Inngangur pósthúss í Bracknell í suðurhluta Englands. Mörg hundruð starfsmenn Póstsins fá nú uppreisn æru eftir að hafa verið dæmdir saklausir.
Inngangur pósthúss í Bracknell í suðurhluta Englands. Mörg hundruð starfsmenn Póstsins fá nú uppreisn æru eftir að hafa verið dæmdir saklausir. — Adrian Dennis/AFP
London. AFP. | Breskt samfélag er á öðrum endanum yfir því hvernig farið var með mörg hundruð starfsmenn Póstsins á árunum 1999 til 2015. Nokkuð er síðan flett var ofan af hneykslinu án þess að það vekti mikla umræðu, en ný sjónvarpsþáttaröð hefur…

London. AFP. | Breskt samfélag er á öðrum endanum yfir því hvernig farið var með mörg hundruð starfsmenn Póstsins á árunum 1999 til 2015. Nokkuð er síðan flett var ofan af hneykslinu án þess að það vekti mikla umræðu, en ný sjónvarpsþáttaröð hefur vakið athygli svo um munar og nú ætla stjórnvöld að bæta hlut fórnarlambanna með lagasetningu.

Upphafið að málinu var innleiðing á tölvukerfinu Horizon frá japanska fyrirtækinu Fujitsu hjá breska Póstinum til að halda utan um rekstur og fjárreiður fyrirtækisins. Brátt fór að koma fram í kerfinu að peninga vantaði hér og þar og boltinn fór að rúlla.

Breski Pósturinn ræður svokallaða undirpóstmeistara (sub-postmasters) sem verktaka til að reka útibú Póstsins og beindust spjótin að þeim. Þegar upp var staðið höfðu rúmlega 700 undirpóstmeistarar við pósthús um allt land verið dæmdir sakamenn og þurftu 236 að afplána fangelsisdóma.

Líf mörg hundruð manna voru lögð í rúst með fölskum ásökunum og margir urðu gjaldþrota, misstu heimili sín og heilsuna. Fjórir sviptu sig lífi og margir eru nú látnir án þess að hafa hlotið uppreisn æru.

Í upphafi þessa árs var frumsýnd sjónvarpsþáttaröð undir nafninu „Herra Bates gegn Póstinum“. Þættirnir fjalla um það hvernig starfsmenn urðu fyrir barðinu á yfirmönnum sínum og hafa fengið mikið lof gagnrýnenda. Þeir hafa líka vakið mikla samúð í þeirra garð. Embættismennirnir, sem yfirleitt ráku lítil pósthús vítt og breitt um landið, reyndust hins vegar síður en svo vera glæpamenn og höfðu ekki stolið eyri.

Þeir voru fórnarlömb gallaðs tölvukerfis og yfirstjórnar sem var staðráðin í að verja það hvað sem það kostaði. Frekar en að spyrja sig hvort það væri eðlilegt að brotist hefði út fjárdráttarfaraldur í röðum undirpóstmeistara og athuga hvort verið gæti að kerfið væri gallað var anað áfram. Hefur komið fram að á vegum stofnunarinnar, sem er í eigu ríkisins, en nýtur þó sjálfstæðis í rekstri, voru meira að segja borgaðir bónusar fyrir hverja ákæru sem kom fram.

Eftir að þættirnir voru sendir út kom fram áskorun um að svipta Paulu Vennells, fyrrverandi yfirmann breska Póstsins, heiðursviðurkenningu sem hún hlaut frá Elísabetu II. drottningu, og áður en varði höfðu milljón manns skrifað undir hana.

Uppreisn æru og bætur

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði að þetta væru „ein mestu réttarmistök í sögu þjóðar okkar.“ Breska ríkisstjórnin tilkynnti á miðvikudag að hún myndi einhliða ógilda dómana yfir starfsmönnum Póstsins og bjóða þeim bætur án tafar. Það yrði gert með lagasetningu.

„Í dag get ég greint frá því að við munum leggja fram nýtt frumvarp til að tryggja að þeir sem voru dæmdir vegna Horizon-hneykslisins hljóti hraða hreinsun æru sinnar og bætur,“ sagði hann á breska þinginu. „Lífi og æru fólks, sem vann hörðum höndum í þágu síns samfélags, var rústað án þess að það hefði nokkuð til sakar unnið. Fórnarlömbin verða að fá réttlæti og bætur.“

Ríkisstjórnin ætlar að bjóða þeim sem voru dæmdir á Englandi og í Wales, 600.000 pund (um 105 milljónir króna) án nokkurra vífilengja eða þeim, sem vilja, að láta meta kröfur þeirra hvers fyrir sig.

Þeir sem eiga aðild að hópmálsókn, sem þegar hefur verið efnt til, munu fá 75.000 pund (13 milljónir króna) greidd út í hönd óháð útkomu málsóknarinnar.

Stjórnvöld segjast þegar hafa greitt 150 milljónir punda í bætur á undanförnum árum til fórnarlamba þessa máls en í allt supu yfir 2.500 manns seyðið af því.

Breska stjórnin viðurkennir að það sé óvenjulegt að greiða út með þessum hætti, en Kevin Hollindrake viðskiptaráðherra sagði að stjórnin vildi ekki að fórnarlömbin þyrftu að uppfylla tímafrekar skriffinnskukröfur þannig að undirpóstmeistararnir myndu einungis þurfa að undirrita yfirlýsingu þar sem þeir sverðu að þeir hefðu ekki framið þá glæpi sem þeir hefðu verið sakaðir um.

Áhrifaríkir þættir

Toby Jones leikur Alan Bates í þáttaröðinni. Bates leiddi baráttu fyrir því að sýna fram á að póstmeistararnir væru saklausir fyrir breskum dómstólum.

Í þáttunum sést hvernig þeir glímdu við nýja tölvukerfið. Í einu atriði sést hvar undirpóstmeistari að nafni Jo Hamilton hringir í hjálparlínu í öngum sínum yfir kerfinu. Á meðan á símtalinu stendur sér hún hvernig hallinn hjá sér tvöfaldast á tölvuskjánum.

Hamilton var sökuð um að hafa stolið 36.000 pundum, en féllst á að gangast við því að hafa gert bókhaldsmistök til að þurfa ekki að sitja í fangelsi.

Saga Jess Kaur er einnig sögð í þáttunum. Hún lýsti í viðtali við þáttinn Good Morning Britain skömminni yfir því að vera dregin fyrir dómara fyrir glæp, sem hún hefði ekki framið. „Ég var svo brjáluð að ég reyndi að svipta mig lífi,“ sagði hún og bætti við að eftir að ásakanirnar komu fram hefðu viðskiptavinir hrækt á gólfið hjá sér fullir vanþóknunar.

Aðeins 93 dómum hafði verið snúið við áður en þættirnir voru sýndir. Árið 2017 stefndi Alan Bates hins vegar ásamt fimm öðrum breska Póstinum fyrir dóm fyrir hönd 555 undirpóstmeistara. Tveimur árum síðar komst hæstiréttur að þeirri niðurstöðu villur í tölvukerfinu hefðu verið á bak við það að peninga vantaði í bókhaldið, ekki þjófnaður. Dómarinn í málinu var Peter Fraser og vítti hann Póstinn fyrir að hafa sýnt þá „stofnanaþrjósku“ að neita að rannsaka almennilega hina raunverulegu orsök vandans.

Í febrúar árið 2022 var hafin opinber rannsókn á hneykslinu, en ekki hefur enn verið farið ofan í saumana á því hver vissi hvað hvenær meðal æðstu ráðamanna Póstsins. Þessa dagana fara hins vegar fram yfirheyrslur fyrir opnum tjöldum á vegum nefndarinnar og er fylgst með þeim í beinni útsendingu.

Fórnarlömbin vonast til þess að rannsóknin leiði í ljós hver bar ábyrgð á því að lögmenn Póstsins hundeltu saklaust fólk í gegnum réttarkerfið jafnvel eftir að komnar voru fram rökstuddar efasemdir um ágæti Horizon.

Gengu í gegnum helvíti

Blaðamaðurinn Nick Wallis skrifaði bókina „The Great Post Office Scandal“. Hann segir að það hafi verið mikið bogið við það hvernig rannsakendur Póstsins lögðu sig fram um að sækja fólk til saka og stjórn fyrirtækis hefði lagt sig fram um að hylma yfir athæfið. „Við sjáum að enn er fólk sem er starfhæft og getur sagt sögu sína,“ sagði hann við AFP, en bætti við að margir aðrir væru svo hrelldir eftir að hafa „gengið í gegnum þetta helvíti“ að þeir hefðu dregið sig algerlega út úr samfélaginu.

Þeir sem urðu fyrir barðinu á ákefð breska Póstsins munu nú fá uppreisn æru, en margir munu spyrja sig hvers vegna það hafi þurft sjónvarpsþáttaröð til að stjórnvöld tækju við sér vegna þess að yfirréttur komst að því að réttarmistök hefðu átt sér stað 2019.