Ísrael Aðstandendur gíslanna kölluðu eftir lausn þeirra í gær.
Ísrael Aðstandendur gíslanna kölluðu eftir lausn þeirra í gær. — AFP/Jack Guez
Yfirlýsing mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í gær af því tilefni að 100 dagar eru á morgun síðan átök Hamas og Ísraels hófust 7. október, var harðlega gagnrýnd af sendinefnd Ísraels í Genf fyrir að þar væri ekki gerð nein…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Yfirlýsing mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í gær af því tilefni að 100 dagar eru á morgun síðan átök Hamas og Ísraels hófust 7. október, var harðlega gagnrýnd af sendinefnd Ísraels í Genf fyrir að þar væri ekki gerð nein krafa um að sleppa gíslunum sem enn eru í haldi Hamas-hryðjuverkahópsins.

Í yfirlýsingunni er sagt að 100 dagar séu liðnir frá því að Hamas-samtökin og aðrir palestínskir vopnaðir hópar gerðu hryllilega árás á Ísrael þar sem tólf hundruð manns féllu og um 250 voru teknir í gíslingu. „Við höfum ítrekað vakið athygli á því að Ísraelar hafa ekki staðið við grundvallarreglur alþjóðlegs mannúðarréttar um aðgreiningu, meðalhóf og varúðarráðstafanir við árásir. Ef þessar skuldbindingar eru ekki uppfylltar er hætta á að menn verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi.“

Síðan er farið fram á vopnahlé til að binda enda á skelfilegar þjáningar palestínsku þjóðarinnar og að hægt verði að koma neyðaraðstoð tafarlaust til íbúa landsins sem búa við yfirvofandi hungursneyð.

„Ekki eitt orð sem krefst þess að gíslarnir sem haldið er á Gasa verði látnir lausir,“ stóð á reikningi sendinefndar Ísrael í Genf á samskiptamiðlinum X. „Tilboð um vopnahlé, án þess að krefjast þess að gíslum okkar verði sleppt og að Hamas-samtökin verði afvopnuð, er ákall um sigur hryðjuverka.“

Á sama tíma flutti Ísrael mál sitt fyrir alþjóðadómstólnum í Haag þar sem Suður-Afríka hefur ásakað Ísraela um brot á þjóðarmorðssáttmálanum og farið fram á vopnahlé á Gasasvæðinu. Tal Becker, yfirlögfræðingur Ísraels, sagði að Suður-Afríka gæfi mjög brenglaða mynd af staðreyndum og lögum. Hann notaði myndbönd til að sýna hrylling árásanna 7. október og sagði að Ísrael væri í varnarstríði gegn Hamas, en ekki palestínsku þjóðinni.