Nýliði Eggert Aron Guðmundsson getur spilað fyrsta landsleikinn.
Nýliði Eggert Aron Guðmundsson getur spilað fyrsta landsleikinn. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Sjö nýliðar geta í kvöld leikið sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu þegar Ísland mætir Gvatemala í vináttulandsleik karla. Leikurinn fer fram í Fort Lauderdale í Flórída í Bandaríkjunum, á heimavelli Inter Miami, liðs Lionels Messi og samherja…

Sjö nýliðar geta í kvöld leikið sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu þegar Ísland mætir Gvatemala í vináttulandsleik karla.

Leikurinn fer fram í Fort Lauderdale í Flórída í Bandaríkjunum, á heimavelli Inter Miami, liðs Lionels Messi og samherja hans, og hefst klukkan 23.30 að íslenskum tíma en þá er klukkan 18.30 í Flórída.

Þrír af nýliðunum eru 19 og 20 ára gamlir og nýbúnir að semja við erlend félög. Þetta eru Eggert Aron Guðmundsson hjá Elfsborg í Svíþjóð og þeir Hlynur Freyr Karlsson og Anton Logi Lúðvíksson sem gengu til liðs við Haugesund í Noregi á dögunum.

Hinir fjórir sem geta spilað sinn fyrsta landsleik í kvöld eru Birnir Snær Ingason úr Víkingi, Logi Hrafn Róbertsson úr FH, Lúkas Blöndal Petersson, markmaður hjá Hoffenheim í Þýskalandi, og Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Kristiansund í Noregi.

Sverrir Ingi Ingason og Arnór Ingvi Traustason eru reyndastir í íslenska hópnum sem er í Flórída og mætir einnig Hondúras aðfaranótt miðvikudags. Af þeim sem spiluðu leiki í undankeppni EM í fyrra eru einnig í hópnum þeir Andri Lucas Guðjohnsen, Stefán Teitur Þórðarson, Hákon Rafn Valdimarsson, Kolbeinn Finnsson og Daníel Leó Grétarsson.

Ísland hefur aldrei áður mætt Gvatemala sem er í 108. sæti heimslista FIFA, 37 sætum á eftir Íslandi en verður með fleiri af sínum fastamönnum til taks en íslenska liðið.

 Leikurinn verður í beinni textalýsingu á mbl.is/sport og er sýndur beint í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.