Grindavík Leitarmenn eru stignir upp úr sprungunni í Grindavík.
Grindavík Leitarmenn eru stignir upp úr sprungunni í Grindavík. — Morgunblaðið/Eggert
Viðbragðsaðilar leita ekki lengur mannsins sem er talinn hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík. Eftir að hafa leitað í sprungunni nánast samfleytt í rúmlega tvo sólarhringa var ekki lengur talið forsvaranlegt að stefna lífi leitarmanna í hættu en leitin bar engan árangur

Viðbragðsaðilar leita ekki lengur mannsins sem er talinn hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík. Eftir að hafa leitað í sprungunni nánast samfleytt í rúmlega tvo sólarhringa var ekki lengur talið forsvaranlegt að stefna lífi leitarmanna í hættu en leitin bar engan árangur. Þetta tilkynntu viðbragðsaðilar upp úr kl. 19 í gærkvöldi.

Leitaraðgerðirnar voru fordæmalausar og afar krefjandi. Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir að engin frekari ummerki hafi fundist um manninn. Bogi sagði við Morgunblaðið í gær að mesta hættan stafaði af grjóthruni. Á annað hundrað viðbragðsaðila komu að leitaraðgerðunum, þrátt fyrir það skilaði leitin engum árangri. „Þetta lagðist ekkert vel í fólk en það reyndu allir að gera það sem þeir gátu. Fyrir mitt leyti er ég alveg orkulaus eftir að maður fékk vita að þessu væri hætt,“ sagði Bogi.

Björgunarsveitir sem komu að leitaraðgerðunum hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem segir að ákvörðunin að hætta leitinni hafi verið erfið. Sveitirnar segja hug sinn vera hjá fjölskyldu mannsins. agnarmar@mbl.is