80 ára Birgir er Reykvíkingur en hefur sl. 20 ár búið í Hveragerði. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum og garðyrkju- og…

80 ára Birgir er Reykvíkingur en hefur sl. 20 ár búið í Hveragerði. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum og garðyrkju- og tækninámi í Skodje og Levangur í Noregi. Hann lauk síðan prófi í umhverfisskipulagsfræðum frá Dalhouse University og Nova Scotia College of Art and Design í Halifax í Nova Scotia í Kanada 1978.

Birgir vann við garðyrkjustörf og rak blómabúðir áður en hann hóf námið í Kanada. Eftir námið þar starfaði hann í Halifax við landnýtingardeild Nova Scotia-fylkis og einnig við hönnunarstofu sem hann stofnaði ásamt skólafélögum sínum. „Það skildi enginn heima á Íslandi þá hvað þetta „umhverfi/environmental“ var en svo fékk ég vinnu hjá Hollustuvernd ríkisins 1985. Það var frekar lítil stofnun þá, með rétt um 20 starfsmenn, sem unnu á matvælasviði, mengunarvarnasviði, geislavörnum og rannsóknarstofu. Ég starfaði á mengunarvarnasviði sem sérfræðingur, með málefni eins og hávaðavarnir, úrgangsförgun, eiturefni o.fl.“

Þar starfaði Birgir í átta ár en hóf síðan störf sem yfirnáttúrufræðingur og deildarstjóri umhverfismála hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, með starfsstöð á Selfossi. „Við unnum að fjölbreyttum verkefnum á sviði náttúruverndar og umhverfismála, m.a. umbótaverkefnum eins og „Hreint Suðurland“, sem hafði að markmiði m.a. að allir íbúar hefðu aðgengi að öruggu og heilnæmu drykkjarvatni, að fráveitum og sorphirðu yrði komið í viðunandi horf.“

Við starfslok skráði Birgir sig í Ferðamálaskóla Íslands og starfaði sem leiðsögumaður í nokkur ár. „Ég taldi síðan nóg komið í vinnu haustið 2022, enda borgaði sig tæpast að vera að vinna, fyrir skemmtunina eina, þ.e. launaskerðingar ellilífeyris urðu verulegar.


Fjölskylda Sambýliskona Birgis, Helga Björk Björnsdóttir, var eigandi Blómaborgar í Hveragerði í 30 ár. Birgir og Helga dvelja um þessar mundir á setri sínu, Anfi del Mar, á Gran Canaria-eyju. Dætur Birgis eru Ragnheiður, f. 1970, rekur Kattakaffihúsið í Reykjavík, og Herdís, f. 1971, kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Dóttir Ragnheiðar er Anna Margrét og sonur Herdísar er Birgir Jóhannes. Börn Helgu eru Harpa Rós, Gunnar Björn og Rakel Linda og barnabörn hennar eru fjögur. Foreldrar Birgis voru Þórður Sumarliði Arason, f. 1917, d. 2000, matsveinn frá Suðureyri við Súgandafjörð, og Þóra Ásgeirsdóttir, kjólameistari og kennari, f. 1917, d. 1970, frá Ísafirði.