Keflavíkurflugvöllur Vaxandi álag er á landamærunum.
Keflavíkurflugvöllur Vaxandi álag er á landamærunum. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Úrsögn úr Schengen myndi valda okkur miklum vandræðum t.d. hvað varðar lögreglusamstarf á milli landa og einnig varðandi tengiflug. En það er margt annað sem við ættum að skoða í þessum efnum sem ég skil ekki af hverju við höfum ekki gert,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Úrsögn úr Schengen myndi valda okkur miklum vandræðum t.d. hvað varðar lögreglusamstarf á milli landa og einnig varðandi tengiflug. En það er margt annað sem við ættum að skoða í þessum efnum sem ég skil ekki af hverju við höfum ekki gert,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Vaxandi álag er á landamærunum á Keflavíkurflugvelli sem leitt hefur til fjölgunar brottvísana hælisleitenda frá landinu og einnig hefur fjöldi þeirra farið vaxandi sem sætt hafa gæsluvarðhaldi í kjölfar komu til landsins vegna gruns um ýmiss konar afbrot, fíkniefnasmygl, peningaþvætti, mansal, kynferðisafbrot og þjófnarð, svo dæmi séu nefnd. Hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum verulegar áhyggjur af umferð um innri landamæri Schengen hér á landi sem hann segir vera greiðfær fyrir erlenda brotamenn, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.

Diljá Mist segir að bæði innan Schengen og í EES-samstarfinu geti Íslendingar gripið til ráðstafana, eins og aukins vegabréfaeftirlits, sé verið að takast á við neyðarástand vegna mikils álags, eins og virðist vera í Keflavík. „Við vitum til þess að Norðurlöndin hafa gert það,“ segir hún.

„Síðan er það annað sem ég veit ekki af hverju ekki er þrýst meira á um, en það er að kalla eftir ábyrgð flugfélaganna, þ.e. forskráningu flugfarþega og beita flugfélögin þeim viðurlögum að þau fái ekki lendingarleyfi, sinni þau ekki þeirri skyldu,“ segir hún.

Diljá segir að ákveðin flugfélög sinni þessu ekki sem skyldi og því hafi komið upp vandræði með ferðaskilríki flugfarþega.

„Mér þætti fullkomlega eðlilegt að við myndum ganga á eftir því við flugfélögin að þau sinni þessum skyldum sínum,“ segir Diljá Mist og bendir á að það sé á borði innviðaráðherra.

„Við höfum fullar heimildir til að krefja flugfélög sem hingað fljúga um forskráningu flugfarþega og ef þau sinna því ekki getum við neitað þeim um lendingarleyfi. Það er mjög einföld aðgerð. Ég skil ekki af hverju er ekki þrýst meira á um þetta. Við verðum auðvitað að beita þeim úrræðum sem við sannarlega höfum,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir.