Rögnvaldur Kali heldur á líknesi af Magnúskirkju í Orkneyjum.
Rögnvaldur Kali heldur á líknesi af Magnúskirkju í Orkneyjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Orkneyinga sögu segir af jörlum Orkneyinga í 300 ár, m.a. Rögnvaldi Kala (d. 1158). Hann fæddist í Noregi en móðir hans var orkneysk, systir hins heilaga Magnúsar Erlendssonar Orkneyjajarls sem féll fyrir hendi náfrænda síns, Hákonar jarls Pálssonar

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Í Orkneyinga sögu segir af jörlum Orkneyinga í 300 ár, m.a. Rögnvaldi Kala (d. 1158). Hann fæddist í Noregi en móðir hans var orkneysk, systir hins heilaga Magnúsar Erlendssonar Orkneyjajarls sem féll fyrir hendi náfrænda síns, Hákonar jarls Pálssonar. Amma Rögnvalds og móðir heilags Magnúsar var neydd til að halda Hákoni jarli veislu strax eftir drápið á syni hennar þar sem hún bað jarlinn þess grátandi að fá að flytja líkið til kirkju. – Síðar hafði Rögnvaldur Kali forgöngu um að hin mikla Magnúskirkja yrði reist í Kirkjuvogi.

Rögnvaldur Kali ríkti lengi í Orkneyjum en féll á Katanesi í Skotlandi. Hann var fluttur til Magnúskirkju þar sem helgur dómur hans var tekinn upp árið 1192.

Auk kirkjusmíðinnar vann Rögnvaldur Kali tvö afrek: Hann orti ásamt Íslendingnum Halli Þórarinssyni kvæðið Háttalykil undir mismunandi bragarháttum dróttkvæða. Háttalykill er fyrirmyndin að Háttatali Snorra Sturlusonar. Efnið snertir hetjukvæði og fornaldarsögur.

Loks skal telja ferð þessa nafntogaða jarls til Jórsalaheims. Þeir lögðu af stað með fimmtán „stórskipum“ en komu skiplausir til baka tveimur árum síðar.

Enda þótt um pílagrímsferð hins trúrækna Rögnvalds jarls hafi verið að ræða sjást engin merki í Orkneyinga sögu um þann „pílagrímsanda er knúið hefur menn þúsundum saman til slíkrar ferðar“, eins og Finnbogi Guðmundsson kemst að orði í útgáfu sinni á sögunni. Hernaðarandi ríkir, og jafnvel biskup Orkneyinga þarf að vopnast á örlagastund.

En mesta umfjöllun fá þó skáldin sem yrkja um ástir og víf að hætti söngvaskáldanna frönsku og spænsku (trúbadúra). Rögnvaldur Kali situr dýrlega veislu hjá Ermingerði, ungri drottningu í Narbón, sem hann tekur á kné sér og lofsyngur í dróttkvæðri vísu. Tvö önnur skáld bætast í aðdáendahópinn. Við brottförina frá Narbón heitir Rögnvaldur Ermingerði að fara til „Jórðánar“. Hinn íslenski Ármóður segist í vísu sinni mundu sæll ef hann fengi að sofa hjá Ermingerði eina nótt. En samlandi hans, Oddi hinn litli, er auðmýkri og telur sig varla verðan Ermingerðar. Anna Holtsmark hefur bent á að í anda trúbadúra yrki hver og einn þeirra í samræmi við stöðu sína í lífinu.

Þeir Ármóður og Oddi hinn litli virðast hafa komist til Íslands eftir suðurferðina, og þannig hafa borist hingað mikilvægir straumar sem áttu eftir að auðga íslenskar bókmenntir.

Fjórða skáldið í ferðinni var Þorbjörn svarti. Hann lést úr drepsótt í Akursborg á Jórsalalandi og var grafinn þar. Oddi hinn litli orti um hann tvö hjartnæm erindi undir kviðuhætti. Í því fyrra er getið um ferð „höfuðskálds“ til Akursborgar. Seinna erindið er svona:

Þar sák hann sák: sá ég

að höfuðkirkju

siklings vin siklingur: konungur

sandi ausinn.

Nú þrumir grund þruma: híma

grýtt of honum

sólu birt grund sólu birt: sólbökuð jörð

á suðurvegum.