Franz Beckenbauer tekur við heimsbikarnum eftir sigur Þjóðverja á Hollendingum sumarið 1974.
Franz Beckenbauer tekur við heimsbikarnum eftir sigur Þjóðverja á Hollendingum sumarið 1974. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann hafði allt, var eldfljótur, teknískur og las leikinn betur en aðrir menn. Yfirburðamaður.

Margir hafa minnst knattspyrnumannsins Franz Antons Beckenbauers í vikunni enda naut hann almennrar lýðhylli víða um lönd fyrir hæfni sína á velli og síðar sem þjálfari. Afrekin tala í því sambandi sínu máli.

Ásgeir Sigurvinsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í Belgíu og Þýskalandi, kynntist Beckenbauer ágætlega á sínum tíma en þeir léku stundum saman golf og old boys-fótbolta í góðgerðarskyni ásamt fleiri fyrrverandi knattspyrnumönnum á tíunda áratugnum, þegar báðir voru búnir að leggja skóna á hilluna. Raunar voru þeir samtíða í einn vetur í Búndeslígunni, 1981-82, Ásgeir með Bayern München en Beckenbauer með Hamburger Sport-Verein, sem raunar varð þýskur meistari um vorið, en mættust ekki á velli.

Ásgeir segir engum blöðum um það að fletta að Beckenbauer sé fremsti knattspyrnumaður Þjóðverja frá upphafi; enginn komist nálægt honum. „Hann var ótrúlegur fótboltamaður og karakter og frábær leiðtogi á velli. Einfaldlega Franz keisari. Þeir eru ekki margir sem hljóta slíkan titil og segja má að hann hafi verið hafinn yfir gagnrýni, hann naut svo mikillar virðingar. Það ataðist ekki nokkur maður í Keisaranum. Þjóðverjar hafa auðvitað átt marga góða fótboltamenn gegnum tíðina, Gerd Müller og fleiri, en enginn kemst með tærnar þar sem Franz hafði hælana og sannarlega enginn í seinni tíð.“

Beckenbauer lék lengst af með Bayern München og á árunum upp úr 1970 var Bayern með langbesta lið Þýskalands og síðar Evrópu. Beckenbauer varð ferfaldur landsmeistari á árunum 1969-74, auk þess sem Bayern vann Evrópubikarinn þrjú ár í röð, 1974-76. Þá vann hann þýska bikarinn í fjórgang með Bayern og Evrópukeppni bikarhafa einu sinni. Þá varð hann heimsmeistari með Þjóðverjum 1974 og Evrópumeistari 1972. Keisarinn var í fjórgang valinn Leikmaður ársins í Búndeslígunni og í tvígang hreppti hann Gullhnöttinn, sem besti leikmaður Evrópu, 1972 og 1976. Sigurganga hans var ótrúleg á þessum árum.

„Hann bjó til nýja stöðu á vellinum, svíperinn, og Franz gerði gjarnan usla þegar hann tók á rás með boltann upp miðjuna. Hann var mjög elegant leikmaður á velli. Hann hafði allt, var eldfljótur, teknískur og las leikinn betur en aðrir menn. Yfirburðamaður,“ segir Ásgeir.

Engir stjörnustælar

Hann ber persónu Keisarans ekki síður vel söguna. „Hann var algjörlega frábær maður. Mjög jarðbundinn og engir stjörnustælar í honum. Það var mjög gaman að spila golf með honum og þessum hópi fyrrverandi leikmanna, við fórum meðal annars til Spánar, til að safna peningum til góðgerðarmála. Franz bar af öllum hinum.“

Sjálfur naut Ásgeir mikillar virðingar í Þýskalandi og frægt var þegar Beckenbauer hafði orð á því að gott hefði verið að hafa hann í þýska landsliðinu sem á þeim tíma var eitt það besta í heimi; lék til úrslita á HM þrjú mót í röð, 1982, 1986 og 1990, þegar það vann undir stjórn Beckenbauers. Eins og ítrekað hefur komið fram í vikunni er hann einn þriggja manna til að vinna HM bæði sem leikmaður og þjálfari, hinir eru Brasilíumaðurinn Mario Zagallo, sem lést tveimur dögum á undan Keisaranum, og Frakkinn Didier Deschamps.

Ásgeir segir Beckenbauer aldrei hafa rætt það við sig persónulega að leika fyrir þýska landsliðið en hann las um það í blöðunum. „Ég var talsvert spurður um þetta í kjölfarið en svaraði alltaf stutt og laggott – að ég væri og yrði áfram Íslendingur.“

– En hefði ekki verið gaman að leika með þessum köppum í þýska landsliðinu?

„Jú, eflaust, og auðvitað hefði þá verið meiri möguleiki að vinna titla,“ svarar Ásgeir sposkur. „En ég velti þessu aldrei fyrir mér af neinni alvöru.“

Hann minnist áranna í Þýskalandi, 1981-1990, með mikilli hlýju. „Þetta var góður tími og góðar minningar. Ég hef haldið góðu sambandi við gömlu félagana, aðallega í Stuttgart enda var ég mun lengur þar en hjá Bayern, og við hittumst stundum á leikjum. Það er alltaf jafngaman. Sama máli gegnir um Standard í Belgíu; ég er í góðu sambandi við mína gömlu félaga þar.“

Ásgeir á ekki von á því að við komum til með að sjá annan Franz Beckenbauer, alla vega ekki í bráð. „Það verður erfitt að umbylta leiknum eins og Franz gerði á sínum tíma, auk þess sem hann bjó yfir óvenjulega miklum gæðum í mjög langan tíma. Í dag eru auðvitað allt aðrir tímar, leikurinn hefur breyst og allt í kringum hann. Nú er allt mælt og maður er steinhættur að botna í þessu. Þegar menn byrja að tala í xG-um þá brosi ég bara.“

Gerði hann frjálsan

Ýmsir aðrir hafa minnst Beckenbauers, þeirra á meðal Julian Nagelsmann, núverandi þjálfari þýska landsliðsins. Hann tók í yfirlýsingu undir þau orð að Beckenbauer væri besti leikmaður Þýskalandssögunnar. „Túlkun hans á hlutverki svípersins, eða fríherjans, breytti leiknum, það hlutverk og vinátta hans við knöttinn gerði hann að frjálsum manni. Franz Beckenbauer gat svifið yfir sverðinum, sem leikmaður og síðar var hann einstakur þjálfari, yfir allt hafinn.“

Nagelsmann kom líka inn á karakterinn. „Þegar Franz Beckenbauer gekk í salinn lýstist allt upp og hann bar réttilega titilinn Ljós þýskrar knattspyrnu. Allt til dauðadags var hann umluktur áru sem ekkert truflaði, ekki einu sinni heilsubrestur sem hann þurfti að glíma við. Ég er þakklátur og stoltur fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast honum og mun minnast hans um ókomna tíð.“

Enski sparkskýrandinn Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, kom með skemmtilegt innlegg á samfélagsmiðlinum X. „Þegar ég var strákur var hann fyrsti erlendi leikmaðurinn sem ég heyrði um vegna þess að reyndi einhver að leika knettinum út úr vörninni, hvort sem það var atvinnumaður eða viðvaningur, þá heyrði maður: „Hann heldur að hann sé Beckenbauer.“ Það segir okkur þvílík áhrif hann hafði á leikinn á heimsvísu og breytti honum. Goðsögn.“

Uli Hoeneß, heiðursforseti Bayern og félagi Beckenbauers úr HM-sigurliðinu 1974, tók í sama streng. „Franz Beckenbauer er stærsta nafnið í sögu FC Bayern,“ sagði hann í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér. „Sem leikmaður, þjálfari, forseti, manneskja: Ógleymanlegur. Enginn mun nokkru sinni nálgast hann. Menn geta sagst hafa séð knattspyrnu í tíð Franz Beckenbauers. Við vorum vinir, einstakur samferðamaður – og gjöf handa okkur öllum. Kæri Franz, hvíl í friði!“

Bráðger á velli

Beckenbauer fæddist 11. september 1945 í Giesing, úthverfi Münchenar, steinsnar frá vellinum, þar sem hann síðar lék listir sínar. Hann var bráðger á velli og átta ára þótt hann strax bera af jafnöldrum sínum, í borg þar sem knattspyrna er lífið, að því er fram kemur í minningargrein í breska blaðinu The Guardian. Beckenbauer tók ungur ástfóstri við ítalska landsliðsmanninn Giacinto Facchetti hjá Inter, en hann fylgdist opinmynntur með vinstri-bakverðinum strauja fram völlinn í sjónvarpinu. „Hvers vegna má varnarmaður ekki taka á rás fram miðjuna eins og upp vænginn?” spurði hann sig. Þannig varð svíperinn, eða fríherjinn, til. Það varð upptakturinn að alsparkinu (e. total fottball) sem Bæjarar og höfuðandstæðingar þeirra í Evrópuboltanum, Ajax frá Hollandi, praktíseruðu við upphaf sjöunnar. Bayern var til að byrja með í skugga Ajax en tók svo öll völd í Evrópuboltanum, eins og fyrr var getið. Þessi tvö lið unnu sex mót í röð, fyrst Ajax þrjú og svo Bayern þrjú, en mættust, merkilegt nokk, aldrei innbyrðis í úrslitaleik um Evrópubikarinn.

Erkispyrnir Ajax og hollenska landsliðsins, Johan Cruyff, barðist við Keisarann um nafnbótina Besti leikmaður Evrópu á þessum árum. Þeir mættust með landsliðum sínum í frægum úrslitaleik HM í München sumarið 1974. Þar hafði Keisarinn betur, 2:1. Cruyff náði aldrei að verða heimsmeistari en gat huggað sig við Gullhnöttinn það árið.

Bestu árin í Bandaríkjunum

Þetta var merkilegt nokk, fyrsta HM-ið sem Beckenbauer fékk að leika sinn fríherjaleik með landsliðinu en Helmut Schön þjálfari var varfærnari á bæði HM í Englandi 1966 og HM í Mexíkó 1970. Ekki stóð á skilum – styttan kom heim. Glæný stytta raunar, Brasilía vann þá upprunalegu til eignar 1970. Mjög kært var með Beckenbauer og Schön, sem varð einskonar fótboltalegt föðurígildi fyrir Keisarann.

Þetta varð svanasöngur Beckenbauers á HM en hann lagði landsliðsskóna á hilluna 1977, þegar hann flutti búferlum til Bandaríkjanna og fór að leika með Pelé og New York Cosmos. Þar vann hann bandarísku deildina í þrígang á fjórum árum – og skemmti sér eins og keisari. „Ég hef gert allt – orðið meistari með Bayern og unnið HM með landsliðinu – en hjá New York Cosmos átti ég mínar bestu stundir,“ er haft eftir honum í The Guardian. „Í München voru bara Þjóðverjar; hjá Cosmos voru leikmenn af 14 þjóðernum og Pelé.“