„Ég veit ekki hvort ég hefði orðið vinstrisinnaður án pabba,“ segir Mímir Kristjánsson.
„Ég veit ekki hvort ég hefði orðið vinstrisinnaður án pabba,“ segir Mímir Kristjánsson. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta voru einstakar sögustundir, fullar af töfrum. Ég vissi aldrei alveg hvað væri sannleikur og hvað væri skáldskapur hans.

Kristján L. Guðlaugsson (1949-2923) var menntaður sagnfræðingur frá Lundi í Svíþjóð en starfaði lengst af sem blaðamaður á Íslandi og í Noregi. Þegar hann lést hafði hann að mestu lokið við skáldsöguna, Draumur Jórsalafarans, sem kom út fyrir síðustu jól með formála sonar hans, Mímis Kristjánssonar stórþingmanns í Noregi.

„Pabbi skrifaði alla ævi en aðallega í dagblöð, orti ljóð og skrifaði smásögur en skrifaði ekki skáldsögur. Rúmlega sjötugur hugsaði hann með sér að nú væri kominn tími á skáldsögu og skrifaði þessa bók. Hann lauk að mestu við hana áður en hann lést og við aðstandendur í samvinnu við bókaútgáfuna Sæmund gengum frá verkinu. Það var mikilvægt fyrir okkur fjölskylduna að bókin kæmi út,“ segir Mímir.

Draumur Jórsalafarans er skáldsaga sem gerist á krossferðatímum. Drengur, sem ólst upp í klaustri, heldur í pílagrímaför til Jerúsalem og kemur við í þýsku þorpi.

Um bókina segir Mímir: „Ég er ekki bókmenntagagnrýnandi en mér finnst gott að sjá að einhverjir búa yfir ímyndunarafli þegar þeir skrifa bók. Fólk er mikið til að skrifa um sig sjálft og erfiða lífsreynslu sína. Þetta er ekki þannig bók. Þótt faðir minn hafi skrifað þessa bók um ferð til Jerúsalem þá var hann ekki kristinn að nokkru leyti, þótt hann héti Kristján. Þessi bók er minnismerki um hann og góð leið til að heiðra minningu hans.“

Höfundur Ísland úr Nató

Kristján var þekktur baráttumaður í vinstrihreyfingunni. Hann var víðförull og bjó um tíma í Kína og lærði kínversku. Hann gerði textann fræga Ísland úr NATÓ og herinn á brott. „Hann söng textann og lagið fyrir mig þegar ég var barn,“ segir Mímir. „Hann spilaði mikið á gítar og söng og þetta var eitt þeirra laga sem ég heyrði mjög oft. Ég varð mjög undrandi þegar ég kom til Íslands og fann lagið á geisladiski og komst að því að aðrir þekktu textann

Pabbi var frá unga aldri hluti af vinstrihreyfingunni. Hann trúði á baráttu fyrir betri heimi en gerði sín mistök, hafði til dæmis trú á einræðisherrum sem reyndust svo vera mestu fantar. Þarna var hann ekki einn á báti.

Hann var alla ævi mjög trúr sinni pólitísku sannfæringu. Hann var ætíð gagnrýninn á kapítalismann, hafði andúð á stéttaskiptingu og barðist fyrir jafnrétti og bættum kjörum hinna vinnandi stétta. Þetta var hluti af lífi hans.“

Spurður hvernig faðir Kristján hafi verið segir Mímir: „Fyrst og fremst var hann sögumaður. Hann naut þess að segja sögur. Þegar ég var krakki sagði hann mér sögur úr mannkynssögunni, eins og um Hannibal að fara yfir fjöllin með fílana. Hann sagði mér frá Íslandi og hetjum Íslendingasagna, eins og Gretti sterka.

Þetta voru einstakar sögustundir, fullar af töfrum. Ég vissi aldrei alveg hvað væri sannleikur og hvað væri skáldskapur hans. Það kemur ennþá fyrir, áratugum seinna, að ég hugsa: Er þetta eitthvað sem ég las í bók eða eitthvað sem pabbi sagði mér? Ef það reynist vera eitthvað sem pabbi sagði mér þá hugsa ég: Er þetta satt eða eitthvað sem hann skáldaði?

Það var stórkostlegt að fá að sjá heiminn á þennan hátt. Það er sennilega ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á sömu hlutum og hann.“

Frá blaðamennsku á þing

Mímir ólst upp í Noregi en móðir hans er norsk og faðir hans starfaði lengi þar í landi. Mímir les íslensku og talar hrafl í málinu. „Þegar ég var barn vildi ég ekki læra íslensku og pabbi lagði ekki hart að mér að gera það, sem mér finnst leiðinlegt núna. Heima töluðu foreldrar mínir norsku. Þar sem hann vann í Noregi lagði hann sig fram við að læra norsku og honum fannst mikilvægt að tala eins mikla norsku og mögulegt var. Þannig að ég heyrði ekki mikla íslensku, en ég kem hingað til lands svo að segja á hverju ári því hér á ég stóra fjölskyldu.“

Mímir gerðist blaðamaður eins og faðir hans. Hann hefur skrifað ellefu bækur sem hann segir flestar vera í ætt við blaðamennsku. „Ég hef skrifað eina ævisögu og eina skáldsögu sem var verulega slæm. Hún átti að vera háðsádeila á norsk stjórnmál en það mistókst. Mér finnst ég eiginlega verða að reyna aftur við skáldsagnagerð og gera betur.“

Mímir hætti blaðamennsku og varð þingmaður fyrir Rauða flokkinn, sem er sósíalistaflokkur. „Við þingmenn flokksins erum átta og flokkurinn er með um fimm prósenta fylgi. Ég veit ekki hvort ég hefði orðið vinstrisinnaður án pabba. Maður heldur stundum að allar hugmyndir manns séu manns eigin og ekki frá öðrum komnar, en pabbi hafði mikil áhrif á mig.“