Opið bréf David Schwimmer leikari var einn þeirra sem skrifuðu undir.
Opið bréf David Schwimmer leikari var einn þeirra sem skrifuðu undir. — AFP/Tibrina Hobson
Rúmlega 260 leikarar og framleiðendur úr röðum gyðinga hafa skrifað undir opið bréf þar sem harmað er að bandaríska kvikmyndaakademían skuli ekki hafa haft gyðinga með á lista yfir hópa sem ekki fái að njóta sín nægilega í kvikmyndum

Rúmlega 260 leikarar og framleiðendur úr röðum gyðinga hafa skrifað undir opið bréf þar sem harmað er að bandaríska kvikmyndaakademían skuli ekki hafa haft gyðinga með á lista yfir hópa sem ekki fái að njóta sín nægilega í kvikmyndum.

Listinn er hluti af átaki til að auka fjölbreytileika í kvikmyndum og eigi mynd að vera gjaldgeng til Óskarsverðlauna í flokknum besta myndin þarf minnst einn leikari í aðalhlutverki eða veigamiklu aukahlutverki að vera úr einhverjum hópanna. Reglurnar verða notaðar næst þegar verðlaunin verða afhent.

Í The New York Times kemur fram að í bréfinu segi að það sé til marks um andsemítisma eða andúð að sleppa gyðingum úr átaki, sem eigi að rétta hlut hópa sem hafi verið sniðgengnir, og sýni um leið skilningsleysi á fyrirbærinu. Með þessu sé ýtt undir þá mýtu að rasismi í garð gyðinga sé ekki alvörumál eða tilheyri fortíðinni.

Leikararnir David Schwimmer, Julianna Margulies og Josh Gad voru meðal þeirra sem undirrituðu opna bréfið, sem skrifað var undir merkjum samtakanna Jews in the City.