Lúðvík Bjarnason fæddist í Hólakoti á Höfðaströnd 20. júní 1943. Hann lést á heimili sínu 30. desember 2023.

Foreldrar Lúðvíks voru Anna Margrét Guðbrandsdóttir, f. 13.9. 1908, d. 11.4. 1990, og Bjarni Marteinn Sigmundsson, f. 3.1. 1902, d. 6.8. 1987. Lúðvík var næstyngstur í sex systkina hópi. Elstur var Guðbrandur Þórir, f. 5.10. 1928, d. 5.9. 1991, Helga Sigurborg, f. 26.4. 1930, d. 29.12. 1988, Helgi Stefán, f. 7.7. 1941, d. 15.7. 1997. Eftirlifandi systkini Lúðvíks eru Björn Sigmundur, f. 30.11. 1937, búsettur á Sauðárkróki, og Anna Guðrún, f. 12.12. 1946, búsett í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Maki Lúðvíks var Anna Skagfjörð Sigmundsdóttir, f. 6.12. 1940, d. 28.1. 1982. Hún var dóttir hjónanna Evfemíu Jónsdóttur, f. 4.7. 1904, d. 27.6. 1976, og Sigmundar Baldvinssonar, f. 4.1. 1899, d. 13.1. 1983. Eftirlifandi bróðir Önnu er Sigurður Skagfjörð, f. 29.12. 1934.

Dætur Lúðvíks og Önnu eru: 1) Jenný, f. 7.7. 1966, maki Kristján Ragnarsson, f. 28.12. 1960. Börn þeirra eru Anna Helga, f. 21.10. 1999, unnusti Patrekur Harðarson, og Kári, f. 12.1. 2006. Áður átti Kristján dæturnar Ernu Vigdísi og Birnu Hafdísi. 2) Eydís, f. 17.6.1967, maki hennar er Jón Björgvin Sigurðsson, f. 28.10. 1963. Börn Eydísar af fyrra sambandi eru: a) Hafdís Lilja, f. 14.7. 1990, maki Till Mester, f. 21.10. 1985, börn þeirra eru Anton Máni, f. 14.7. 2020, og Ella Sóley, f. 6.11. 2022. b) Guðmundur, f. 23.12. 1991. Börn Eydísar og Jóns Björgvins eru Elva Björk, f. 30.5. 2002, og Jón Björgvin, f. 21.9. 2006. Áður átti Jón soninn Hrein Snævar. 3) Elín Eva, f. 20.1. 1971, börn hennar eru: a) Bjarni, f. 10.10. 1987, maki hans er Arna Diljá, f. 15.7. 1989, dætur hennar eru Viktoría Von og Hrafntinna Líf. b) Selma, f. 29.9. 1994, maki hennar er Sigurður Guðsteinsson, f. 14.10. 1994.

Útför Lúðvíks verður gerð frá Hofsóskirkju í dag, 13. janúar 2024, klukkan 14.

Gamall kunningi sagði eitt sinn: Það eiga allir skilið góðan pabba. Þessa fullyrðingu samþykktum við og sögðum svo: Við áttum góðan pabba. Þannig var það einmitt, við systur áttum góðan pabba.

Við vitum líka að hann var ekki allra en þau ykkar sem sem komust inn fyrir harða skrápinn vitið að þar bjó hlýtt hjarta, réttsýni, tryggð, góður húmor og einstaklega bóngóður maður.

Á meðan við fótum okkur í nýjum veruleika án þín og þökkum þér fyrir þinn þátt í því að gera okkur að þeim manneskjum sem við erum í dag þá vitum við að þú ert sáttur við síðustu gjöfina sem lífið gaf þér og loksins lagstur við hliðina á mömmu.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Minningin lifir.

Kveðja, stelpurnar þínar,

Jenný, Eydís og Elín Eva.

Í minningunni eru æskuárin á Hofsósi ýmist á bjartasta sumardegi þar sem lyktin af nýslegnu grasi lá yfir öllum görðum eða úti í öskrandi vetrarbyl sem myndaði svo volduga snjóskafla að mannhæðarháa snjóhúsið sem byggt var um jólin stóð enn um páskana.

Tíðarandinn þá myndi eflaust kallast „slow living“ í dag. Það var ekki asi á neinu þó fólk væri stöðugt að. Fullorðna fólkið hafði endalausan tíma fyrir okkur krakkana. Þannig var Lúlli, hann gaf sér tíma fyrir okkur, talaði við okkur og stríddi út í hið óendanlega. Þolinmæðin var mikil fyrir lítilli hnátu sem elti hann endalaust á röndum, sama hvert verkefnið var, ég var alltaf velkomin með. Í minningunni vorum við alltaf að brasa, brasa við vélar, brasa við veiðar, allskonar bras af besta tagi. Eflaust hefur það samt oft verið krefjandi að hafa okkur Bjarna bæði í eftirdragi.

Mér lánaðist því miður ekki að kynnast nöfnu minni, Önnu konunni hans, en hef alla tíð heyrt að stelpurnar þeirra hafi erft einstakt góðlyndi hennar ásamt öðrum góðum eiginleikum. Þær systur voru fastur punktur í mínum uppvexti og þeim fylgdi alltaf gleði og gaman. Ég held að þær hljóti að hafa erft það besta frá báðum foreldrum, til dæmis þurra húmorinn hans Lúlla. Og undir yfirborði sem virkaði eflaust hrjúft á einhverja sló hlýtt hjarta.

Að kvöldi dánardags Lúlla var ég að svæfa dóttur mína og sú stutta var eitthvað treg til að fara sofa. Ég bað hana að loka augunum og hugsa um eitthvað fallegt, þá gengi henni betur að sofna. Hún spurði mig þá um hæl um hvað ég ætlaði að hugsa. Svarið mitt var að ég ætlaði að hugsa um allt góða fólkið okkar og hvað við værum heppnar að eiga það að.

Elsku Lúlli, þú varst einn af góða fólkinu okkar. Takk fyrir allt.

Anna Lilja Pétursdóttir.

Karlakórinn Heimir í Skagafirði er félagsskapur sem stendur á gömlum merg, en um þessar mundir eru tæplega hundrað ár liðin frá stofnun kórsins. Allan þennan tíma hefur starfsemin byggst á elju og dugnaði kórmeðlima, sem ráðstafað hafa drjúgum hluta af frítíma sínum og kröftum í þágu kórsins. Ekki er á neinn hallað þótt nafn Lúðvíks Bjarnasonar sé nefnt sérstaklega í þessu sambandi, enda leitun að eins tryggum og samviskusömum þátttakanda í kórstarfinu og honum.

Lúlli Bjarna, en svo var hann ætíð kallaður, gekk í karlakórinn árið 1990, starfaði í honum til ársins 2022 og söng annan bassa alla sína tíð í kórnum. Hann fékk gullmerki kórsins árið 2019, en það er viðurkenning sem veitt er kórmönnum sem starfað hafa meira en 30 ár í kórnum. Lúlli var, eins og áður segir, starfsamur félagi og samviskusamur. Hann lét sig afar sjaldan vanta á æfingar, tónleika eða aðra viðburði á vegum kórsins, og var oftar en ekki fyrsti maður í hús. Lúlli bjó um hríð á höfuðborgarsvæðinu vegna atvinnu sinnar, en lét það þó ekki aftra sér og keyrði norður á raddæfingar í hverri viku, og ekki ólíklegt að einsdæmi sé að menn sæki kóræfingar um svo langan veg. Gárungar í kórnum sögðu að Lúlli hefði jafnan keyrt á sumardekkjum á þessum ferðalögum sínum, en þó haft nagladekk á felgum í skottinu og sett þau undir ef aðstæður gáfu tilefni til. Það var til dæmis fullyrt að Lúlli hefði gjarnan sett þau undir við Fornahvamm í Norðurárdal ef færðin á Holtavörðuheiði var tvísýn, og tekið þau svo aftur undan í Staðarskála ef vegurinn var orðinn greiðfær þegar niður á láglendið kom. Um sannleiksgildi þessarar sögu verður ekkert fullyrt, en hún er góð engu að síður og lýsandi fyrir þá elju sem Lúlla var í blóð borin.

Það var auðvelt að láta sér lynda við Lúlla, hann var fremur hæglátur jafnan, en glettinn og spaugsamur engu að síður. Það var ákaflega auðvelt að hlæja og gleðjast með honum, og þurfti oft ekki mikið til. Lúlli ferðaðist mikið með karlakórnum, bæði innan lands og utan. Utanlandsferðirnar með kórnum urðu allmargar og hann naut sín vel á þeim ferðalögum.

Við Heimismenn þökkum kærlega stundirnar sem okkur voru gefnar með Lúlla Bjarna og fyrir framlag hans til kórstarfsins. Við biðjum guð að blessa minningu góðs félaga. Fjölskyldu Lúlla sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Kveðja frá Karlakórnum Heimi,

Atli Gunnar Arnórsson.