Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gerðar verða grundvallarbreytingar á því kerfi sem byggt hefur verið upp kringum rekstur hjúkrunarheimila hér á landi. Þetta er niðurstaða ríkisstjórnarinnar en ráðuneyti fjármála og heilbrigðismála hafa nú birt skýrslu sem lögð er til grundvallar við þessar breytingar

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Gerðar verða grundvallarbreytingar á því kerfi sem byggt hefur verið upp kringum rekstur hjúkrunarheimila hér á landi. Þetta er niðurstaða ríkisstjórnarinnar en ráðuneyti fjármála og heilbrigðismála hafa nú birt skýrslu sem lögð er til grundvallar við þessar breytingar. Meðal þess sem gerist með þessum breytingum er að einkaaðilum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða sjálfseignarstofnunum, verður falið að reisa og reka húsnæði hjúkrunarheimila og það verður gert á grundvelli langtíma leigusamninga við ríkið sem vara munu í 20 til 30 ár. Í dag hefur ríkissjóður í samstarfi við sveitarfélögin í landinu þetta verkefni með höndum þar sem ríkið greiðir 85% kostnaðar og sveitarfélögin 15% auk þess að leggja til lóðir undir mannvirkin.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra er gestur Spursmála og þar ræðir hann um þetta nýja fyrirkomulag sem hann segir komið til þar sem of hægt hafi gengið að byggja hjúkrunarþjónustuna upp. Þá sé einnig mikilvægt að horfa til leiða sem tryggi fjármögnun uppbyggingarinnar sem þurfi að vera mikil, eigi að vera hægt að mæta síhækkandi meðalaldri þjóðarinnar og fjölgun í hópi þeirra íbúa landsins sem eru 67 ára og eldri. Horfir ráðherrann í orðum sínum, líkt og fyrrnefnd skýrsla til næstu 16 ára, þ.e. til ársins 2040.

Fara verður aðrar leiðir

„Þetta er u.þ.b. tvöföldun miðað við umfangið í fjárlögunum í dag. Og þá veltir maður fyrir sér sjálfbærni ríkisfjármálanna. Fjárlögin virka bara fyrir eitt ár í senn og svo er getan til verðmætasköpunar og hluti af henni sem fer í rekstur og samneyslu, hún er ákveðin. Þannig að við þurfum að horfa til annarra leiða.“ útskýrir Willum.

Samkvæmt skýrslunni voru hjúkrunarrými hér á landi 2.951 talsins um mitt ár í fyrra. Miðað við mannfjöldaspá má gera ráð fyrir að fjölga þurfi rýmum um 1.591 á næstu sextán árum en sú spá miðast við að 5,86% íbúa yfir 67 ára aldri þurfi á þjónustu hjúkrunarheimilis að halda. Benda skýrsluhöfundar á að stofnkostnaður við hvert rými nemi um 65 milljónum króna og því megi áætla að „fjárfestingaþörfin gæti því að óbreyttu numið um 104 milljörðum króna fram til ársins 2040.

Tregt um að fá lóðir

Í viðtalinu bendir Willum á að grípa hafi þurft til aðgerða, m.a. í ljósi þess að sífellt fleiri sveitarfélög hafa beinlínis skilað af sér rekstri hjúkrunarheimila. Þar hafi fasteignaþátturinn vegið þungt. Spurður hvort kerfið sé í raun í klessu orðar Willum það öðruvísi.

„Það vinnur og hægt og vinnur ekki nægilega vel mðe okkur þrátt fyrir góðan vilja allra og ásetning.“ Í skýrslu ráðuneytisins kemur fram að eitt af því sem hafi hamlað uppbyggingu á síðustu árum sé sú staðreynd að erfiðlega hafi gengið að fá úthlutað álitlegum lóðum undir uppbyggingu hjúkrunarheimila og að það hafi einkum átt höfuðborgarsvæðinu. Í viðtalinu er Willum m.a. spurður út í þær gríðarlegu tafir sem orðið hafa á uppbyggingu nærri 200 rýma hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi. Þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir og fráfarandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson, undirrituðu á sínum tíma samkomulag sem tryggja átti að heimilið væri risið í dag. Seinagangur borgarinnar olli því að enn bólar ekkert á þessari stofnun. Segir Willum að þau rými sem skapast hefðu með uppbyggingunni hefðu farið langt með að leysa þann fráflæðisvanda sem er á Landspítala um þessar mundir. Þar liggja inni fjölmargir eldriborgarar sem fremur ættu heima á hjúkrunarheimilum en inni á hátæknisjúkrahúsi þjóðarinnar.

Tekjustofnar endurskoðaðir

Samhliða þeim breytingum sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í verður framkvæmdasjóður aldraðra lagður niður. Þá segir í skýrslu ráðuneytisins að endurskoða verði tekjustofna sveitarfélaganna sem í kjölfar breytinganna muni ekki bera 15% kostnaðarhlutdeild í rekstri og uppbyggingu hjúkrunarheimilanna í landinu. Spurður út í þennan þátt málsins í Spursmálum segir hann málið óútkljáð.

„Það er erfitt að fullyrða hér. Það verður að gerast á þessum formgerða vettvangi ríkis og sveitarfélaga að útkljá það [...] þetta þarf að útfæra en við erum hins vegar komin af stað. Við megum ekki missa neinn tíma. Við ætlum ekki vera í þessari stöðu með spítalann og flæðið og skort á hjúkrunarrýmum að ári liðnu. Þannig að við erum búin að fara í markaðskönnun með nýtt fyrirkomulag í huga og út úr því komu verkefni með Sóltúni, verkefni með viðbgyggingu í Sóltúni, verkefni við Nauthól, þar sem gamla Loftleiðahótelið er. Það er fasteign í Urðarhvarfi þar sem er möguleiki og nú eru aðilar farnir að horfa inn í þessi verkefni með breytt fyrirkomulag. Svo verður auðvitað allt sem fyrir er, að horfa á jafnræðið gagnvart öllum aðilum sem eru í þessari þjónustu.“