Margir tilnefndir en fáir útvaldir

Af nýársávarpi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands varð óvænt ljóst að þjóðin gengi til forsetakjörs hinn 1. júní næstkomandi.

Mönnum liggur almennt ekki á að tilkynna framboð til forseta, enda stór ákvörðun sem fæstir hafa staðið frammi fyrir áður. Ákvörðunina þarf að taka með hliðsjón af því hvern eða hver þjóðin geti helst fellt sig við á Bessastöðum; til þess að vera í forsvari þjóðarinnar á erlendum vettvangi, yfir dægurþras stjórnmálanna hafin, en reiðubúin til þess að taka af skarið ef á þarf að halda.

Áhugann skortir ekki, eins og sjá má af viðbrögðunum þegar Morgunblaðið leitaði tilnefninga almennings á mbl.is. Þar komu nær 2.500 tillögur á rúmum sólarhring og um 260 nöfn skiluðu sér í þann hatt.

Dreifingin var því mikil, en samt sköruðu nokkur nöfn fram úr. Þar voru þau Arnar Þór Jónsson, Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Ólafur Jóhann Ólafsson hnífjöfn, en náðu þó hvert um sig ekki 10% tilnefninga. Arnar Þór einn hefur tilkynnt framboð enn sem komið er.

Meðal annarra með vænan stabba tilnefninga má nefna Baldur Þórhallsson, Bergþór Pálsson, Fannar Jónasson, Jón Gnarr, Rögnu Árnadóttur og Ölmu Möller.

Rétt er að taka fram að ekki var um skoðanakönnun að ræða heldur tækifæri fyrir landsmenn til að koma á framfæri hugmynd að frambjóðanda. Í einhverjum tilvikum er þar sjálfsagt um samblástur að ræða til þess að koma nöfnum í umræðuna og ekki endilega með Bessastaði í huga, en flest eru til komin vegna þess að fólk ber traust til þeirra í æðsta embætti ríkisins. Fleiri nöfn munu fram koma og önnur munu úr tínast uns framboð verða lögð fram.

Morgunblaðið og mbl.is munu veita þeirri lýðræðislegu umræðu og kosningabaráttunni verðuga athygli, rétt eins og þjóðin.