Breki Karlsson
Breki Karlsson
Stjórnvöldum ber að tryggja heimilum raforku á sanngjörnu verði. Hætta er á að verð raforku til heimila hækki úr hófi verði ekkert að gert.

Breki Karlsson

Rafmagn er ein grunnstoða íslensks samfélags og í raun eitt af því sem gerir Ísland byggilegt. Mikilvægi rafmagns sem undirstöðu lífsgæða og fjölbreytts atvinnulífs verður ekki ofmetið. Rafmagnið knýr flestallt í lífi okkar, frá heimilum til menntastofnana, frá afþreyingu til vinnustaða. Á þröskuldi orkuskiptanna verður hreina rafmagnið enn mikilvægara. Í því ljósi verður ekki litið á rafmagn eins og hverja aðra markaðsvöru, heldur er það mun líkara innviðum.

Heimilin nota einungis um 4,5% þess rafmagns sem framleitt er á Íslandi og því ætti að vera létt og auðsótt að tryggja þeim örugga afhendingu á sanngjörnu verði. Hófstillt gjald fyrir lítinn hluta þess rafmagns sem framleitt er fyrir tilstilli náttúrunnar má hugsa sem nokkurs konar afgjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Heimilin nytu þannig verndar gegn samkeppni við stórfyrirtæki hvað verð og öryggi afhendingar varðar.

Íslensk raforkulög mæla fyrir um hóflega arðsemi raforkuflutningsfyrirtækja. Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur reyndar þegar skuldbundið sig til þess, en Evróputilskipun 2009/72/ESB segir að aðildarríki skuli tryggja heimilisnotendum og litlum fyrirtækjum örugga afhendingu raforku, á verði sem er samanburðarhæft, gagnsætt og sanngjarnt.

Eitt stórra verkefna Alþingis í upphafi árs er að tryggja að heimili og mikilvægir innviðir búi við raforkuöryggi og þurfi hvorki að keppa við gagnaver né rafmyntverksmiðjur um verð eða afhendingaröryggi rafmagns. Stjórn Neytendasamtakanna sendi þingmönnum svohljóðandi ályktun:

„Núverandi áform stjórnvalda og háværar kröfur einstakra markaðsaðila um breytingar á lögum um raforku fela í sér verulega hættu á verðhækkunum til heimila. Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur þegar skuldbundið sig til þess, sbr. Evróputilskipun 2009/72/ESB.

Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að þingmenn tryggi að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila.“

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.

Höf.: Breki Karlsson