— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Heimurinn er sem hálagler, segir þjóðvísan, og er það enn og er næstum sama hvar borið er niður.

Heimurinn er sem hálagler, segir þjóðvísan, og er það enn og er næstum sama hvar borið er niður.

Barist er í Evrópu núna, eins og stundum endranær, þótt Evrópa sé öðrum þræði stikkfrí, en veitir fé og stríðstól og þótt ekki standist sú hjálp samanburð við Bandaríkin, en vopnavæðing þeirra hefur lengi verið ómæld. En það er komið babb í þann bát. Kosningar eru vestra eftir einungis 10 mánuði og stóru flokkarnir tveir eru að missa stríðsáhugann. Ekki endilega leiðtogar þeirra, þótt spírur repúblikana hiksti meira en hinna, þá hlusta þeir á hljóðin sem berast frá „háttvirtum“ kjósendum sem sjá litla sigurvon lengur og horfa með ólund á tryllingslega sóun fjármuna, ofan á aðra og ómælda eyðslu sitjandi stjórnar sem sögð er hafa slegið öll met í skuldasöfnun.

Lengri aðdragandinn

Stríð í hinni friðsömu Evrópu er þekktur vandi, enda hefur þetta allt gerst áður, maður lifandi. Á nítjándu öldinni nýhafinni var sagt að fína fólkið gerði sér ferð í grösugar hlíðar nærri Waterloo til að fylgjast með síðasta slag Napóleons mikla, þess sama sem margir töldu og trúa enn að hafi verið mestur herforingi sögunnar. Þessi lýsing minnti mest á hátíðarsýningu í leikhúsinu, en vandinn var þó sá að það var ekki hægt að klappa hina föllnu upp.

Napóleon fór víða og laugaði margan blóðvöllinn og þeir sáust dreyrrauðir langt að en svo spratt þar betur en á öðrum ökrum. Smávaxni keisarinn, sem hann varð á seinni parti sigurgöngunnar, og krýndi sig sjálfur svo að viðstaddur páfi horfði gapandi undrandi á, fór víða, svo sem til Egyptalands til að skaffa breska herliðinu vandræði sem það átti skilið, en reið þó ekki of feitum hesti þaðan. Meira að segja komst Napóleon til Moskvu, en sigurlaunin voru að mestu volæði og heimferðin hafði harla lítinn hetjubrag. Herinn, sem vann Moskvu síðast allra, átti fullt í fangi með að komast heim og hraktist langa leið, þar sem skæruhernaður saxaði á sveitir Napóleons og er um það frægt kvæði.

Í heimssögunni stóð sovétkommúnisminn stutt við, en nóg til þess að gera skelfilegan skaða og hinir fáu áratugir undir oki hans voru lengi að líða. En „múrinn“ stóð varla helming þess ógnarskeiðs og varð tákn þess og sannindamerki um að dásemd alþýðunnar var ekki sú sem látið var. Áróðurinn missti trúverðugleikann þegar öllum heiminum varð ljóst að það yrði að múra þjóðirnar inni, svo þær fengjust til að nýta blessun sæluríkisins. En þeir sem létu ekki segjast og fetuðu sig í átt til frelsisins voru skotnir eins og smitandi riðufé af her „alþýðunnar, við múrhleðslurnar og gaddavírinn.“ Án veggjar, vírarúllu og geltandi vélbyssu hefði almenningur tekið til fótanna. En múrinn féll og Þýskaland sameinaðist á ný undir forystu Kohls kanslara og ætla mátti að nú stefndi til langvarandi friðarskeiðs.

Þróunin í þessa átt tók þó sinn tíma. Myndarlegar ræður voru haldnar við „múrinn“ í Berlín. John F. Kennedy lýsti því yfir að hann væri sjálfur „Berlínarbúi“ sem þótti vandræðaleg líking um að hann samsamaði sig mannskapnum innan múrs. En loftbrúin sem bandamenn skipulögðu var frábært framtak þegar reynt var að svelta Berlínarbúa innan múrs og girðinga til undirgefni og hlýðni. Atburðarásin sannaði fyrir myrkraöflunum í Kreml að þannig umgjörð um „sæluríkið“ væri versta alþjóðlega auglýsing sem sovéskt þjóðskipulag gat fengið. Ronald Reagan flutti sláandi ræðu og með ákalli hans skynjaði hinn ófrjálsi heimur að vestrið hefði nú styrk og stöðu til að hrópa: „Herra Gorbatsjov, rífðu niður þennan múr.“ Fáum árum síðar fór hann. En meginástæða þess að svo vel tókst til var að Sovétríkin voru þá í raun gjaldþrota. Þau réðu ekki við tæknivætt vopnakapphlaupið sem Reagan forseti stofnaði til. Þá varð það formsatriði að mölva múrinn og selja brotin sem minjagripi.

Það kom í hlut Jeltsíns og svo Pútíns að vera í fyrirsvari fyrir þrotabúið. Jeltsín hafði sýnt kjark og þor á úrslitastundu og átti þakkir skildar. En hann réð ekki við friðinn og dekraði við Bakkus. Þeir Pútín og Medvedev, pólitískt viðhengi hans, virtu reglur um lengd valdatíma að formi til, hvort sem Pútín varð forseti eða forsætisráðherra voru þeir félagar sammála um að Vladimír ætti lokaorðið.

Stutti aðdragandinn

Ónýtur múr og friður í Evrópu, sem hlaut að fylgja, fékk þó hikstakast. Ný óöld brast á furðu fljótt. Hún tengdist Bosníu-Hersegóvínu á árunum 1992 til 1995. Það eru liðug þrjátíu ár síðan og bréfritari man eftir allmörgum leiðtogafundum Nató undir forystu Bills Clintons um þennan vanda, sem nú er næstum öllum gleymdur. Forsetinn segir frá í ævisögu sinni og talar þar um Dayton-samkomulagið. Þegar þau Hillary heimsóttu okkur hjónakornin í Skerjafjörðinn og þáðu kaffi og kruðerí færði hann bréfritara bókina.

Það eru gjarnan táknmyndir sem leika upphafsatriðið í hildarleikjum og þeim hörmungum sem fylgja. Heimsstyrjöldin fyrri er sögð hafa haft sem startskot þegar kúlur fyrirsátsmanna erkihertogans Franz Ferdinands gerðu það sem lagt var upp með árið 1914. Hinn myrti erkihertogi varð ekki aðeins úr sögunni furðu fljótt, heldur gleymdu því flestir af hverju farið var í margra ára styrjöld af því tilefni. Fæstir mundu stundinni lengur hvar og hvers vegna hann kom við sögu. En það þekkingarleysi þjóðanna stytti ekki stríðið eða útkomu þess. Bardagasvæðin voru ekki tilkomumikil, en þjóðirnar, sem lögðu til ungan mannskap til að falla í algjöru tilgangsleysi, færðu stórar tölur til bókar. Önnur eins sláturhús höfðu ekki þekkst. Um 20 milljónir manna féllu í valinn og 21 milljón særðist alvarlega. Og þetta eru ekki tölur frá „heilbrigðisráðuneyti Gasa“ sem „RÚV“ trúir betur en nýju neti. Í eins konar framhjáhlaupi var svo „byltingin“ í Sovétríkjunum, eins og Rússland og fylgiríkin voru nefnd, og annað eins var myrt í þágu þeirrar dásemdar, allt til loka valdaskeiðs Stalíns, en þá hann var allur hægði nokkuð á. En ekki má í stuttri upprifjun gleyma garminum Hitler. Þótt valdatíð hans hafi verið stutt, miðað við það sem þekktist í alþýðulýðveldunum stóru, eða aðeins 12-14 ár, þá voru illskan og afköstin í hennar þágu með ólíkindum, svo ekki sé meira sagt.

Og aftur að Bosníu og Hersegóvínu. Hvað hleypti því formlega af stað? Í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Bosníu-Hersegóvínu árið 1992 var bosníu-serbneskur brúðgumi myrtur í Sarajevó 1. mars það ár. Sovétríkin hrunin og Júgóslavía Titós leystist upp og í tómarúminu sem myndaðist þar braust stríð út. Sú hefur verið sögð smástyrjöld! Þó lágu eitt hundrað þúsund manneskjur í valnum og milljónir flosnuðu upp frá heimilum sínum. Þeir sem trúa tölum skrifstofu hryðjuverkasveitar Hamas hlytu að telja styrjöldina í Evrópu með, þar sem brúðguminn saklausi var í eins konar hlutverki erkihertogans. Við sem erum liðlega 400 þúsund hér uppi á Íslandi gerum ekki lítið úr 100 þúsundum föllnum. Og við teljum ekki öllu máli skipta í hinum mannlegu ógöngum hver ber þyngsta ábyrgð á þeim. En það skiptir óneitanlega máli hver henti fyrsta steininum og hleypti þar með öllu í bál og brand.

Horfinn varnarmálaráðherra

Það varð töluvert fát og fum vestra þegar sjálfur varnarmálaráðherra Bandaríkjanna virtist hafa horfið eins og loftið hefði gleypt hann. Og það var ekki síður undarlegt að Hvíta húsið, eða þeir í stærstu skrifstofubyggingu í heimi, Pentagon, virtust ekki vita hvar hann var heldur. Þegar að var gáð, virtist ráðherrann hafa horfið tveimur dögum fyrir jól. Rúmri viku síðar eða svo, var skimað eftir varnarmálaráðherranum, sem er stór og myndarlegur karlmaður sem fellur ekki í fjöldann. Fyrstu viðbrögðin, sem virtust koma innarlega úr Pentagon, voru að ráðherrann sinnti vinnu sinni að heiman! Þegar það fékk ekki staðist var sagt að ráðherrann hefði farið á Walter Reed-sjúkrahúsið í smávægilega aðgerð og að hans næsti maður gegndi störfum fyrir hann. En það versnaði í því þegar ljós kom að sá afleysingamaður væri í langþráðu fríi í höfunum suður af Bandaríkjunum.

Þegar gengið var á Hvíta húsið var sagt að forsetinn, Joe Biden, hefði ekki fengið neina tilkynningu um hvarf varnarmálaráðherra síns. Sá var, eins og fyrr sagði, ekki líklegur til að gufa upp, án þess að verulega væri haft fyrir því. Þegar leið nær áramótum var málið orðið sérlega pínlegt fyrir forsetann. Hvorki ráðherrann né nokkur af þessum 25 þúsund starfsmönnum í Pentagon hafði gert neitt til að upplýsa hann um málið. Andstæðingarnir voru fljótir að henda þann bolta á lofti og sögðu það segja allt sem segja þyrfti um Biden og það álit sem hann hefði í sínum innsta hring. Upplýst var að „the Situation Room“ í Hvíta húsinu hefði þá vinnureglu að kanna hvern dag hvar helstu valdamenn stjórnkerfisins héldu sig, þar og þá. Varðandi varnarmálaráðherrann hefði því verið svarað að hann „væri staddur í Washington eða næsta nágrenni.“ Var það svar látið duga. En það augnablikið bendir raunar flest til þess að varnarmálaraðherra Bandaríkjanna hafi verið í svæfingu á skurðarborðinu.

Þegar þetta er skrifað mun ráðherrann vera enn á Walter Reed-sjúkrahúsinu, en hann hafði gengið þar undir aðgerð vegna meinsemdar í blöðruhálskirtli. Sjúkrahúsið sagðist binda vonir við að ráðherrann næði fullum bata, en viðurkenndi að bataþróunin gæti orðið mjög hæg. Undir góðar óskir skal tekið og eins hitt að bandaríska varnamálaráðuneytið telur nú að staðið hafi verið „óheppilega“ að fyrrgreindu máli og myndi ráðuneytið taka sig á og taka þær reglur sem fyrrgreint atvik fellur undir til athugunar og tryggja þar með að annað eins og þetta, sem viðurkennt væri að hefði verið mjög klaufalegt, myndi ekki gerast aftur.

Þetta síðasta orðalag er þekkt víðar en úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu og mun þýða að nú verði fundnir allmargir undirsátar og þeir verði látnir taka pokann sinn, enda sýni sagan að eftir þá aðgerð falli allt í ljúfa löð. Að öðru leyti mun ekkert breytast, sem hljóti, að mati ráðuneytisins, að geta orðið góð sátt um.