Anna „Ég reddaði mér stundum hér áður með því að taka úr mér eyrnalokk til að nota sem lykkjumerki.“
Anna „Ég reddaði mér stundum hér áður með því að taka úr mér eyrnalokk til að nota sem lykkjumerki.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessir skartgripir eru ekki aðeins skart, heldur eru þeir nytjahlutir, reyndar einvörðungu fyrir prjónara, heklara og föndrara, en auðvitað eru þetta líka skartgripir fyrir alla sem ekki prjóna eða hekla

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þessir skartgripir eru ekki aðeins skart, heldur eru þeir nytjahlutir, reyndar einvörðungu fyrir prjónara, heklara og föndrara, en auðvitað eru þetta líka skartgripir fyrir alla sem ekki prjóna eða hekla. Þetta er svokallað nytjaskart,“ segir Anna Silfa Þorsteinsdóttir hönnuður um nýjustu línuna hennar, My Pearl, en hún var valin inn á eina stærstu prjóna- og handverkssýningu heims sem haldin verður í New York nú í lok janúar. Vogue Knitting Magazine stendur fyrir sýningunni og gert er ráð fyrir um 8.000 gestum á hátíðina.

„Þetta er sannarlega mikill heiður að hafa verið valin inn og ég veit ekki betur en að þetta sé fyrsta íslenska fyrirtækið til þess. Ég segi stundum að markmið mitt sé að geta staðið eins og riddari og verið klár í allt prjón og með alla smáhluti á mér sem þarf að nota í fjölbreyttu prjóni. Nú er ég sannarlega að ná því markmiði með My Pearl og á leiðinni út til New York,“ segir Anna sem hefur hannað skart undir merkinu SILFA undanfarin ár, en þar sækir hún innblástur í arfleifð íslensku þjóðarinnar með áherslu á skart og mynstur liðinna alda.

„Ég sæki innblástur í reynsluheim minn sem prjónari í hönnun á þessari nýju línu nytjaskarts, My Pearl. Ég hef alla tíð prjónað mikið og þessi litlu hjálpartæki eða aukahlutir sem við prjónarar notum, lykkjumerki, ermalykkjuhaldarar, prjónamál, garnlitahringir, mælieiningar og fleira, hafa yfirleitt verið úr plasti og ég var alltaf að týna þessu. Í gegnum tíðina reddaði ég mér stundum með því að taka úr mér eyrnalokk til að nota sem lykkjumerki, en maður getur ekki notað hvaða eyrnalokk sem er, því garnið má hvergi festast í. Ég fór að velta fyrir mér hversu hagkvæmt væri að geta gengið með þessi litlu prjónatæki á sér og vera á sama tíma fagurlega skreytt. Ég byrjaði á að láta gera fyrir mig eyrnalokka sem eru á sama tíma lykkjumerki, með 10 millimetra máli því þá er hægt að koma 9 millimetra prjóni þar inn, en ég er líka með fleiri stærðir, sem ég nota meira til að breyta útliti skartsins, festi til dæmis saman fjögur lykkjumerki sem verða þá að sparilegum eyrnalokk. Ég er með úrval af ferskvatnsperlum í nokkrum litum sem ég hannaði sem lykkjumerki og hægt að nota bæði sem staka eyrnalokka eða skraut í hálsmeni. Þegar fyrstu hlutirnir mínir komu í þessari línu, þá var svolítið fyndið að fáir áttuðu sig á að svona fallegt skart væri nytjahlutur.“

Gott að hafa gullsmið

Anna fór með skartið sitt á sýningu til Danmerkur sl. haust og þar hitti hún Bettinu, konu sem skildi ekkert í hvað hún væri að gera með skartgripi á prjónahátíð. „Þegar ég sýndi henni skartið í notkun á hálfprjónuðum flíkum, þá áttaði Bettina sig á þessu og í dag er hún að selja þessa línu mína úti í Danmörku. Einnig eru söluaðilar farnir að kynna vöruna í Kanada og Ameríku. Öll Perlu-línan getur tengst saman, prjónamálshálsmenið er til dæmis löng hálskeðja og þar eru prjónamál frá tveimur millimetrum upp í tíu, allt sem prjónarar og heklarar þurfa þegar þeir vinna verk sín. Prjónamálshálsmeni fylgja tvær festingar þar sem hægt er að tengja armband við hálskeðjuna og þá er komin öðruvísi skartgripur. Tvær vinkonur geta því átt sama hálsmenið en hvor með sína útfærslu, því það er hægt að breyta því, taka það í sundur, snúa því á ólíka vegu, bæta ólíkum hlutum við og svo framvegis. Einnig er hægt að nota hálsmenið sem belti um mittið og það er alltaf hægt að lengja keðjuna, nú eða stytta og nota sem armband. Nýlega bætti ég fingurhringjum við línuna, sem halda festunni í prjóninu þegar maður prjónar. Aðrir hringir eru garnlitahringir, til að nota þegar prjónað er með marga liti, þá þræðir maður hvern lit upp á hring til að forða því að allt fari í flækju,“ segir Anna og bætir við að hún hafi mikið yndi af að vinna við þessa hönnun.

„Ég teikna upp mínar hugmyndir og er með góðan framleiðanda sem gerir fyrst sýnishorn, sem við svo lögum til og bætum áður en að endanlegri útfærslu kemur. Ég á mjög góðan vin sem er gullsmiður og hann fer líka yfir hlutina fyrir mig. Þessi skartgripalína kemur bæði í gylltum lit, með 18 karata húðun, og í hefðbundnum silfurlit, en það er há-pólerað læknastál. Öll vörulínan, alveg eins og upphaflega SILFU- línan, er ofnæmisprófuð.“

Nánar á silfa.is

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir