Róbert Regenberg Óskarsson fæddist 10. ágúst 1950 í Valhöll í Ólafsvík. Hann lést á Dvalarheimilinu Jaðri Ólafsvík 30. desember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Óskar Hafberg Þorgilsson, f. 25. febrúar 1928, d. 17. nóvember 2023, og Ingibjörg E. Þorgilsson Regenberg, f. 3. apríl 1931, d. 3. nóvember 1986.

Róbert var elstur fjögurra systkina, hin eru Jóhann Hafberg, Helena Gerða og eftirlifandi er Georg.

Róbert starfaði sem sjómaður allt þar til hann varð 70 ára.

Árið 1972 giftist Róbert eiginkonu sinni Björgu Elíasdóttur, f. 4. mars 1953, bjuggu þau í Ólafsvík fram að síðustu stundu Róberts. Róbert og Björg eignuðust saman þrjú börn.

Börn þeirra: 1) Elías Jóhann, f. 29. júlí 1970, eiginkona: Elín Kristrún Halldórsdóttir. Dóttir þeirra er Björg Eva, f. 9. ágúst 2004, og sambýlismaður hennar er Samúel Alan Hafþórsson, barn þeirra er f. 11. desember 2023, óskírður drengur. 2) Óskar Hafberg, f. 9. janúar 1979, maki Dana Sif Óðinsdóttir. Börn þeirra: Alexía Ósk, f. 26. október 2010, Aþena Máney, f. 28. október 2016, Róbert Leví, f. 10. ágúst 2020. 3) Róbert Regenberg, f. 20. mars 1982, sambýlismaður Adam Petrovszki.

Útförin fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 13. janúar 2024, klukkan 14.

Fyrir rúmlega hálfri öld lágu leiðir okkar Róberts heitins Óskarssonar saman í fyrsta sinn. Það var á heimili tengdaforeldra minna Elíasar Oddssonar og Aðalheiðar Valdimarsdóttur í Lág á Hellissandi. Róbert var þá nýtrúlofaður Björgu mágkonu minni og ég giftur Dagnýju systur hennar. Róbert kom mér vel fyrir sjónir. Hann var rólegheitamaður og þægilegur í viðmóti. Hann gat þó alveg tekið á hvort sem það var á sjónum eða við lyftingagræjurnar í bílskúrnum hjá Stjána Alfons. Róbert fór létt með okkur alla, þegar tekið var á lóðunum. Samband Róberts og Bjargar þróaðist áfram og með tímanum eignuðust þau þrjá drengi, þá Elías, Óskar og Róbert, og byggðu sér fallegt heimili í Ólafsvík. Róbert var vélstjóri á bátum þar í plássinu og gerði síðan út trillu og aflaði vel. Það var nú stundum samkeppni milli þeirra smábátaeigendanna í Víkinni, sem gaman var að fylgjast með. Róbert og Björg voru mjög samhent í sínum búskap og lögðu mikla rækt við drengina sína þrjá. Er Róbert lést átti hann fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn hafði nýlega bæst í afkomendahópinn. Róbert heitinn var mikill íþróttamaður og keppti á yngri árum bæði í spretthlaupum og langstökki. Vann hann oft til verðlauna á sínum ferli enda með afbrigðum sprettharður.

Foreldrar Róberts þau Óskar og Inga voru mikið sómafólk. Þau bjuggu í Ólsfsvík ásamt börnum sínum Róberti, Jóa, Hellu og Georg. Af þeim hópi er nú aðeins Georg á lífi og votta ég honum samúð mína. Það var gott að sækja Róbert og Björgu heim og eins að ferðast með þeim um landið, sem við gerðum mikið af á árum áður. Ekki var síðra að fara með þeim í sólarlandaferðir og þar var Róbert alveg í essinu sínu. Seinna eignuðust þau Björg og Róbert hús á Spáni þar sem þau undu sér vel, oft með sínum afkomendum. Þegar allt lék svona í lyndi var það því talsvert reiðarslag þegar Róbert veiktist. Hann tókst á við veikindi sín af æðruleysi og karlmennsku en varð hinn 30. desember sl.að lúta í lægra haldi fyrir þeim. Það er mikil eftirsjá að drengnum góða Róberti Reginberg Óskarssyni, en þó hann hverfi nú til annars lífs mun minningin um samverustundir á jörðu lifa. Við sendum eftirlifandi eiginkonu hans, sonum þeirra, tengdadætrum og þeirra afkomendum samúðarkveðjur svo og Georg bróður hans og einnig fjölskyldu og vinum. Drottinn blessi ykkur öll.

Ólafur Beinteinn Ólafsson og Dagný Elíasdóttir.

Mig langar að minnast félaga míns, Róberts Óskarssonar eða Róba eins og hann var alltaf kallaður, sem kvaddi þennan heim 30.12. 2023 eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Mín fyrstu kynni af Róba voru þegar við gengum í Sjönuskóla þá fimm eða sex ára gamlir. Upp frá því hófst okkar vinskapur. Róbi var mikill keppnismaður bæði í leik og starfi. Hann byrjaði ungur að vinna og voru þær ófáar ferðirnar sem hann fór inn í Bug og var stundum sumarlangt við að hjálpa afa sínum við bústörfin. Þess á milli var æft á fullu, hlaup og margt fleira. Hann var mikill hlaupari, það var sagt að ef hann hefði haldið áfram á þeirri braut hefði hann orðið einn af þeim fremstu. En svo tók alvara lífsins við og var það sjómennskan. Hann var nýfermdur þegar hann réð sig á Garðar hjá Bubba og Einari. Það var oft gaman og mikið fjör. Seinna vorum við félagarnir vélstjórar á Garðari öðrum. Róbi var frábær sjómaður, alltaf jákvæður og boðinn og búinn til allra verka. Þetta tímabil á Garðari öðrum var eitt af skemmtilegri tímabilum hjá okkur félögunum. Þegar sjómannadagurinn tók að nálgast byrjaði Róbi: „Nú verðum við að fara að æfa róðurinn og reiptogið.“ Þarna var Róbi. Þær voru ófáar skemmtiferðirnar sem voru farnar bæði innanlands sem utanlands þá aðallega til sólarlanda með þeim heiðurshjónum Björgu og Róba og var oft mikið fjör. Upp úr 1995 byrjaði hann í trilluútgerð og starfaði við það alla tíð ásamt annarri sjómennsku í hjáverkum.

Minning um góðan dreng lifir.

Margt ég vildi þakka þér og þess er gott að minnast að þú ert einn af þeim sem mér þótti gott að kynnast.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, kæra fjölskylda.

Jóhann (Jói) og
Hrönn (Hrönný).