Gull Meistarar KR 60+. Efri röð f.v.: Jón G. Bjarnason, Örn Guðmundsson, Ágúst Már Jónsson, Bjarni Halldórsson, Vilhelm Frederiksen og Sigurður Björnsson. Fremri röð f.v.: Guðmundur Albertsson, Ólafur Jónsson, Finnur Thorlacius, Þorvarður Björgúlfsson og Sæbjörn Guðmundsson.
Gull Meistarar KR 60+. Efri röð f.v.: Jón G. Bjarnason, Örn Guðmundsson, Ágúst Már Jónsson, Bjarni Halldórsson, Vilhelm Frederiksen og Sigurður Björnsson. Fremri röð f.v.: Guðmundur Albertsson, Ólafur Jónsson, Finnur Thorlacius, Þorvarður Björgúlfsson og Sæbjörn Guðmundsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nægur svefn, gott mataræði og hreyfing eru lykilþættir góðrar heilsu. Bjarni Halldórsson, sem verður 72 ára í febrúar, er með þetta á hreinu og árangurinn lætur ekki á sér standa, en hann varð Íslandsmeistari í fótbolta í flokki 60 ára og eldri á nýliðnu ári

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Nægur svefn, gott mataræði og hreyfing eru lykilþættir góðrar heilsu. Bjarni Halldórsson, sem verður 72 ára í febrúar, er með þetta á hreinu og árangurinn lætur ekki á sér standa, en hann varð Íslandsmeistari í fótbolta í flokki 60 ára og eldri á nýliðnu ári. Athygli vekur að Bjarni, sem er í hópi elstu keppnismanna landsins í íþróttum, lék aðeins í 5. flokki, hætti í fótbolta rétt eftir að hann hóf æfingar í 4. flokki og byrjaði svo að spila með svonefndum öldungum í eldri flokki eftir að hafa æft með Lunch United í nokkur ár.

Íþróttir hafa alla tíð átt hug Bjarna. Hann byrjaði snemma að sparka bolta á Landakotstúninu og fór síðan á æfingar í 5. flokki í KR, en hætti um haustið á fyrsta ári í 4. flokki eftir að hafa tognað á læri. „Við spiluðum töluvert fótbolta í leikfimi í Versló, en annars hef ég bara spilað með Lunch United síðan 1976 og eldri flokki KR frá því ég var þrítugur. Skömmu eftir að ég var orðinn elstur í hópnum hætti ég í nokkur ár enda erfitt fyrir sextugan mann og þaðan af eldri að halda í við fertuga stráka. Hoppaði svo aftur á vagninn þegar keppni fyrir 60 ára og eldri byrjaði fyrir nokkrum árum.“

Lunch breytti sögunni

Fótboltafélagið Lunch United var formlega stofnað 1973 í kjölfar skíðaferðar nokkurra Framara til Noregs 1972. Þeir vildu styrkja sig fyrir ferðina, byrjuðu að skokka saman á Melavellinum í hádeginu og fljótlega bættist bolti við. Bjarni hefur mætt samviskusamlega á æfingar þrisvar í viku árið um kring og spilað með hópnum í tæplega 50 ár. „Ég byrja daginn á því að synda um 500 metra í Kópavogslaug þrjá morgna í viku og fer í ræktina tvisvar í viku auk þess sem ég spila reglulega fótbolta innanhúss um helgar,“ segir hann um aðra líkamsrækt. Allt fyrir heilsuna, gleðina og ánægjuna.

Bjarni er sókndjarfur en hefur samt alltaf spilað í vörn. „Gunnar Jóns þjálfari leyfði mér stundum að spila á kantinum í 5. flokki en annars var ég vinstri bakvörður,“ rifjar hann upp. Hann hefur aldrei tekið þátt í hörðum keppnisleik og því aldrei meiðst alvarlega síðan á æfingu í 4. flokki. „Í Lunch hefur alltaf verið lögð áhersla á að meiða ekki aðra og til dæmis er bannað að rennitækla.“ Sama hugsun sé í leikjum eldri manna. „Menn passa það að meiða ekki hver annan og harka er litin alvarlegum augum. Ég hef stundum haft áhyggjur af hnjánum en þau hafa verið í fínu lagi að undanförnu og ég held áfram eins lengi og heilsan leyfir.“

Á árum áður tók Bjarni þátt í firmamótum með fyrirtæki sínu og minnist þess að Tryggingamiðstöðin hafi oft haft eitt sterkasta liðið. „Þar voru menn eins og Siggi Einars og Gummi Pé og ég man að ég dáðist að þeim fertugum. Við í Lunch höfum breytt sögunni með því að spila svona lengi fram eftir aldri og nú blómstra menn á áttræðisaldri í boltanum eins og Haraldur Erlendsson í Breiðabliki og Maggi Bárðar í Þrótti.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson