Fagráðið fór út fyrir umboð sitt og hlutverk. Það átti að svara matvælastofnun en rétti matvælaráðherranum meingallað vopn gegn hvalveiðum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Alþingi ályktaði í byrjun júní 1998 að ríkisstjórnin skyldi skipa nefnd til að kanna starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu. Samdi nefndin 157 bls. skýrslu og sendi forsætisráðuneytið hana frá sér sem bók árið 1999.

Stjórnvöld eru bundin af lögum og verða að haga stjórnsýslu sinni í samræmi við lög. Alþingi verður að hafa veitt stjórnvöldum heimild með lögum til þess að taka ákvarðanir. Stjórnvöld geta almennt ekki íþyngt borgurunum með ákvörðunum sínum nema þau hafi til þess viðhlítandi heimild í lögum. Þetta gildir m.a. um útgáfu reglugerða.

Viðurlög við að farið sé á svig við þessar meginreglur eru reifuð í bókinni. Ættu alþingismenn að lesa hana núna þegar þeir íhuga 18 bls. álit umboðsmanns alþingis frá 5. janúar um tímabundið bann við hvalveiðum sumarið 2023 samkvæmt reglugerð matvælaráðherra.

Reglugerðin sótti efni sitt í lög um velferð dýra en var gefin út á grunni laga um hvalveiðar. Reglugerðina skorti einfaldlega lögmæti. Þá var ekki gætt góðra stjórnsýsluhátta við útgáfu hennar.

Við gerð sáttmála núverandi ríkisstjórnar varð samkomulag um að minnast ekki á hvalveiðar en hjá einhverjum voru uppi hugmyndir um að stöðva þær. Matvælaráðherra hagaði reglugerð sinni þannig að ekki var um bann við hvalveiðum að ræða heldur frestun. Rökin voru hins vegar á þann veg að vilji ráðherrans stóð til banns.

Hvalur hf. hafði ótvírætt leyfi til hvalveiða sumarið 2023 og bjó sig undir þær. Matvælastofnun (MAST) gerði úttekt á hvalveiðum sumarið 2022 og sagði það sitt mat 8. maí 2023 að veiðar Hvals hf. hefðu ekki brotið gegn lögum um velferð dýra. Taldi MAST þó nauðsynlegt að halda uppi eftirliti með veiðunum sumarið 2023 auk þess að leita eftir áliti fagráðs um velferð dýra á því hvort það teldi að hægt væri að standa þannig yfirhöfuð að veiðum á stórhvelum að mannúðleg aflífun þeirra væri tryggð.

MAST sendi fagráðinu bréf með þessum tilmælum 22. maí 2023. Í áliti fagráðsins var gengið lengra en ráða mátti af bréfi MAST. Fagráðið sagðist ekki sjá að sú veiðiaðferð sem beitt væri við veiðar á stórhvelum samræmdist ákvæðum laga um velferð dýra. Felldi ráðið þannig úrskurð um lögmæti veiðanna.

Af þessum sökum bókaði löglærður fulltrúi Bændasamtaka Íslands í fagráðinu að álitamálið sem lagt var fyrir fagráðið hefði einvörðungu snúið að því hvort hvalveiðar samrýmdust lögum um velferð dýra en um hvalveiðar giltu sérlög og því væri lögfræðilegt álitamál hvort gildissvið laga um velferð dýra næði yfir hvali.

Matvælaráðuneytið og ráðherrann vissu þannig eftir lestur álitsins að um lögfræðilegt vafamál væri að ræða. Ábendingin var höfð að engu. Umboðsmaður staðfesti hins vegar réttmæti hennar, reglugerð ráðherrans skorti lögmæti, hún var heimildarlaus.

Í umræðum á Facebook um hlut fagráðsins sem réð úrslitum við ákvörðun matvælaráðherra sagði Kristinn Hugason, þáv. deildarstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að fagráðið hefði enga stjórnsýslulega stöðu í líkingu við það sem ráðherrann héldi fram.

Kristinn var á sínum tíma formaður nefndar sem samdi lagafrumvarpið um núgildandi dýravelferðarlög og átti jafnframt hugmyndina að fagráði um dýravelferð. Fyrirmyndina segir hann sótta til fagráða einstakra búgreina og ráðið sé aðeins ráðgefandi gagnvart MAST.

Formaður þingflokks matvælaráðherra tók af allan vafa um að niðurstaða fagráðsins réð úrslitum þegar hann sagði í grein 7. janúar að matvælaráðherra hefði ekki getað „gert annað, með álit okkar helstu sérfræðinga í velferð dýra í höndunum, en að fresta upphafi hvalveiða“. Enginn ráðherra málaflokks gæti setið aðgerðarlaus með svo afdráttarlausa niðurstöðu fagráðs.

Þarna er litið fram hjá því að ráðið fór út fyrir umboð sitt og hlutverk. Það átti að svara MAST en rétti matvælaráðherranum meingallað vopn.

Vandræði íslenskra stjórnmálamanna vegna hvalveiða eru skrautleg í þá fjóra áratugi sem liðnir eru frá því að Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti bann við hvalveiðum árið 1982. Bannið tók gildi með undantekningum í þágu frumbyggja- og vísindaveiða um áramótin 1985/86.

Leiði hvalveiðar til stjórnarkreppu árið 2024 er það vegna þess að matvælaráðherra hafði ekki viðhlítandi heimild í lögum til að kippa grundvelli undan veiðunum, atvinnurekstri sem nýtur lög- og stjórnarskrárverndar.

Spyrja má hvort fleiri embættisverk matvælaráðherra séu sama merki brennd, duttlungar ráði en ekki lögin.

Í tengslum við innleiðingu EES-reglna hefur gætt tilhneigingar innlendra stjórnvalda til að hrifsa til sín meira vald í skjóli reglnanna en þær leyfa. Þetta á til dæmis við um landbúnað og málefni sem falla undir MAST. Í því tilviki sem hér um ræðir gekk fagráð á vegum MAST lengra en lög heimila.

Af fréttum má ráða að svipað mál sé á döfinni vegna ágreinings um blóðmerahald sem nýtur lögverndar hvað sem líður skoðun matvælaráðherra.

Tilvik eins og það sem hér er lýst, að ráðherra gefi út reglugerð á grunni laga án þess að þau heimili það en vísi síðan í önnur lög til að réttlæta gjörning sinn, er vonandi fordæmalaust.

Árið 1998 töldu alþingismenn nauðsynlegt að fá skýrslu þar sem reifuð væru viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu. Ráðherrar bera bæði þinglega eða pólitíska ábyrgð og refsi- og bótaábyrgð vegna embættisverka. Hvalur hf. boðar að hann ætli í skaðabótamál. Hvað gera alþingismenn?