaf vel með því hvað væri í gangi hjá okkur í lífinu, spurði reglulega hvernig gengi og hlustaði af miklum áhuga á allt sem við höfðum að segja.

Takk fyrir allt elsku afi.

Þín

Inga Huld, Óðinn Valdimar og Iðunn Rut.

Ég man ekki öðruvísi eftir mér en talað væri um Magga frænda. Hann var móðurbróðir minn. Líf mitt var alltaf tengt Magga, Helgu og strákunum, ég var oft í pössun hjá þeim sem barn og ávallt var gaman. Fjölskyldur okkar voru alltaf saman á jólum og páskum, þá var mikið spjallað til gagns og gamans. Maggi var sá eini sem mátti kalla mig Pöllu, ef aðrir gerðu það þá svaraði ég ekki og geri ekki svo enn. Fermingargjöfin var útvarpsvekjaraklukka sem mér þótti mjög merkileg gjöf og þykir alltaf mjög vænt um. Ég kveð Magga frænda með ást og söknuði, rík af minningum um margar góðar stundir. Elsku Helga, bræður og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Pálína

Björnsdóttir.

„Maggi bróðir er að koma“ eða „Maggi, Helga og strákarnir kíkja við á eftir“. Þetta eru setningar sem ég heyrði mömmu oft segja í minni barnæsku og fram eftir aldri. Það var alltaf tilhlökkun að hitta þau. Mamma átti einn bróður, hann Magga eins og hún kallaði hann. Maggi var fimm árum yngri en mamma, þannig að hann var litli bróðir hennar. Mikill samgangur var á milli fjölskyldna okkar, um jól, páska, í sumarbústaðnum, í veiðiferðum og annað fjölmargt skemmtilegt. Við áttum frábærar stundir saman, fullorðnir og börn. Við elstu börnin vorum á svipuðum aldri og urðum miklir félagar. Lékum okkur mikið og bjuggum til alls konar ævintýri, sérstaklega uppi í sumarbústað. Þessar stundir eru dýrmætar í minningunni.

Samband mömmu minnar og Magga var einstakt. Virðing og væntumþykja einkenndi samband þeirra. Já, þau vildu hvort öðru allt hið besta alla tíð. Ég tók strax eftir þessu sem barn hvað þau voru samrýnd systkini.

Maggi var mjög hress og skemmtilegur, alltaf gaman að hitta hann. Hann var algjör græjukarl, hafði gaman af nýjum tækjum og bílum. Hann var einn af þeim fyrstu að nota gsm-síma, sem kom sér vel í vinnunni hans sem skipamiðlari. Þegar mamma þurfti að liggja á spítala í langan tíma, þá kom Maggi með gsm-síma til hennar. „Jæja, Lilla mín, þú þarft nú ekkert að vera sambandslaus þótt þú sért á spítala.“ Mamma var himinlifandi og hringdi út um allt.

Ég kveð ástkæran frænda minn með ást og virðingu.

Elsku Helga, Sigbjörn, Páll Þór, Valdimar og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur.

Ásta

Björnsdóttir.

Maggi frændi móðurbróðir minn er farinn í sína hinstu ferð. Í gegnum árin er margs að minnast hjá miklum karakter, því það sem systkinin mamma og Maggi kenndu manni var hvað samheldni og ættrækni skiptu miklu máli.

Minnisstæðar ferðir í Flóku og Allra meina bót eru ofarlega í huga því veiði var ofarlega á lista yfir áhugamál. Og Maggi vildi tryggja að undirritaður hefði góðar veiðigræjur og gaf mér mína fyrstu veiðistöng, ABÖ af betri gerðinni

Fastur punktur var heimsóknir til Helgu og Magga um jól og páska milli fjölskyldna. Tryggði það enn frekar tengsl okkar unga fólksins. Og alltaf virti ég það mikið hvað faðir minn og Maggi voru nánir vinir, þeir hjálpuðust að þegar pabbi var að reisa Bótina.

Sem ungum manni gerði Maggi frændi mér mögulegt að gerast háseti á olíuskipinu Kyndli, það var mannbætandi og kynntist þá miklum skipulagshæfileikum Magga og stjórnsemi á góðan hátt. Hann var skipamiðlari og það var bara hörku keppnis.

Maggi frændi var mjög áhugasamur um sveitina og búskap og reisti sér sumarhús í sinni gömlu sveit á Mosunum í Lunansholtslandi. Þar undu þau Helga mörgum stundum.

Eftir að undirritaður hóf búskap hefði ættræknin getað verið betri, en við fengum þó yngsta soninn, Valdimar, í sveit í heil fimm sumur. Maggi og Helga voru sérlega ánægð með það. Og við Ragna líka.

Elsku Helga og strákar og fjölskyldur, votta ykkur mína innilegustu samúð. Góður drengur að kveðja, sem lifir samt með okkur lengi.

P.s. Hann er örugglega sestur á árbakkann með stöngina, í sól með einn kaldan.

Sigbjörn Lundum.

Þegar ég sest niður til þess að minnast míns góða vinar og jafnaldra Magnúsar V. Ármann (Magga) þyrlast í huga mér ótal minningar um félagsskap okkar á liðnum sjötíu árum, en kynni okkar hófust í MR á sjötta áratug síðustu aldar. Þau kynni þróuðust fljótt til ævilangrar vináttu. Með okkur Magga í bekk var frá upphafi Birgir Ísl. Gunnarsson, sem við tengdumst einnig vinaböndum til æviloka Birgis. Við kvæntumst allir skömmu eftir stúdentspróf og áttum því láni að fagna að konur okkar bundust einnig vinaböndum – þannig að við urðum öll vinir. Við hittumst mjög oft á þessum árum og skemmtum okkur saman, fórum t.d. reglulega saman í leikhús þar sem við áttum fasta miða um árabil.

Að sjálfsögðu áttum við félagarnir hver sín áhugamál. Maggi var okkar mestur íþróttamaður. Hann stundaði skíðamennsku frá ungum aldri og ef ég man rétt keppti hann um skeið á skíðum fyrir Skíðadeild Ármanns. Þau hjónin, Maggi og Helga, sinntu þessu áhugamáli í mörg ár m.a. með árlegum skíðaferðum erlendis. Sameiginleg íþróttaiðkun okkar félaga var ekki margbrotin, en við lékum þó badminton saman um nokkurt skeið og síðar stunduðum við Maggi saman golf í nokkur sumur.

Sameiginlegt áhugamál okkar félaganna var laxveiði, en við Maggi veiddum um árabil saman lax í mörgum ám. Við vorum nokkuð sérstakir að því leyti að konur okkar voru gjarnan með í veiðiferðum, en það var fátítt á þeim árum.

Maggi hafði frá ungum aldri stundað laxveiði með föður sínum, Sigbirni Ármann, sem hafði atvinnu af því að leigja laxveiðiár og selja útlendingum veiðileyfi, einkum enskum veiðimönnum. Maggi varð ungur snillingur að veiða með flugu og lærði ég mikið af honum um fluguveiði.

Einnig minnist ég margra ánægjustunda með Magga og Helgu erlendis, bæði í sólarlöndum og annars staðar. Þá fórum við Maggi saman í nokkrar ferðir til útlanda vegna fyrirtækis, sem við áttum báðir hlutdeild í.

Maggi hóf snemma að vinna við skipamiðlun og starfaði sem skipamiðlari alla sína starfsævi – fyrst hjá Skipamiðlun Gunnars Guðjónssonar, en eftir að Gunnar lét af störfum rak Maggi fyrirtækið um nokkurt skeið sem meðeigandi ásamt Magnúsi, syni Gunnars. Fljótlega keypti Maggi hlut Magnúsar Gunnarssonar í fyrirtækinu og rak það síðan sem sitt einkafyrirtæki – þar til hann, fyrir aldurs sakir, lét af störfum og við skipamiðluninni tók Sigbjörn, sonur hans, sem hefur rekið hana síðan eins og Maggi af miklum metnaði og dugnaði.

Vinátta okkar bekkjarfélaganna þriggja úr MR, Magga, Birgis og undirritaðs, verður mér frábært veganesti til æviloka. Einnig eru samverustundirnar sem við hjónin áttum með Helgu og Magga óteljandi og ljúft að minnast þeirra, svo og gagnkvæm samvera fjölskyldna okkar. Allar þessar minningar verma á gamalsaldri.

Við Esther sendum Helgu, sonum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þorsteinn Júlíusson.

Stundum kynnist maður fólki sem fær mann til að hlusta af athygli. Fólki sem fer í umræðuna beint að kjarnanum án bollalegginga. Maggi var einn af þeim. Hann var ekki endilega margmáll og tranaði sér ekki fram en kunni að kjarna sínar skoðanir með beinskeyttum sannfæringarkrafti. Maggi var bróðir tengdamóður minnar, Sigríðar Ármann, sem hafði raunar sömu eiginleika. Skoðanir þeirra á mönnum og málefnum voru hnitmiðaðar, hreinar og beinar. Magga tókst oft að hrífa mig með þótt við værum ekkert endilega sammála um allt. Maggi hleypti ekki mörgum nálægt sér en var tryggur og traustur sínum nánustu. Við Ásta, konan mín, fórum í meira en 20 ár í veiðiferðir í Gljúfurá í Borgarfirði með Magga, Helgu og fjölskyldum þeirra. Þar var ávallt líf og fjör og þar var Maggi hrókur alls fagnaðar. Maggi var frábær veiðimaður og unun að fylgjast með honum handleika flugustöngina og kasta flugunni. Maggi átti ekki langt að sækja veiðiáhugann því faðir hans Sigbjörn Ármann var einn helsti frumkvöðull í ræktun íslenskra laxveiðiáa. Í Gljúfurá kenndi hann mér og strákunum sínum handbrögðin. Sú þekking hefur svo skilað sér einnig til barnabarnanna hans sem eru líka efnilegir veiðimenn. Ég er á því að strákarnir hans Magga, þeir Sigbjörn, Páll Þór og Valdimar, hafi fengið, umfram mig, veiðigenin hans í bónus. Enda eru þeir mun betri veiðimenn en ég og með ódrepandi veiðiáhuga. Mér eru sérstaklega minnisstæðar gæðastundir sem við Maggi áttum saman í Oddahyl í Gljúfurá en þar setti hann í ótal fiska. Maggi kenndi mér að veiða hylinn og kenndi mér þar að kasta flugunni. Einhverju sinni þegar ég var með Magga í Oddahyl fannst honum ég vera fullrólegur og taka mér of langan tíma í að skipta um flugu. Þar kenndi hann mér ráð sem er eina veiðiráðið sem ég trúi fullkomlega á. „Þú veiðir aldrei með fluguna uppi á bakka – hún verður að vera í ánni.“ Þetta eru sannindi sem ekki er hægt að rengja og réttara en öll veiðispeki þeirra sem best þykjast kunna.

Ég kveð Magga með virðingu og eftirsjá en minningin um eftirminnilegan og skemmtilegan mann mun lifa.

Guðni B. Guðnason.