Vetrarfótbolti Allra veðra er von í lok febrúar, rétt eins og þegar Breiðablik mætti Real Madrid á Kópavogsvelli 8. desember 2021.
Vetrarfótbolti Allra veðra er von í lok febrúar, rétt eins og þegar Breiðablik mætti Real Madrid á Kópavogsvelli 8. desember 2021.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við fengum engan ásættanlegan völl erlendis þannig að niðurstaðan varð sú að heimaleikurinn við Serbíu fer fram á Kópavogsvelli 27. febrúar,“ sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ við Morgunblaðið í gær

Vallarmál

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Við fengum engan ásættanlegan völl erlendis þannig að niðurstaðan varð sú að heimaleikurinn við Serbíu fer fram á Kópavogsvelli 27. febrúar,“ sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ við Morgunblaðið í gær.

KSÍ tilkynnti í gær að seinni umspilsleikur Íslands og Serbíu um sæti í A-deild undankeppni EM kvenna í fótbolta færi fram á Kópavogsvelli en sá fyrri fer fram í Serbíu 23. febrúar.

Vildum spila á grasi

Ljóst var að KSÍ gæti fengið undanþágu til að leika heimaleikinn hér á landi þótt Laugardalsvöllur væri ekki inni í myndinni. Tveir til þrír gervigrasvellir á Íslandi uppfylla flest skilyrði í „Stadium Category 2“, sem landsleikir kvenna falla undir hjá UEFA. KSÍ ákvað hins vegar að leita fyrst að velli erlendis fyrir heimaleikinn. „Það var fyrst og fremst af knattspyrnulegum ástæðum. Við vildum spila á grasvelli og með meiri tryggingu fyrir góðu veðri en mögulegt er hér á Íslandi. En það kom aldrei til greina að spila á gervigrasi erlendis. Þetta þurfti að vera réttur völlur þar sem við þekktum til, flugsamgöngur væru góðar ásamt aðgangi að þekkingu og reynslu til að halda svona viðburð,“ sagði Klara.

Víkingsvöllur til taks

Víkingsvöllur verður til taks sem varavöllur fyrir Kópavogsvöll. „Víkingar verða með sinn völl kláran ef á þarf að halda. Það er veðursælla í Fossvoginum en á flestum stöðum á svæðinu. Ef við sæjum fram á skárra veður í Fossvogi en í Kópavogi gætum við flutt leikinn þangað.“

Klara sagði að veðráttan á Íslandi væri mesti áhættuþátturinn við að spila heimaleik í lok febrúar, þó leikið væri á gervigrasi. „Þjálfarinn hafði mestar áhyggjur af því að við myndum spila í sterkum vindi og við létum skoða fyrir okkur meðaltalsveðrið á Íslandi í lok febrúar undanfarin tíu ár. Við getum hæglega fengið snjóstorm á þessum tíma og svo er oft hviðótt þannig að við gætum þurft að spila við mjög erfiðar vindaðstæður. En svo gætum við að sjálfsögðu fengið bjart og fallegt veður. Ef leikurinn hefði átt að fara fram í dag hefði ekkert mál verið að spila.“

Klukkan 14 á þriðjudegi

Leikurinn fer fram á þriðjudegi og getur væntanlega ekki hafist síðar en klukkan 14 þar sem flóðlýsing á íslensku gervigrasvöllunum uppfyllir ekki kröfur UEFA.

„Lýsingin er aðeins 500 lúx en þarf að vera 800 lúx til að hægt sé að spila að kvöldi. Þetta er einmitt ástæða þess að heimaleikir okkar hjá 21-árs liði karla fara alltaf fram frekar snemma að deginum. Við erum að skoða leiktímann þessa dagana og þurfum m.a. að gera ráð fyrir framlengingu, en við ættum að vera nokkuð örugg með birtuna ef flautað verður til leiks klukkan tvö.

Við stjórnum öllu því sem við getum og undirbúum þennan leik sem best, en veðrið ráðum við ekki við. Á Kópavogsvelli er þekking og reynsla, þar er nýbúið að spila Evrópuleik hjá körlunum og konurnar í Breiðabliki mættu Real Madrid í Meistaradeildarleik í desember um árið þar sem þurfti að moka snjó af vellinum,“ sagði Klara en leikurinn við Serba verður væntanlega hennar síðasta verkefni fyrir KSÍ þar sem hún hættir í lok febrúar og hefur ráðið sig til starfa hjá Landhelgisgæslunni frá 1. mars.

„Ég býst við því. Ég verð þarna ef nýr formaður og ný stjórn óska þess eftir ársþingið að ég vinni út febrúar,“ sagði Klara Bjartmarz sem hefur í þessum mánuði unnið hjá KSÍ í 30 ár.

Höf.: Víðir Sigurðsson