Frammistaða íslenska liðsins í leiknum var ekki nægilega góð og liðið má teljast heppið að hafa sloppið með eitt stig úr honum, úr því sem komið var. Sóknarleikurinn var afar stirður framan af og fyrsta markið kom eftir rúmlega fimm mínútna leik

Frammistaða íslenska liðsins í leiknum var ekki nægilega góð og liðið má teljast heppið að hafa sloppið með eitt stig úr honum, úr því sem komið var.

Sóknarleikurinn var afar stirður framan af og fyrsta markið kom eftir rúmlega fimm mínútna leik. Íslenska liðið komst tvívegis þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik en alltaf tókst Serbum að svara og jafna metin. Serbarnir voru svo mun sterkari í síðari hálfleik og sóknarleikurinn var mjög stirður á löngum köflum.

Liðið gerði of mörg tæknileg mistök í sóknarleiknum og tapaði boltanum oft og tíðum klaufalega. Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu tvö mörk hvor og eiga báðir mikið inni en liðið þarf meira frá þeim tveimur þegar kemur að markaskorun ef Ísland ætlar sér að ná markmiðum sínum á mótinu.

Varnarleikurinn var hins vegar nokkuð góður en það gekk oft illa að loka á línumenn Serba, sérstaklega eftir langar sóknir þeirra, og íslenska liðinu var oft refsað grimmilega fyrir einbeitingarleysið.

Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í markinu í fyrri hálfleik en því miður tókst íslenska liðinu ekki að nýta sér það að neinu ráði.

Liðið þarf að gera miklu betur í næstu tveimur leikjum sínum ef það ætlar sér áfram í milliriðlakeppnina og góðu fréttirnar eru þær að margir lykilmenn liðsins eiga mikið inni.