Ragga Gísla kemur nú í fyrsta sinn fram á Eyjatónleikum í Hörpu.
Ragga Gísla kemur nú í fyrsta sinn fram á Eyjatónleikum í Hörpu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sagt er að gaman sé að skemmta sér með Eyjamönnum og margir vilja upplifa það.

Þegar hjónin Bjarni Ólafur Guðmundsson og Guðrún Mary Ólafsdóttir efndu til tónleika með Eyjalögum í Hörpu árið 2011 sáu þau bara fyrir sér stakan viðburð. Viðtökur urðu á hinn bóginn á þann veg að þau eru enn að og laugardaginn 27. janúar fara þrettándu Eyjatónleikarnir fram í Hörpu.

„Ætli þetta sé ekki orðin langlífasta tónleikaröðin í Hörpu, fyrir utan tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands,“ segir Bjarni Ólafur, eða Daddi eins og hann er alltaf kallaður. „Við slepptum ekki einu sinni úr tónleikum í covid en þurftum að streyma einum.“

Byrjað var á 100 ára fæðingarafmæli Oddgeirs Kristjánssonar, sem er guðfaðir Þjóðhátíðarlaganna, og tónleikarnir mæltust svo vel fyrir að ekki var um annað að ræða en að taka upp þráðinn ári síðar – „og hér erum við enn,“ segir Daddi. „Það búa ofboðslega margir Eyjamenn á Íslandi, örugglega fleiri en í Vestmannaeyjum, og þeir hafa tekið þessu framtaki opnum örmum. Þessi viðburður er í bland tónleikar og árganga- og ættarmót Eyjamanna. Það eina sem kvartað var undan eftir fyrstu tónleikana var að hléið væri ekki nógu langt,“ segir Daddi sposkur. „Þess vegna höfum við fengið leyfi til að vera með lengra hlé en aðrir, allt að 40 mínútur. Eyjamönnum finnst ekki leiðinlegt að skemmta sér, þannig að þeir sem eru með barinn tapa ekki á því.“

Það eru auðvitað ekki bara Eyjamenn sem mæta á tónleikana og Daddi segir alla velkomna. „Sagt er að gaman sé að skemmta sér með Eyjamönnum og margir vilja upplifa það. Svo koma líka margir sem eru með tengingu við Eyjar; hafa verið þar á vertíð, komið á Þjóðhátíð eða bara hitt eldhressa Eyjamenn á Íslandi eða úti í heimi.“

Tímasetningin, undir lok janúar, er heldur engin tilviljun enda bera margir Eyjamenn sterkar taugar til þess tíma árs en gosið í Heimaey hófst sem kunnugt er 23. janúar 1973. „Við viljum hafa tónleikana nálægt þeirri dagsetningu,“ segir Daddi.

Hann segir um 150 lög hafa hljómað á þessum þrettán árum, eftir hina og þessa. Sum þurfa alltaf að vera, eins og Ég veit þú kemur, Lífið er yndislegt, Í brekkunni og fleiri, en öðru er skipt inn og út. Daddi segir lúxusvandamál að velja lögin og að Þórir Úlfarsson hljómsveitarstjóri skammi hann árlega fyrir að velja of mörg lög.

Daddi segir alla helstu söngvara þessa lands, karla og konur, hafa komið fram og enn bætist í þann fríða hóp. Að þessu sinni troða upp Jón Jónsson, Salka Sól, Friðrik Dór, Ragga Gísla, Emmsjé Gauti, Védís Hervör, Bjartmar Guðlaugs, Þórarinn Óla, Albert Tórzhamar, ásamt Kvenna- og Karlakórum Vestmannaeyja og sérstakir gestir verði hljómsveitin Molda. Það er metfjöldi listamanna á einu og sama kvöldinu.

Daddi er mjög spenntur fyrir þessum hópi og lofar til að mynda óvæntum dúettum. „Ragga Gísla, tengdadóttir Vestmannaeyja, er að koma í fyrsta sinn og mun taka Þjóðhátíðarlagið sitt. Þá var hún með Grýlunum á Þjóðhátíð 1982 og hlýtur að vísa með einhverjum hætti í það gigg. Emmsjé Gauti er líka að koma í fyrsta sinn en hann átti Þjóðhátíðarlagið í fyrra, Þúsund hjörtu. Jón og Friðrik Dór munu ábyggilega taka Á sama tíma, á sama stað og svo á Ljúft að vera til tíu ára afmæli á þessu ári og svo eru auðvitað 150 ár frá fyrstu Þjóðhátíðinni í sumar og við hljótum að gefa því svolítinn gaum. Svo erum við alltaf með listamenn úr Eyjum í bland sem standa sig alltaf með prýði enda hafa þeir tilfinninguna fyrir tónlistinni.“

Daddi segir rokksenuna í Eyjum standa í miklum blóma og í haust voru tónleikar í Höllinni með fimm eða sex þungarokksböndum. „Okkur fannst gráupplagt að fá sérstaka gesti á Eldborgarsviðið, en hljómsveitin Molda hefur nýverið endurgert lag eftir Árna heitinn Johnsen, sem hann samdi í Eyjagosinu 1973, og hver veit nema þeir galdri eitthvað meira fram.“

– Munu svo fjórtándu tónleikarnir fara fram að ári?

„Við höfum ekki tímt að hætta þessu en því er samt ekki að neita að því fylgir áhætta fyrir miðaldra hjón í Vestmannaeyjum að standa í þessu og allt veltur þetta á því að fólk láti sjá sig. Það hefur nánast verið uppselt frá upphafi og fyrir það erum við óendanlega þakklát. Miðasala hefur hins vegar farið heldur rólega af stað núna, hvort sem það er árferðið eða eitthvað annað. Vonandi tekur hún kipp fram að tónleikum. Þrennir tónleikar hafa verið teknir upp, tvennir af RÚV og einir af Sjónvarpi Símans, þannig að þetta er mjög góð kynning fyrir tónlistar- og menningarlífið í Eyjum. Okkur hjónum finnst mjög mikilvægt að halda þessum dýrmæta menningararfi á lofti og því vonum við það allra besta, en sjáum hvað setur ...“