Jón Haukur Bjarnason fæddist í Reykjavík 5. september 1941. Hann lést 31. desember 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Foreldrar Jóns Hauks voru Bjarni Kristjánsson, veitingamaður og síðar vörubílstjóri frá Bollastöðum í Flóa, f. 1904, d. 1984, og Jórunn Kristinsdóttir húsmóðir fædd í Reykjavík 1910, d. 1996. Jón Haukur var yngstur fimm systkina sem öll eru látin. Kristinn, f. 1929, d. 2008, Guðrún Erla, f. 1932, d. 2017, Gunnar Bjarni, f. 1933, d. 1986, og Ragnar Foss, f. 1934, d. 1935.

Jón Haukur kvæntist 2.9. 1961 Elsu Jónsdóttur, f. 6.1. 1942 á Akranesi, húsmóður og fyrrv. forstöðukonu vinnustofu fatlaðra á Selfossi. Elsa er dóttir hjónanna Jóns Guðmundssonar framkvæmdastjóra á Akranesi, f. 1904, d. 1987, frá Vatni á Höfðaströnd, og Sigríðar Steinsdóttur húsmóður, f. 1914, d. 2007, frá Bakkagerði á Borgarfirði eystri.

Börn Jóns Hauks og Elsu eru 1) Stefán, f. 1961, kvæntur Gunni Hafsteinsdóttur, börn þeirra Elsa Jóna og Hafsteinn Hrannar, barnabörnin eru sex. 2) Jóna Björg, f. 1962, gift Einari Braga Bjarnasyni, börn þeirra Haukur Þórir, Hákon Már, d. 1984, Einir Örn, Gunnar Bjarni, Svanlaug Erla og Bragi Þór, barnabörnin eru níu. 3) Hörður, f. 1963, kvæntur Halldóru Sigríði Sveinsdóttur, dætur þeirra Hrafnhildur Lilja, Kristrún Elsa og Karitas Hrund, barnabörnin eru sjö. 4) Bjarni, f. 1965, kvæntur Guðrúnu I. Svansdóttur, börn þeirra Tinna, Edda Laufey og tvíburarnir Svandís Bríet og Jón Haukur. 5) Sigríður, f. 1966, gift Jóni Sigurðssyni, synir þeirra Hákon Már og Þórarinn. 6) Unnar, f. 1967, kvæntur Lilju S. Jóhannesdóttur, börn þeirra Jón Haukur, Fjölnir og Hugrún Anna. 7) Þráinn, f. 1969, kvæntur Önnu Sólveigu Ingvadóttur, synir þeirra Ingvi Þór Þorkell og Jón Jökull, barnabörnin eru tvö.

Jón Haukur ólst upp í Sörlaskjóli 15 í Vesturbæ Reykjavíkur, hann var í sveit hjá föðurbróður sínum Gísla Kristjánssyni á Vindási í Landsveit og einn vetur í Fellsmúla hjá sr. Ragnari Ófeigssyni. Á unglingsárum vann hann hjá Landnámi ríkisins víða um land og í byggingarvinnu hjá Pétri Árnasyni múrarameistara. Að loknu námi í Bændaskólanum á Hvanneyri þar sem þau Elsa kynntust stofnuðu þau heimili á Króktúni 8 á Akranesi, þá vann Jón Haukur í skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts. Þau keyptu íbúð við Sörlaskjól 46 árið 1962 og vann Jón Haukur hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þau fluttu að Háholti í Gnúpverjahreppi 1965 og voru við búskap þar og frá 1973 á Þórisstöðum í Grímsnesi til 1998 er þau fluttu að Kringlu í sömu sveit. Meðfram búskap stundaði hann ýmsa vinnu aðra, var héraðslögreglumaður og ráðsmaður á Sólheimum í Grímsnesi í nokkur ár. Frá 1986 varð akstur hans aðalstarf, var skólabílstjóri í Grímsnesinu. Í mörg ár keyrði hann einnig unglinga í sumarvinnu Landsvirkjunar auk aksturs með ferðamenn um hálendið í nokkur ár. Frá 2018 hafa þau búið á Borgarbraut 16 á Borg í Grímsnesi.

Útför Jóns Hauks fer fram frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn í dag, 13. janúar 2024, kl. 13.

Elsku pabbi, við minnumst þín með þakklæti og hlýju. Síðustu árin voru þér erfið en þú barst þig vel og varst alltaf tilbúinn til að hlusta eftir því sem bætt gæti heilsuna. En lundin var létt og ljúf og alltaf stutt í eitthvert glens. Vildir alltaf að við kæmum sem oftast og stoppuðum sem lengst og værum helst öll í einu. „Ertu farinn, hvenær kemur þú næst?“ „Komið þið sem oftast, það er svo gott að hafa ykkur.“ Fannst afleitt ef einhverjir afkomendanna væru í útlöndum í lengri tíma: „Fer hún ekki að koma heim?“ „Hvenær kemur hann heim?“ Alltaf tilbúinn að hvetja okkur áfram og styðja við það sem við tókum okkur fyrir hendur. Varst alltaf mikill dýravinur, áttir alltaf hesta og skrautdúfur í mörg ár og lagðir áherslu á að við værum góð við dýrin. Fylgdist með dúfunum þínum í i-padinum eftir að þú hættir að komast út í dúfnakofann undir það síðasta. Treystir okkur til að gera alla hluti þó að við værum ekki orðin gömul: Vinna á dráttarvélum, keyra bíla, reka hrossastóð, annast sauðburð, mjaltir, heyskap, keyra trukk um hálendið og hvað annað sem gera þurfti. Það tókst kannski ekki allt fullkomlega, en við fengum afar sjaldan orð í eyra, líklega mun sjaldnar en tilefni var til. „Farið þið varlega krakkar mínir,“ sagði hann alltaf þegar hann kvaddi okkur. Við berum keim af þessu hlýja uppeldi og að vera sjö systkini fædd á átta árum, það gerði okkur samrýnd og samstiga í flestu því sem máli skiptir. Það er okkur mikils virði.

Sólin í lífi pabba var mamma. Það mátti sjá blik í auga hans fram á síðasta dag þegar hún birtist; „gullið mitt“ sagði hann alltaf við mömmu.

Við kveðjum þig eins og þú kvaddir okkur alltaf: „Farðu varlega,“ elsku pabbi.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Stefán, Jóna Björg, Hörður, Bjarni, Sigríður (Sigga), Unnar og Þráinn.