Salurinn KR-ingar voru í miðjum klíðum að breyta íþróttasal í veislusal þegar ljósmyndara bar að garði í gær.
Salurinn KR-ingar voru í miðjum klíðum að breyta íþróttasal í veislusal þegar ljósmyndara bar að garði í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þorrablótsvertíðin er að hefjast ef þannig má að orði komast og byrjar með látum í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld þar sem 900 manns koma saman og blóta þorra. Þorrablót Vesturbæjar er haldið í KR-heimilinu en félagsskapurinn KR konur ber hitann og þungann af skipulagningu og undirbúningi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Þorrablótsvertíðin er að hefjast ef þannig má að orði komast og byrjar með látum í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld þar sem 900 manns koma saman og blóta þorra.

Þorrablót Vesturbæjar er haldið í KR-heimilinu en félagsskapurinn KR konur ber hitann og þungann af skipulagningu og undirbúningi. Er það ef til vill í takti við þjóðsöguna um að á fyrsta degi þorra hafi húsfreyjur gert sérstaklega vel við bónda sinn.

„Það er löngu uppselt,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir formaður KR en þorrablótið var endurvakið fyrir nokkrum árum. Þorrablótið er snemma á ferðinni en Þórhildur segir að vaninn sé að vera með blótið viku fyrir bóndadaginn, fyrsta dag þorra.

Ónákvæm dagatöl

„Við höfum alltaf verið með þetta viku fyrir þorrann. Þegar fyrstu dagatölin fyrir árið 2024 komu út þá átti þorri að hefjast eftir viku. En það breyttist,“ segir Þórhildur og hlær en þar vísar hún til þess að við gerð dagatala fyrir 2024 var ekki alltaf gert ráð fyrir þeirri staðreynd að í ár er rímspillisár. Fyrir vikið er bóndadagurinn 26. janúar en ekki 19. janúar eins og margir reiknuðu með og ruglaði þetta ófáar þorrablótsnefndir víða um land.

Eftirspurnin eftir því að komast á þorrablót er slík í vesturbænum að dagsetningin hefur ekki áhrif á miðasöluna.

„Þetta er í sjálfu sér ekki verra upp á miðasöluna að gera og við þurftum bara að auglýsa blótið einu sinni í þetta skiptið. Fólk er til dæmis ekki farið að fara í skíðaferðir í jafn miklum mæli eins og þegar lengra líður á janúar. Kannski er smá galli fyrir þá sem standa að þessu að viðburðurinn sé svo nærri jólum og áramótum en við erum með vant fólk. Fyrir utan starfsfólk KR þá er þessu haldið uppi af sjálfboðaliðum sem eru fjölmargir og þar erum við KR-ingar mjög heppin,“ segir Þórhildur og bætir því við að mikið sé lagt í að gera salinn sem glæsilegastan.

„Fólk trúir því varla að það sé statt í íþróttasal því breytingin er svo mikil.“

Höf.: Kristján Jónsson