Örn Bárður Jónsson
Örn Bárður Jónsson
Gervigreind er ekkert merkilegri en stafrófið eða prentlistin, útvarp eða sjónvarp, tölva eða farsími. Hún er bara nýrri tækni sem opnar aðrar víddir eins og allar hinar eldri greindir gerðu og gera enn.

Örn Bárður Jónsson

Skoðum söguna um það hvernig maðurinn hefur lært að hugsa óhlutbundið og nýtt sér tæknina.

Stafrófið er merkileg uppfinning. Það er rakið til Kanaaníta í Mið-Austurlöndum fyrir um 5000 árum. Íslenska stafrófið telur 32 stafi. Með þessu stafasetti eru öll orð mynduð, sem til eru á prenti á íslensku eða rafrænum textum.

Öldum síðar kom prentlistin til sögunnar. Gutenberg fann upp tækni sem fólst í því „að prenta með lausaletri og í pressu“. Marteinn Lúther hagnýtti sér t.d. prentlistina til hins ýtrasta.

Ítalski uppfinningarmaðurinn Marconi kom fram með hugmyndina að útvarpi, eða þráðlausum skeytasendingum upp úr 1890.

Seinna kom sjónvarpið og svo tölvurnar og nú er það svonefnd gervigreind sem Færeyingar kalla vitlíki.

Allar þessar byltingar hafa gefið fólki aukna möguleika á að tjá sig og varðveita hugsun sína. Í raun er enginn eðlismunur á þessum byltingum, þær nota aðeins ólíka tækni.

Ég var við messu í Neskirkju á jóladag. Sólin skein inn um glugga á suðurhlið kirkjunnar. Þar sem ég sat sá ég ekki gluggann. En vetrarsólin varpaði hinsvegar sýndarglugga á gafl kirkjunnar. Það var fögur sjón.

Þegar ég les í Biblíunni, eða aðrar fagurbókmenntir, þá les ég sýndarveruleika, frásagnir af einhverju sem ritarinn skráði. Jólaguðspjallið er t.d. frásögn höfundar af fæðingu Jesú. Sú saga er ekki Jesús sjálfur en hún vísar til veruleika hans og er því sýndarveruleiki.

Í Kastljósi 3. janúar sl. var rætt um hvort nota mætti gervigreind með því t.d. að láta fræga einstaklinga, lifandi og látinn, birtast á skjánum í sýndarveruleika eins og gerðist í Skaupinu og sýndist sitt hverjum. En er sýndarveruleiki og gervigreind eitthvað nýtt? Og er hin nýja greind hættuleg?

Þegar Pálmi Gestsson lék forðum daga Ólaf Ragnar Grímsson í Spaugstofunni, þá var hann ekki Ólafur Ragnar sjálfur, heldur tilvísun í hann eða sýndarveruleiki, en oft gat þó verið erfitt að greina raunveruleikann!

Hvað er greind?

Í orðabók segir um greind: „hæfileiki til að afla sér vitneskju, skilja samhengi ólíkra fyrirbæra, greina málefnin og hugsa óhlutbundið“.

Skáldskapargáfan er greind, hæfileiki til að tjá veruleikann í afleiddri mynd og sýna hann með afleiðslu eða tilvísun. „Cogito ergo sum,“ sagði Descartes, „ég hugsa, þess vegna er ég.“ Skáldskaparlistin er líklega sú mikilvægasta greind sem mannkyn á til að beita í skilningsleit sinni og túlkun á veruleikanum.

Biblían mér handgengin enda líklega merkasta bók sem til er. Hún geymir allskonar texta um fagurt líf og ljótt. Íslendingasögurnar eru sama marki brenndar. Við verðum að velja og túlka allt sem við lesum. Ef við túlkum ekki og metum aðstæður þá lesum við bókstaflega, eins og það er kallað. Þannig lesa sumir kristnir Biblíuna sína og margir guðleysingjar einnig og slíkt getur reynst skaðlegt og hættulegt. William Booth, stofnandi Hjálpræðishersins, sagðist lesa Biblíuna með sömu aðferð og hann borðaði þorsk. Hann sagðist tína beinin út úr sér og leggja þau á diskbarminn en kyngja góðgætinu. Þá má þess geta að þorskurinn, hinn guli úr djúpinu, gefur okkur lýsi eða ljós í sinni!

Gervigreind er ekkert merkilegri en stafrófið eða prentlistin, útvarp eða sjónvarp, tölva eða farsími. Hún er bara nýrri tækni sem opnar aðrar víddir eins og allar hinar eldri greindir gerðu og gera enn.

Talar enn til okkar

Ein af lykilsögum Biblíunnar er sagan af Adam og Evu í Eden. Þetta er lítil saga, skrifuð af rithöfundi sem fékkst við það að rýna í rúnir lífsins og skilja veruleikann, einkum hið neikvæða í eigin sál og samfélagi. Tilgáta mín er að höfundurinn, líklega karlkyns, hafi átti í erjum við kerlu sína. Börnin voru óþekk og bræður hans í fýlu. Hvers vegna fer allt úrskeiðis? Og hann sest niður og skrifar sögu. Hún byrjar vel en svo læðist eitthvað inn í hinn fullkomna heim. Allt í einu skríður höggormur á grein. Og hann kann að tala! – Og hann kann líka að ljúga! Hann spyr spurninga og fær Adam og Evu til að efast um sig sjálf og lífið. Þau vissu að þau máttu eta af öllum ávöxtum aldingarðsins nema þeim er óx á lífsins tré.

Gerðist þetta í raun og veru? Nei, auðvitað ekki, en þetta er alltaf að gerast! Sagan er túlkun innblásins skálds á tilvistarglímu mannsins og hún er svo djúp og snjöll að hún talar enn til okkar á öld gervigreindar og sagan hans er eins og málverk, svo vel er hún samin en enginn var samt þar með farsíma til að taka vídeó.

Höfundar Biblíunnar notuðu stafrófið til að segja sögur og búa til sýndarveruleika með orðum og hugmyndum um innsta eðli lífsins. Biblían geymir margar slíkar túlkunarsögur sem eru lyklar að lífinu, eins og lykilorðin að símum eða tölvum. Þú kemst ekki langt án lykilorðanna og ekki heldur í skilningi á lífinu án hinnar helgu bókar.

Við getum ekki lifað án skáldskapar, án greindar og sýndarveruleika. Skáldskapurinn sér ætíð lengra, kafar dýpra, birtir okkur sannleikann um lífið. Biblían hefur verið kölluð Bók bókanna. Hún er merkilegt rit, hún er safn 77 ólíkra rita, bibliotek, skrifuð af innblásnum skáldum.

Lesum meira, leyfum skáldunum að leiða okkur inn á nýjar lendur hugans í áður óþekktar víddir með aðferð gervigreindar og sýndarverleika eins og gert hefur verið um aldir. Páll postuli talaði um kærleikann og beitti sýndarveruleika er hann sagði: „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis.“ Orðið „þá“ skiptir hér sköpum.

Óttumst ekki tæknina. Hún er, eins og aldingarðurinn Eden, með marga ávexti en vandinn er sá með alla tækniheima að inn í þá læðist ætíð höggormur. Verum því allsgáð í öllum aðstæðum lífsins og gætum okkar á hinni hvíslandi rödd sem talar eins og fjandans ormurinn: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ Látum lygina ekki afvegaleiða okkur, en leitum sannleikans, sem mun gera okkur frjáls, eins og Frelsarinn lofaði og lofar enn.

Guð gefi þér gleðilegt nýtt sýndarár og megi það svo verða að veruleika í hvert sinn er nýr dagur ársins rís!

Höfundur er prestur.

Höf.: Örn Bárður Jónsson