Gæslan Varðskip og flugvélar eru ætíð til taks ef náttúruhamfarir verða. Varðskipið Þór var kallað til vegna umbrotanna við Grindavík í fyrra.
Gæslan Varðskip og flugvélar eru ætíð til taks ef náttúruhamfarir verða. Varðskipið Þór var kallað til vegna umbrotanna við Grindavík í fyrra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir liggur að árið 2024 verður annasamt hjá Landhelgisgæslu Íslands. Ráðgert er að úthaldsdagar varðskipa verði svipað margir og í fyrra. Sömuleiðis er reiknað með miklu álagi hjá flugdeildinni líkt og undanfarin ár

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fyrir liggur að árið 2024 verður annasamt hjá Landhelgisgæslu Íslands. Ráðgert er að úthaldsdagar varðskipa verði svipað margir og í fyrra. Sömuleiðis er reiknað með miklu álagi hjá flugdeildinni líkt og undanfarin ár.

Áætlanir gera ráð fyrir að úthaldsdagar varðskipa verði 380 talsins en það er svipaður úthaldsdagafjöldi og verið hefur á undanförnum árum, samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni upplýsingafulltrúa. Þar af verða bæði skipin á sjó samtímis í um 20 daga. Úthald varðskipanna er með þeim hætti að hvort skip er að jafnaði um þrjár vikur í senn við löggæslu og eftirlit í efnahagslögsögunni. (Þegar Freyja kemur til hafnar á Siglufirði að lokinni eftirlitsferð leggur Þór frá bryggju í Reykjavík og öfugt.) Á þessu ári er gert ráð fyrir að bæði skipin fari í slipp til hefðbundins viðhalds. Freyja fer í júní og Þór í haust. Hvað löggæslu á hafinu varðar stefnir Landhelgisgæslan á að fara til eftirlits í 250-300 skip á árinu.

Í fyrra var sett met í útköllum flugdeildar þegar áhafnir þyrlusveitar og flugvélarinnar voru kallaðar út í alls 314 skipti. Á undanförnum árum hefur flugdeildin séð árlegan vöxt í útköllum. „Við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að fjöldi útkallanna verði svipaður í ár og undanfarin ár,“ segir Ásgeir.

Áætlanir gera ráð fyrir að heildarflugtímar þyrlusveitar verði rúmir 1.000 í ár. Ráðgert er að eftirlitsflugvélinni TF-SIF verði flogið í um 700 flugtíma. TF-SIF fer til Spánar á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu, í lok janúar og verður fram í mars. Þegar vélin lýkur störfum þar fer hún í svokallaða C-skoðun í Bretlandi í framhaldinu sem tekur um mánuð. Vélin verður svo til taks hér heima í sumar sem er afar mikilvægt, að mati Ásgeirs.

„Vélin er ein allra mikilvægasta björgunareining stofnunarinnar og því er sérlega mikilvægt að hafa hana til taks þegar mest skipaumferð er hér við land. Milli jóla og nýárs var vélin til að mynda kölluð út vegna neyðarsendis. Áhöfn vélarinnar gat fundið umræddan sendi hratt og örugglega með öflugum búnaði flugvélarinnar. Það skiptir okkur máli að hafa vélina til taks, bæði til að kortleggja hafsvæðið í kringum okkur og einnig til að bregðast við atvikum sem snúa að leit og björgun.“

Leigja nýjar þyrlur

Fyrr í vetur auglýstu Ríkiskaup forval vegna leigu á þremur björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Núverandi leigusamningar vegna TF-GNA, TF-GRO og TF-EIR renna út árin 2025 og 2026. Í vor hefjast samkeppnisviðræður og Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar á árinu.

Landhelgisgæslan tekur þátt í ýmiss konar fjölþjóðlegu samstarfi á árinu 2024 auk þess sem séraðgerðasveit Gæslunnar skipuleggur alþjóðlega æfingu sprengjusérfræðinga, Northern-Challenge, sem haldin er hér á landi árlega. Æfingin hefur skipað fastan sess hjá fjölmörgum þjóðum. Þar gefst sprengjusérfræðingum um allan heim tækifæri til að æfa saman og bera saman bækur sínar við kjöraðstæður.

Þá mun aðgerðasvið taka þátt í vinnustofum og viðburðum til að kynna sér það sem efst er á baugi varðandi leit og björgun í heiminum. Einnig er aðgerðasvið með það markmið að auka sjálfvirknivæðingu og notkun áhættugreininga við skipulagningu eftirlits. „Sú vinna heldur áfram á árinu og á það leggjum við þunga áherslu. Á undanförnum árum höfum við fylgst náið með nýjustu tækni sem er í þróun í þeim efnum. Árið 2019 fékk Landhelgisgæslan ómannað loftfar til notkunar sem gert var út frá Egilsstaðaflugvelli í samstarfi við EMSA, siglingaöryggisstofnun Evrópu, og fyrir tveimur árum fengum við þyrludróna sem gerðir voru út frá varðskipunum. Þessar prófanir gengu vel og við munum áfram halda áfram að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað á þessum vettvangi.“

Séraðgerðasvið mun áfram taka þátt í þjálfun úkraínskra sprengjusérfræðinga í Litháen ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum. Gert er ráð fyrir fjórum þjálfunartímabilum í samtals 22 vikur.

Heildarfjárheimild til rekstrar landhelgishluta Landhelgisgæslunnar nemur skv. fjárlögum ársins 6.168,9 m.kr. að teknu tilliti til sértekjukröfu. Til viðbótar er fjárfestingaheimild ársins 126,2 m.kr. Samtals 6.295,1 m.kr. Heildarfjöldi starfsmanna um áramót var 230, bæði í landhelgis- og varnarmálahluta LHG.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson