Jón Gestur Viggósson fæddist 1. maí 1946. Hann lést 22. desember 2023. Útför hans fór fram 10. janúar 2024.

Mig langar að setja á blað nokkur fátækleg orð um tengdaföður minn fyrrverandi, Jón Gest Viggósson, sem nú er látinn. Ég kynntist Jóni fyrst fyrir rúmum 30 árum, þegar ég varð heimagangur hjá þeim hjónum, honum og Þorbjörgu Brynhildi, á Vesturvangi 1, þar eð ég hafði tekið upp samband við dóttur þeirra Sigríði. Við giftum okkur skömmu síðar, rétt um tvítugt, vorum saman í um aldarfjórðung og eigum saman fjögur yndisleg börn.

Heimili Jóns og Þorbjargar var mjög ólíkt mínu æskuheimili, þar sem þau voru á aldur við systkini mín og þar var alltaf mikið líf og fjör og gleði. Kjartan bróðir Sigríðar var barn að aldri á þessum tíma, uppátækjasamur og skemmtilegur krakki, og systur hennar, Ásta og Berglind, á svipuðum aldri og ég, þannig að þarna leið mér sérstaklega vel.

Jón tók mér strax vel, hann var ungur maður í eigin atvinnurekstri og á kafi í félagsmálum og stjórnmálum, sem mér þótti ákaflega spennandi, enda hneigður til slíks sjálfur. En Jón var fyrst og fremst gegnheill og góður maður. Frábær fyrirmynd og mikill fjölskyldumaður. Það bar aldrei skugga á okkar samband og ég á ekkert nema góðar minningar af Jóni Gesti.

Það voru forréttindi að ferðast með Jóni og Þorbjörgu um landið og þau komu og heimsóttu okkur Sirrý þegar við vorum í námi erlendis. Þar áttum við góðar stundir sem munu aldrei gleymast. Ógleymanlegt er líka að við strákarnir í fjölskyldunni áttum þann sið að fara með honum í skötu á Þorláksmessu.

Jón var alltaf boðinn og búinn til að rétta hjálparhönd og lét sig ekki muna um að keyra landshorna á milli til að hjálpa okkur ungu hjónunum að mála eða kíkja á bílana okkar sem biluðu reglulega. Það var líka ógleymanlegt að upplifa ræktarsemi hans við fatlaðan yngri bróður, Vigfús. Skarð það sem dauði Jóns skilur eftir í hans lífi er stórt.

Ég á eftir að sakna Jóns Gests. Þó leiðir okkar Sigríðar hafi skilið fyrir fáeinum árum, hittumst við þó reglulega á vettvangi fjölskyldunnar. Þar var hann alltaf í góðu skapi með kunnuglegt brosið um varir og sína mildu nærveru, þó augljóslega væru veikindin farin að reyna mikið á hann.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að eiga Jón Gest Viggósson að í mínu lífi og votta Þorbjörgu, börnum þeirra, barnabörnum og barnabarnabörnum mína dýpstu samúð.

Magnús Árni Skjöld Magnússon.

Elsku tengdapabbi. Það svo óraunverulegt að þú sért farinn frá okkur og næstum ógerlegt að setja í orð hvað mér þótti vænt um þig og okkar samband. Ég var ekki nema rétt orðin 17 ára þegar ég kynnist þér og Þorbjörgu, þá var hún á leið í nám til Hollands og þið feðgar saman á Breiðvanginum. Sambúð okkar þriggja var góður tími, þú tókst mér opnum örmum og ég minnist góðra stunda í eldhúsinu þar sem þú hrósaðir mér fyrir eldamennskuna.

Á okkar fjölmörgu ferðalögum um landið var greinilegt hvað þú varst fróður um Ísland og þú naust þín best uppi á hálendi á jeppunum þínum eða í bústaðnum í Vaðnesi. Standa upp úr kvöldstundir þar sem við vorum bara tvö eftir í pottinum að spjalla um allt og ekkert, enduðu þau kvöld oftar en ekki á einum drykk á pallinum á náttsloppnum við kertaljós. Þú varst með eindæmum ósérhlífinn, með góða nærveru og alltaf til í að hjálpa og aðstoða fólkið þitt, hvort sem það var að sækja mann því bíllinn bilaði, mála heilu íbúðirnar, eða hvað það sem fólkið þitt þurfti aðstoð við.

Afahlutverkið og síðar langafa var þér dýrmætt og mættir þú öllum af hlýju, virðingu og natni. Alltaf varstu tilbúinn að gefa góð ráð, en ekki síst hlusta á það sem dreif á daga krakkanna.

Að kynnast tengdaforeldrum sínum sem 17 ára unglingur eru mikil forréttindi og leið mér alltaf eins og ég ætti annað sett af foreldrum. Ég lærði svo mikið af þér og Þorbjörgu og er ómetanlegt að eiga svo einstakt samband við tengdaforeldra sína.

Eftir að við fjölskyldan fluttum til Stokkhólms komuð þið Þorbjörg reglulega í heimsókn og bjuggum við til margar góðar minningar saman sem ylja manni á þessum erfiðu tímum.

Ég kveð þig mig miklum söknuði elsku Jón, minning þín lifir í hjörtum okkar allra um ókomna tíð.

Íris Stefánsdóttir.

„Dáinn, horfinn“ – Harmafregn! Þessi upphafslína úr eftirmælum Jónasar Hallgrímssonar eftir Tómas Sæmundsson kom upp í hugann þegar ég frétti lát Jóns Gests vinar míns. Við kynntumst þegar við sóttum meiraprófsnámskeið um tvítugt og þarna kynntumst við Guðrún kona mín Þorbjörgu konu hans og tókst með okkur ævilöng vinátta. Með þeim hjónum höfum við verið saman í sumarbústöðum, farið í ferðalög um landið og margs konar utanlandsferðir. Nú síðast fórum við í september til Varsjár í Póllandi í vikuferð og áttum þar afar ánægjulegar samverustundir.

Jón var mikill íþróttamaður og á yngri árum stundaði hann fótbolta með Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar og handbolta með meistaraflokki FH og var margfaldur Íslandsmeistari með FH. Jón starfaði mikið að félagsmálum, var í stjórn FH, ÍBH og starfaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá sat hann í stjórn Íþrótta- og ólympíusambandsins og var þar heiðursfélagi og sæmdur heiðursmerki sambandsins. Þá var Jón einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Hraunborgar og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. En síðast en ekki síst er það sundið. Við Jón, ásamt Gísla Þór Gíslasyni vini okkar, fórum saman í sund í Suðurbæjarlaugina flesta morgna, gangandi þegar færð og heilsa leyfði, annars akandi. Eftir sundið hittist kaffihópurinn okkar, sem samanstendur af yndislegu fólki sem nú kveður góðan vin.

Elsku Bobba, Ásta, Sigríður, Berglind og Kjartan, við Gunna sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðju og kveðjum góðan vin.

Haraldur H. Jónsson (Haddi).

Jón Gestur Viggósson heiðursfélagi ÍSÍ lést 22. desember síðastliðinn.

Hann var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ, æðsta heiðursmerki ÍSÍ, árið 2019 og var kjörinn heiðursfélagi ÍSÍ á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2021. Kjör heiðursfélaga ÍSÍ er æðsta heiðursviðurkenning innan íþróttahreyfingarinnar og þá viðurkenningu hljóta einungis einstaklingar sem hafa átt einstakan feril sem leiðtogar í sjálfboðaliðastarfi í íþróttahreyfingunni um langt skeið.

Jón Gestur lék 257 leiki með meistaraflokki FH í handknattleik og sat í aðalstjórn og deildastjórnum félagsins í fjölda ára. Hann sat í stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar tímabilið 1995-2009, þar af sem gjaldkeri bandalagsins frá árinu 1999. Jón Gestur sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár, fyrst í varastjórn tímabilið 2000-2009 og síðan í aðalstjórn árin 2009-2015. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir sambandið á meðan hann sat í stjórn og átti meðal annars lengi sæti í fjármálaráði ÍSÍ. Jón Gestur tók virkan þátt í starfi ÍSÍ og sýndi starfi hreyfingarinnar alltaf mikinn áhuga.

ÍSÍ kveður góðan liðsmann og vin sem var ötull í starfi fyrir íþróttahreyfinguna um langt árabil. Jón Gestur var hlýr og hvetjandi við samferðafólk sitt, traustur og áreiðanlegur og mikill fjölskyldumaður. Hans verður sárt saknað.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir Þorbjörgu, fjölskyldunni allri og öðrum aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur.

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands,

Lárus L. Blöndal,forseti ÍSÍ.