Björn Kristleifsson fæddist 1. desember 1946. Hann lést 31. desember 2023. Útför hans fór fram 11. janúar 2024.

Björn Kristleifsson var fjölhæfur maður og kom víða við sögu, og því er erfitt að átta sig á hversu ferill hans er merkilegur. Nefnum fyrst myndlistina. Í Menntaskólanum í Reykjavík teiknaði hann í Skólablaðið og Faunu, og sýndi merkileg málverk á vorsýningum Listafélagsins. Góður grunnur í myndlist leiddi til þess að Björn ákvað að fara í nám í arkitektúr í V-Berlín 1967. Var það mikið happ fyrir mig undirritaðan að vera þar samtíma honum í námi. Teiknuðum við mikið af myndum hvor af öðrum. Jakob T. Arnars hefur gert 11 mínútna vídeó með myndum mínum af honum, ásamt frásögn. Fólk getur horft á vídeóið á FB-síðu minni.

Við íslensku stúdentarnir í Berlín vorum samhentur hópur, en það var fyrir frumkvæði Björns að við gerðum tvær leiknar myndir; Ævintýri á gönguför, sem var krimmi, og Skugga-Sveinn, en handritið var lagað að staðháttum í útsvæðum borgarinnar, og farið á fjall á fólksvögnum. Skuggi og hans lið leyndust í skógunum, en gamla heitið á útlögum; „skóggangsmenn“, á þar vel við. Björn skrifaði handrit myndanna og leikstýrði en ég filmaði og klippti. Hinn þjóðlegi húmor og galsi Björns setti aðalsvipinn á myndirnar, sem hafa verið mjög vinsælar.

Eftir að Björn kom heim frá Berlín 1972 hóf hann störf á arkitektastofum en teiknaði jafnframt blokk í Engjaseli, sem hann og félagar hans byggðu. Merkilegt nýmæli var að öll jarðhæðin var tekin fyrir félagsstarf íbúanna. Þegar eiginkona Björns, Þuríður Backmann, gerðist þingmaður Austlendinga fluttu þau búferlum til Egilsstaða, þar sem Björn stofnaði Arkitektastofu Austurlands og teiknaði m.a. kirkjubyggingar og íbúðarhús.

Á Egilsstöðum varð Björn brátt frumkvöðull í félagsstarfi; var formaður Hattar, stofnaði myndlistarfélag og brúðuleikhús og átti mikinn þátt í uppsetningu á fjórum óperum, þar sem Þorbjörn sonur þeirra hjóna, sem var í söngnámi í Berlín, söng burðarhlutverkin. Yngri sonur þeirra, Kristleifur, gerði listina líka að vettvangi sínum, og hafa myndir hans t.d. verið sýndar á Tate Modern í London.

Frjáls myndlist var aldrei langt undan hjá Birni og átti hann þátt í myndlistarsýningum á Egilsstöðum. Þá tók Björn t.d. þátt í samkeppni Landsvirkjunar um listaverk fyrir Sigölduvirkjun og fékk 1. verðlaun. Annað listaverk hans á opinberum vettvangi er minnismerki um náttúruhamfarir á Skeiðarársandi.

Vegna þess að Björn sinnti verkefnum á mjög víðu sviði er hætt við að fólk átti sig síður á hve merkileg störf hans eru. Fyrst og fremst er það þó maðurinn sjálfur sem er okkur, samferðafólkinu, eftirminnilegur. Öll störf Björns einkenndust af dugnaði í gleði og hugsjón, þar sem aldrei var slegið af, og aldrei beðið um laun fyrir hin fjölbreyttu félagsstörf. Hafðu mikla þökk, Björn, fyrir þitt frábæra starf, og fyrir að færa svo mikla gleði inn í líf okkar.

Trausti Valsson.

Mér barst sú fregn á nýársdag að gamall félagi minn og vinur Björn Kristleifsson arkitekt hefði kvatt þennan heim síðla kvöldið áður eftir erfið veikindi.

Ég leit upp á fallega mynd sem hann gaf mér. Myndefnið var frá æskuslóðum mínum austur á Héraði. Hún er af Lagarfljóti séð frá Egilsstaðabænum með Snæfell í fjarska og gamla flugskýlið á kletti við vatnsborðið. Það ríkir kyrrð og heiðríkja yfir myndinni.

Björn var frjór og fjölhæfur listamaður og kom víða við í listsköpun sinni. Meginstarf hans var á vettvangi byggingarlistar en leikhúsið og sviðsmyndir þess áttu einnig mikilvægan sess á ferli hans. Björn var snjall teiknari og myndlistin lifði góðu lífi í huga hans. Vann hann meðal annars til fyrstu verðlauna í samkeppni um veggmynd á stöðvarhús Sigölduvirkjunar árið 1981.

Björn var ötull í félagsstarfi, glaðvær og skemmtilegur. Það var á þeim vettvangi sem leiðir okkar lágu saman. Við sátum saman í stjórn Arkitektafélagsins um skeið og vorum virkir í félagslífi arkitekta sem var með blóma á þeim árum. Með okkur tókst góð vinátta. Um tíma deildum við húsnæði og unnum saman að verkefnum þar til Björn og fjölskylda hans flutti austur á Hérað. Þar átti Björn eftir að hasla sér völl sem sjálfstæður arkitekt. Hann var frumkvöðull á þeim vettvangi, sem ekki er alltaf auðvelt eða gjöfult.

En Björn gat sér gott orð og eftir hann standa mannvirki sem bera honum fagurt vitni.

Félagsveran Björn blómstraði í hinum nýju heimkynnum fyrir austan og var hann hrókur alls fagnaðar. Björn var íþróttamaður góður og gerðist forystumaður á þeim vettvangi. Leikhúsið og listsköpun þess voru honum hugleikin og kom hann meðal annars að eftirminnilegum óperusýningum á Eiðum.

Samstarf okkar og samvera var fyrir mörgum árum en við héldum góðum tengslum þó lengra væri á milli samverustunda. Ég minnist Björns, þess góða drengs, með þakklæti og hlýhug.

Þórarinn Þórarinsson.

Við fráfall vinar míns Björns Kristleifssonar leitar á hugann hvernig eigi að gera upp 40 ára samstarf og vináttu innan þess þrönga ramma sem Mogginn setur, kannski á bara að segja takk og bless, minningarnar enda oft þannig að þær eiga ekki erindi til annarra.

Björn flutti hingað austur í Egilsstaði með fjölskyldu sinni fyrir röskum 40 árum og kynntumst við fljótt bæði í leik og starfi. Við áttum syni jafnaldra sem varð til þess að við lentum fyrst saman í stjórn foreldrafélags leikskólans, hann formaður og ég hans fylgisveinn, verkaskipting sem fylgdi okkur síðan, lengst í kringum körfuboltann, fyrst unglingastarfið og síðar meistaraflokk. Margar minningar koma upp í hugann frá þessu starfi. Teiknistofan á Selásnum undirlögð allan desember í jólakortagerð, spjöldin skreytt teikningum Björns af austfirskum fjöllum en inni í þeim kveðja frá fyrirtækjum sem þannig styrktu starfið. Björt júlínótt á Eiðum þegar við tókum þá ákvörðun að taka við fallítt körfuknattleiksdeild og gerðum rekstraráætlun aftan á kassa utan af Þristi (sem við vorum búnir að tæma). Áætlunin fór að vísu í hundana strax um áramót þegar aðeins voru komin tvö stig í hús og við neyddumst til að kaupa Kana, en eftir áramót töpuðum við líka bara tveimur stigum. Fréttablað sem kom út fyrir hvern leik, skreytt myndum eftir Björn og kveðskap góða (fé)hirðisins. Ferðir með körfuboltakrakka og sjálfboðaliðastörf rekin áfram af elju formannsins.

Vinnan leiddi okkur líka saman. Nýfluttur austur leitaði hann til okkar næstum kollega sinna á VA eftir aðstoð við að finna sér húsnæði fyrir teiknistofu og var það upphaf 30 ára samstarfs sem aldrei bar skugga á og síðustu ár sín hér fyrir austan leigði hann af okkur horn fyrir teiknistofu. Björn var flinkur arkitekt, listrænn en jafnframt hagsýnn og lausnamiðaður. Eftir hann liggur mikið verk á Austurlandi; íbúðarhús, skólar, íþróttahús, kirkjur o.fl., verk sem lofa meistarann.

Eftir að þau hjón fluttust alfarið suður skildust leiðir að nokkru leyti, en lengi höfðum við Björn það fyrir sið að heyrast á sunnudögum milli mjalta og messu þar sem hann gerði ítarlega grein fyrir veðurfari og snjóalögum á Kópavogshásléttunni og krafði mig um fréttir og kjaftasögur að austan. Þótti reyndar oft heldur lítið til míns framlags koma. Og oft leit ég við hjá þeim hjónum þegar ég átti lausa stund á borgarferðum. Fyrir nákvæmlega ári fórum við félagar á bikarleik Hattar og Vals í Laugardalshöll, merkisstund fyrir mann sem var formaður Hattar í sex ár og lengi formaður kkd. m.a. þegar þeir spiluðu fyrst í efstu deild. Því tek ég lítið mark á þeim skelmislegu skilaboðum sem ég fékk frá honum fyrir skömmu um að hann væri búinn að skipta um félag.

Á kveðjustund væri gott að vera skáld og geta komið hugsun sinni í verðugt form, sem kæmi til skila því þakklæti sem býr innra með mér fyrir að hafa kynnst Birni og átt hann fyrir vin og samstarfsmann. En ég verð að láta nægja að segja takk og senda Þuríði og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Óli Grétar Metúsalemsson.

Ég hrökk við á nýársdag þegar ég frétti af láti vinar míns Björns Kristleifssonar. Nokkrum dögum áður hafði ég rætt stuttlega við hann í síma og vissi að hann var alvarlega veikur, en hann hafði barist við illvígan sjúkdóm um langan tíma.

Kynni okkar Björns hófust fljótlega eftir að þau Þuríður fluttu ásamt fjölskyldu sinni hingað austur í Egilsstaði. Ég kynntist Þuríði fyrst í gegnum störf vegna verkfalls BSRB haustið 1984. Í kjölfarið bar saman fundum okkar Björns. Kom þá í ljós að ýmislegt tengdi okkur saman. Við höfðum báðir unnið hjá Vegagerð ríkisins, verið við nám í Þýskalandi og einnig áttum við samleið í pólitík.

Það var sannkölluð vítamínsprauta fyrir samfélagið á Egilsstöðum að fá þau hjón hingað austur. Þuríður starfaði sem hjúkrunarfræðingur við heilsugæsluna og varð fljótlega virk í bæjarmálunum og síðar þingmaður Austurlands. Björn opnaði arkitektastofu hér á Egilsstöðum og starfaði sem arkitekt þann tíma sem þau bjuggu hér. Björn var stórbrotinn persónuleiki, hæfileikaríkur, félagslyndur og kom mörgu smáu og stóru til leiðar, ekki síst í íþrótta- og tómstundamálum í bæjarfélaginu. Hann var formaður íþróttafélagsins Hattar um árabil og starfaði á vettvangi körfuboltadeildar félagsins. Hann kom að ýmsum verkefnum, svo sem byggingu fyrstu Hettunnar, sem var aðstaða við íþróttavöllinn. Hann var ötull stuðningsmaður Óperustúdíós Austurlands og hafði umsjón með hönnun og smíði sviðsmynda í uppfærslum Óperustúdíósins á Eiðum á árunum 1999-2003.

Góður vinskapur tókst með okkur hjónum og þeim Þuríði og Birni. Áhugi á náttúrunni og umhverfinu hér austanlands sameinaði okkur og ferðuðumst við víða um svæðið bæði í bíl og gangandi. Við hjónin höfðum bæði góðan stuðning af Birni í störfum okkar, Helga sem frjálsíþróttaþjálfari hjá Hetti og ég í störfum mínum sem tónlistarskólastjóri. Björn fylgdist mjög vel með, setti sig inn í málin og var alltaf tilbúinn að hjálpa ef leita þurfti til hans.

Björn varð fljótt sérskipaður ráðgjafi að öllu því sem við vorum að bauka við hér heima við húsið (úti og inni). Við bárum flest undir hann og hann var ráðsnjall og fljótur að leysa úr öllu sem þurfti. Björn var mjög góður teiknari og fljótur að rissa upp hugmyndir. Ef féll dauð stund greip hann penna eða blýant og teiknaði umhverfið eða hugmynd sem hafði skotið upp kollinum.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Birni og eiga svo margar góðar minningar tengdar samveru okkar. Nú þegar komið er að leiðarlokum kveðjum við hjónin kæran vin og söknum gefandi samræðna og samveru. Við vottum Þuríði og fjölskyldunni innilega samúð vegna fráfalls Björns.

Magnús Magnússon og Helga Ruth Alfreðsdóttir.

Kær vinur og samstarfsmaður Björn Kristleifsson arkitekt er fallinn frá.

Kynni okkar hófust 1981 þegar ég tók við stjórn Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal og forræði á Hólastað. Skólabyggingarnar og flest hús heyrðu undir húsameistara ríkisins, teiknaðar og hannaðar af goðsögnunum Rögnvaldi Ólafssyni og Guðjóni Samúelssyni. Flest hús staðarins voru í mjög slæmu ástandi. Húsameistari hafði falið Birni Kristleifssyni að fylgja málum eftir fyrir sína hönd. Þegar það embætti var lagt niður ákvað ég að ráða Björn áfram sem aðalarkitekt Hólastaðar.

Í hönd fóru afar spennandi tímar. Hin fornfrægu skólahús staðarins voru gerð upp undir leiðsögn Björns sem bæði gaf ráð og teiknaði sjálfur. Flest önnur hús staðarins voru endurbætt og ný byggð. Nefni ég sérstaklega viðbyggingar við skólahúsið, anddyri og matstofu svo listilega gerð að okkur fannst hún alltaf hafa staðið þar. Lotning og mikil virðing var borin fyrir staðarímynd Hóla þar sem hin aldna dómkirkja, turninn og virðulegt skólahús bar uppi þá mynd sem ekki mátti raska.

Björn var einstakur samstarfsmaður. Hann var hugmyndaríkur en tók einnig á móti uppástungum, og síðan skjótur að festa hugmyndir á blað: Þetta gengur eða gengur ekki. Já, Björn var óendanlega þolinmóður og útfærði hugmyndir skólastjóra, sem flestir aðrir hefðu talið galnar. Það var gert létt grín að okkur þegar við tveir, báðir sköllóttir og grannir, léttir á fæti, töltum um Hólastað. Sumt fór í ruslið en annað varð að veruleika. Orlofsbyggðin í lautinni, íbúðarhúsabyggðin í hvilftinni að baki staðarins; allt eru þetta verk Björns Kristleifssonar arkitekts. Vitaskuld komu margir fleiri að uppbyggingarstarfinu. En Björn Kristleifsson var aðalarkitekt Hólastaðar í hartnær 30 ár.

Eigi er ofsagt að andi Björns svífi yfir Hólastað. Staðarhúsin mynda einkar fallega og formfasta heild þegar ekið er inn Hjaltadalinn og heim að Hólum. Björn teiknaði merki skólans framsækið og sterkt með dómkirkjuna, turninn og skólahúsið í forgrunni, grænum túnsléttum og Hólabyrðu í bakgrunni. Við kölluðum Björn hirðarkitekt Hóla í fullri alvöru.

Fátt var svo flókið að hann leysti ekki úr. Björn var léttur í lund, oftast brosandi: „Já, þetta verður ekkert mál, Jón.“

Kynni okkar Björns náðu þó ekki aðeins til vinnunnar. Þau hjónin, hann og Þuríður, urðu síðar fjölskylduvinir okkar Ingibjargar.

Mér er minnisstætt þegar við fórum bæði hjónin í þingmannaheimsókn til Kína. Og þar sem við sátum með nokkrum hæstráðendum í Kína yfir veisluborðum, þá þurfti að finna umræðuefni. Auðvitað veðrið á Íslandi. Björn teygir út armana og lýsir því hræðilega roki sem oft getur geisað á Íslandi. Hinir kurteisu Kínverjar horfa á Björn í forundran: „Og hvað gerið þið svo til að fjúka ekki burt í svo hryllilegum stormum?“ Björn var fljótur til svars: „Við fyllum vasana af grjóti.“ Og hin háæruverðuga samkoma skellti upp úr, virðulegir kínverskir diplómatar skellihlógu.

Það er með einlægu þakklæti sem við kveðjum góðan vin, Björn Kristleifsson.

Fyrir hönd Hólastaðar og þjóðarinnar allrar þakka ég Birni hin góðu verk á Hólum. Við Ingibjörg þökkum gleðistundirnar, hugmyndirnar, hvatninguna og bjartsýnina. Heim að Hólum, staðarmynd Hóla, mun halda minningu Björns á lofti um ókomin ár.

Þuríði og fjölskyldunni allri sendum við einlægar samúðarkveðjur.

Ingibjörg Kolka og
Jón Bjarnason.