„Ég skal viðurkenna að mér líður vel,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við Morgunblaðið í Ólympíuhöllinni í München í leikslok. „Jafntefli er ekki það sem ég vildi en úr því sem komið var, þá væri ég hrokafullur ef ég sætti mig ekki við stigið

„Ég skal viðurkenna að mér líður vel,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við Morgunblaðið í Ólympíuhöllinni í München í leikslok.

„Jafntefli er ekki það sem ég vildi en úr því sem komið var, þá væri ég hrokafullur ef ég sætti mig ekki við stigið. Við áttum undir högg að sækja í sóknarleiknum lungann úr leiknum. Vörn og markvarsla, sérstaklega í fyrri hálfleik, voru frábær. Það dettur aðeins niður í seinni og þá fer þetta aðeins. Þeir ganga á lagið og úr verður drulluerfiður leikur. Það er fáránlega sterkt hjá liðinu að snúa þessu. Nú þurfum við að sjá til þess að þetta gefi okkur eitthvað inn í mótið,“ sagði Snorri Steinn meðal annars.

„Ég var hrikalega ánægður með stigið undir lokin, sérstaklega úr því sem komið var. Það var allt undir og alltaf stress í fyrsta leik á stórmóti en mér fannst Serbarnir vera með okkur, sérstaklega í varnarleiknum. Við lékum fínan varnarleik en svo náðu þeir oft að troða boltanum inn á línuna þegar við vorum búnir að standa vörnina í einhverja mínútu og það var erfitt,“ sagði Viggó Kristjánsson.

„Einar Þorsteinn Ólafsson kom inn á lokamínútunum og truflaði þá mikið. Hann á stórt hrós skilið fyrir sína innkomu. Ég var alveg búinn á því þegar ég tók þennan síðasta sprett upp völlinn. Ég hugsaði ekki mikið, bara að reyna að skora, og sem betur fer gekk það upp,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson en ítarlegri viðtöl eru á mbl.is/sport.