Vegur Kingsleys Ben-Adirs fer vaxandi.
Vegur Kingsleys Ben-Adirs fer vaxandi. — AFP/Patrick T. Fallon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kingsley Ben-Adir er alvanur því að leika frægar persónur. Má þar nefna Malcolm X í kvikmyndinni One Night in Miami … og Barack Obama í smáseríunni The Comey Rule, að ekki sé minnst á sjálfan Körfubolta-Ken í Barbie, enda þótt deila megi um…

Kingsley Ben-Adir er alvanur því að leika frægar persónur. Má þar nefna Malcolm X í kvikmyndinni One Night in Miami … og Barack Obama í smáseríunni The Comey Rule, að ekki sé minnst á sjálfan Körfubolta-Ken í Barbie, enda þótt deila megi um hvort sá síðastnefndi sé raunveruleg persóna, eins og hinir tveir. Sumir segja að Ken sé til, og þá í ýmsum gerðum, en aðrir ekki.

Þrátt fyrir það brá Ben-Adir í brún þegar Ziggy Marley sló á þráðinn til hans og spurði hvort hann hefði áhuga á að leika föður sinn, Bob Marley, í ævisögulegri kvikmynd um reggígoðsögnina [hvað eru mörg g í því?] sálugu. Satt best að segja hélt hann að Ziggy væri genginn af göflunum eða þá að hann hefði verið að reykja einhverjar ofboðslega skrýtnar sígarettur.

„Ég sló allskonar varnagla,“ segir Ben-Adir í samtali við Entertainment Weekly, „og var eiginlega sannfærður um að það hefði enga þýðingu fyrir mig að fara í prufu fyrir þetta hlutverk. Ég kann hvorki að syngja né dansa. Ég spurði hvort þau væru að leita á heimsvísu og svarið var já. Þá ráðlagði ég þeim að ráðast í nýja heimsleit.“

En Ziggy, sem framleiðir myndina ásamt móður sinni, Ritu, systur, Cedellu, og eiginkonu sinni, Orly, gafst ekki upp og hélt áfram að suða í Ben-Adir. Leikarinn gaf sig á endanum og lagði fram prufumyndband eftir að hafa stúderað Marley á tónleikum í heila helgi! Myndbandið sló í gegn og Ben-Adir var ráðinn.

Myndin nefnist Bob Marley: One Love og verður frumsýnd um miðjan næsta mánuð. Leikstjóri er Reinaldo Marcus Green, sem síðast gerði King Richard, og hann skrifaði einnig handritið ásamt Terence Winter, Frank E. Flowers og Zach Baylin. Um er að ræða portrett af Bob Marley frá vöggu til grafar, með sérstakri áherslu á áttuna ofanverða þegar söngvarinn naut fádæma vinsælda og hóf reggítónlistina til vegs og virðingar. Víðfrægir tónleikar Marleys í Kingston í Jamaíka í apríl 1978 fá veglegan sess, en þar freistaði hann þess að lægja pólitískar öldur í heimalandi sínu og varð nokkuð ágengt. Einnig er hermt af banatilræðinu við Marley í desember 1976, svo fátt eitt sé nefnt.

Lashana Lynch fer með hlutverk Ritu.

Ben-Adir þurfti að leggja mikið á sig fyrir hlutverkið; fyrir utan að stúdera Marley inn að beini varð hann bæði að læra að syngja og á gítar til að auka við trúverðugleikann. Hann söng öll lögin sjálfur við tökurnar. „Ekki endilega alltaf vel,“ segir hann við EW, „ég slátraði ófáum eyrunum dögum saman.“

Í myndinni renna raddir þeirra tveggja saman; Ben-Adir syngur sumt, Marley annað.

Ben-Adir kveðst alls ekki fara þá leið að kópera Marley í myndinni – enda sé það ekki hægt. „Söngur hans og dans byggðist á innri reynslu, þannig að maður hefur ekki annarra kosta völ en að finna sína eigin útgáfu. Því meira sem ég kafaði í Bob þeim mun betur áttaði ég mig á því að tónlistin var honum í raun og veru allt. Hún bjargaði honum. Það greindi hann frá öðrum listamönnum á þessum tíma.“

Bobstöð í Barbielandi

Hann kveðst þó hafa grafið djúpt, hlustað og horft á tónleika, lesið, hlustað og horft á tugi viðtala og meira að segja fengið Jamaíkumenn heim til sín til að þýða það sem hann ekki skildi sjálfur. Undirbúningur hófst meðan hann var við tökur á Barbie. „Raunar setti ég á laggirnar Bobstöð í Barbielandi og tjáði Gretu [Gerwig leikstjóra] að um leið og tökur á atriðum væru búnar yrði ég að hlaupa eins og fætur toguðu aftur í hjólhýsið mitt. Sú skörun var áhugaverð.“

Verkefnin gátu ekki verið ólíkari og Ben-Adir segir það hafa verið dásamlegt að bergja á jákvæðninni í Barbie áður en hann sökkti sér í einmanaleika Marleys.

Austin Butler hlaut mikið lof fyrir túlkun sína á Elvis Presley í sambærilegri kvikmynd eftir Baz Luhrmann en hann studdist við hina svokölluðu method-aðferð, var Elvis innan setts sem utan meðan á verkefninu stóð. Ben-Adir kveðst ekki tengja við þessa nálgun. „Ég hef aldrei skilið hana almennilega,“ segir hann við EW. „Málið snýst um að gera sér grein fyrir því hverju maður vill ná fram. Maður þarf að vera í karakter upp að vissu marki en það snýst um einbeitingu, ekki að ganga um og þykjast vera persónan. Meðan takan er í gangi gerir maður það sem til þarf en eftir það er mikilvægt að skilja sig frá viðfangsefninu, þannig að hægt sé að eiga samtal um það sem maður þarf að gera til að senan verði betri.“

Ben-Adir bætir við að hann upplifi það þannig að ætli leikarar að vera stöðugt í karakter geti það beint athyglinni frá öllu öðru og það sé varhugavert. „En þurfi menn þess til að halda einbeitingu þá gott og vel.“

Orðinn eldri en Marley

Kingsley Ben-Adir er Breti; fæddur í London árið 1986, sem gerir hann 37 ára og einu ári eldri en Bob Marley var þegar hann kvaddi þennan heim. Hann hóf ferill sinn í leikhúsinu en lék dólg í sinni fyrstu kvikmynd, City Slacker, árið 2012. Framan af ferli var hann mest í aukahlutverkum í bíó en það breyttist með Malcolm X í One Night in Miami … og nú Bob Marley: One Love.

Ben-Adir hefur líka leikið talsvert í sjónvarpi, þar á meðal í hinum vinsælu bresku þáttum Peaky Blinders og glæpaþáttunum um hana Veru. Síðasta hlutverk hans í sjónvarpi var í Marvel-þáttunum Secret Invasion í Bandaríkjunum í fyrra.

Brautryðjandi reggísins

Robert Nesta Marley, sem raunar var skírður Berhane Selassie, fæddist á Jamaíka árið 1945. Hann er einn af brautryðjendum reggítónlistarinnar og naut fádæma vinsælda meðan hann lifði – og gerir enn. Þá hækkaði hann einn og óstuddur prófílinn á jamaískri tónlist yfirhöfuð.

Marley var einnig mjög pólitískur og barðist af hörku fyrir samfélagslegum umbótum. Fyrir það var hann umdeildur og talið er að banatilræðið sem honum var sýnt á heimili sínu árið 1976 hafi verið sprottið af pólitískum rótum. Þá barðist Marley sem frægt er fyrir lögleiðingu kannabisefna.

Fyrsta plata Marleys, The Wailing Wailers, kom út 1965 og sú síðasta, Confrontation, 1983, tveimur árum eftir andlát hans. Banameinið var krabbamein.