Borgarnes Ljósum prýtt jólatré stendur enn í Skallagrímsgarði, perlu Borgnesinga, og veitir birtu og yl í hjarta í mesta skammdeginu.
Borgarnes Ljósum prýtt jólatré stendur enn í Skallagrímsgarði, perlu Borgnesinga, og veitir birtu og yl í hjarta í mesta skammdeginu. — Morgunblaðið/Guðrún Vala
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú þegar hátíð ljóss og friðar er um garð gengin, og flestir búnir að pakka jólaskrautinu niður, hafa margir jólaljósin áfram bæði í gluggum og utan húss. Það lífgar upp á sinnið bæði kvölds og morgna í vetrarmyrkrinu

Úr bæjarlífinu

Guðrún Vala Elísdóttir

skrifar frá Borgarnesi

Nú þegar hátíð ljóss og friðar er um garð gengin, og flestir búnir að pakka jólaskrautinu niður, hafa margir jólaljósin áfram bæði í gluggum og utan húss. Það lífgar upp á sinnið bæði kvölds og morgna í vetrarmyrkrinu. Fréttaritari átti leið um Skallagrímsgarð, perlu okkar Borgnesinga, og þar er ljósum prýtt jólatréð enn í fullum skrúða. Skemmtileg viðbót við fjölskrúðugt íþrótta- og mannlíf í Borgarnesi er skautasvell sem útbúið var í Skallagrímsgarði í frostinu fyrir áramót. Þó nú sé þíða og ekki viðri til skautaiðkunar er næsta víst að það kemur frost aftur áður en langt um líður.

Íþróttir hafa alltaf skipað stóran sess í Borgarnesi og munu vonandi gera það áfram. Grunnurinn að góðu íþróttalífi byggist gjarnan á góðri aðstöðu. Íþróttasvæðið í Borgarnesi er á fallegum stað milli kletta og fjörunnar. Á fundi 5. janúar samþykkti sveitarstjórn tillögur skipulags- og byggingarnefndar þar sem lagt er til að íþróttasvæðið verði stækkað og þannig lagður enn frekari grunnur að stækkun íþróttahúss sem lengi hefur verið beðið eftir. Það verður spennandi að fylgjast með þessu, en orðið á götunni segir að eftir tvö ár verði stærra íþróttahús tilbúið.

Bjarki Pétursson golfari fékk nafnbótina íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2023, en afar jafnt var á milli þeirra efstu í kjörinu. Einungis munaði 0,2 stigum á 1. og 2. sætinu. Þetta er reyndar ekkert nýtt fyrir Bjarka því þetta er í sjöunda sinn sem hann hreppir titilinn. Í fyrsta sinn fékk hann heiðurinn árið 2008. Bjarki hefur á síðustu árum stigið fram sem einn af allra bestu kylfingum Íslands og var mjög nálægt því að fá keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu í golfi og þeirri næststerkustu í heimi. Bjarki er í landsliðshópi atvinnukylfinga á Íslandi og er einn sex kylfinga sem fá úthlutað úr „Forskoti afrekssjóði“. Bjarki er númer 1.673 á heimslista atvinnumanna í golfi og hækkaði um 232 sæti á milli ára, sem er frábær árangur.

Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á að Knattspyrnudeild Skallagríms í Borgarnesi er um þessar mundir að auglýsa eftir þjálfara fyrir meistaraflokk félagsins sem leikur í 4. deild næsta sumar, annað árið í röð. Félagið lauk keppni á síðasta tímabili í 8. sæti og er stefnan án efa að enda ofar á þessu tímabili. Þið góðu þjálfarar þarna úti, kynnið ykkur þetta tækifæri!

Markviss heilsuuppbygging á sér stað meðal eldra fólks í Borgarbyggð, en sveitarfélagið hefur gert samstarfssamning til tveggja ára við Janus heilsueflingu um verkefnið. Um 80 einstaklingar hafa skráð sig til leiks og fá nú markvissa þjálfun, fræðslu um næringu og fæðuval, auk eftirfylgni. Haldi verkefnið áfram þarf enginn að kvíða ellinni hér í Borgarbyggð.

Kaupfélag verður ekki 100 ára á hverjum degi, hvað þá 120 ára eins og Kaupfélag Borgfirðinga varð á dögunum. Haldið var upp á afmælið með pompi og pragt. Margir velunnarar og viðskiptamenn kaupfélagsins komu í afmæliskaffi og nýttu sér góð tilboð hjá kaupfélaginu í leiðinni. KB lifir.

Borgarbrautin, aðalæðin sem liggur niður hið langa og mjóa Borgarnes, er sem betur fer opin aftur. Hún hefur verið lokuð svo lengi að ástandið var farið að minna óþægilega á hina eilífu viðgerð á Borgarfjarðarbrúnni, sem reyndar er í fínu standi og ljósum prýdd í augnablikinu. En Borgnesingar hafa í marga mánuði þurft að aka hjáleið um nærliggjandi götur á 20 km hraða. Hefur lokunin bitnað á þjónustueiningum í neðri bænum, með takmörkuðu aðgengi og hljóta nú allir að fagna þessum tímamótum. Enn á þó á eftir að binda efsta slitlagið svo þar er svolítið „sveitó“ að aka eftir malarvegi innanbæjar.

Áhugaverð sýning var opnuð í Safnahúsinu í Borgarnesi í fyrradag. Guðmundur Stefán Guðmundsson frá Hvammi í Norðurárdal sýnir leikfangasafn sitt. Hann hefur alla tíð verið áhugamaður um vinnuvélar, sem og tæki tengd þeim, og hefur safnað leikfangavinnuvélum og -bílum frá barnsaldri auk þess að smíða sjálfur tæki, vélar og fjöldann allan af trébílum. Á sýningunni er meðal annars til sýnis beltabíll sem Guðmundur smíðaði og er merktur Björgunarsveitinni Brák. Sýningin stendur til 26. janúar nk. og er í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar.

Höf.: Guðrún Vala Elísdóttir