Ríkisstjórnin er svo að segja rúin öllu trausti og stór hluti þjóðarinnar bíður næstu alþingiskosninga og vonar að þær verði fyrr en síðar.
Ríkisstjórnin er svo að segja rúin öllu trausti og stór hluti þjóðarinnar bíður næstu alþingiskosninga og vonar að þær verði fyrr en síðar. — Morgunblaðið/Ómar
Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við að hún er orðin móðgun við þjóðina.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Flestir borgarar þessa lands eru örugglega þannig gerðir að í hvert sinn sem boðað er til kosninga sinna þeir borgaralegri skyldu sinni og mæta á kjörstað. Þeir gera sér væntanlega ákveðnar vonir um úrslit sem séu þeim að skapi en verði svo ekki hafa þeir yfirleitt vit á því að sætta sig við það. Þeir óska ríkisstjórn, borgarstjórn og forseta alls hins besta, hvort sem þeir settu x við þau eða einhvern annan. Þeir vilja að fólk standi sig í verkefnum sínum, sýni metnað og dug og hagi sér almennilega. Stundum kemur í ljós að þar hefur verið farið fram á allt of mikið. Það á við um núverandi ríkisstjórn.

Almenningur horfir furðu lostinn á harðar skeytasendingar milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Það er of vægt að tala um pirring á milli flokkanna, botnlaus andúð er mun betri lýsing á tilfinningunum sem ríkja þar á milli. Það er greinilega ekki nóg að formenn þessara flokka kunni afar vel hvor við annan. Velvildin þar á milli hefur ekki smitast út til stórs hluta flokksmanna.

Stjórnmálamenn í ríkisstjórnarsamstarfi bera mikla ábyrgð. Þeir eru að vinna fyrir fólkið í landinu og eiga að leitast við að gera þjóð sinni gagn. Núverandi ríkisstjórn er eiginlega hætt að gera nokkurn skapaðan hlut sem skiptir máli. Tveir stjórnarflokkanna hatast hvor við annan og hafa ekki lengur áhuga á að fela þær tilfinningar sínar. Þriðji flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, bregst við eins og manneskjur gera oft þegar þær lenda í miðju deilna annarra, heppilegast þykir að láta eins og ekkert sé og sveipa sig hlutleysi.

Þjóðin horfir upp á þessi læti og veit að henni er ætlað að umbera þau fram á næsta ár þegar kjörtímabilinu lýkur. Ríkisstjórnin virðist ætla að hökta áfram og neitar að horfast í augu við að hún er orðin móðgun við þjóðina.

Þjóðin á rétt á því að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn sem beini orku sinni í verkefni sem koma að gagni og auka velsæld í landinu. Hún á ekki skilið að hafa yfir sér stjórnmálamenn sem eyða umtalsverðri orku í að skamma samstarfsflokk svo að segja dag hvern og eru fyrir vikið svo pirraðir og reiðir að þeir koma fáu öðru í verk.

Nú er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra miðdepill atburða eftir að umboðsmaður Alþingis kvað upp þann úrskurð að hún hefði brotið lög þegar hún stöðvaði hvalveiðar með nánast engum fyrirvara. Sú gjörð hennar var algjörlega fáránleg og þess er krafist að hún axli ábyrgð. Það ætti hún vissulega að gera, eins og allir aðrir stjórnmálamenn sem verða uppvísir að brotum. Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskir stjórnmálamenn sleppa yfirleitt létt verði þeir uppvísir að afglöpum í starfi. Það er til dæmis mjög einkennilegt, og nánast súrrealískt, þegar ráðherra tilkynnir með lúðrablæstri að hann ætli sér að axla ábyrgð og gerir það svo með því að skipta um ráðuneyti, eins og Bjarni Benediktsson gerði á dögunum. Nú heimta öskureiðir Sjálfstæðismenn að Svandís geri slíkt hið sama. Axli ábyrgð með því að flytja sig í annað ráðuneyti, ef hún vill ekki segja af sér ráðherradómi sem þeim þætti samt allrabest. Ekki verður annað séð en einhverjir stjórnarandstæðingar séu sammála því að flutningur Svandísar milli ráðuneyta væri æskilegur.

Hér skal fullyrt að meirihluti almennings eigi erfitt með að skilja hvernig verið sé að axla ábyrgð á broti í starfi með því að flytja sig úr einu góðu djobbi yfir í annað gott starf. Það er allavega undarleg pólitík.

Yfir Svandísi Svavarsdóttur vofir vantrauststillaga sem einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokks virðast vilja styðja. Það hljóta þó að vera hugargælur. Það væri mjög úr karakter fyrir Sjálfstæðismenn að fella eigin ríkisstjórn. En geri þeir það samt mun þjóðin eflaust kunna þeim þakkir fyrir. Þjóðin getur nefnilega ekki beðið eftir að losna við þessa ríkisstjórn, sem er lifandi dauð. Hinn mjög svo ágæti forsætisráðherra landsins, Katrín Jakobsdóttir, á svo skilið betra hlutskipti en að þurfa að vera í forsvari fyrir þann óskapnað sem þessi ríkisstjórn er orðin.

Íslenska þjóðin á sömuleiðis svo miklu betra skilið en þessi ósköp öll.