Íris Róbertsdóttir
Íris Róbertsdóttir
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar hafa samþykkt að sitja íbúafund í Vestmannaeyjum þar sem samgöngumálin verða á dagskrá. „Mér var falið að óska eftir því að innviðaráðherra,…

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar hafa samþykkt að sitja íbúafund í Vestmannaeyjum þar sem samgöngumálin verða á dagskrá.

„Mér var falið að óska eftir því að innviðaráðherra, vegamálastjóri og aðrir fulltrúar Vegagerðarinnar myndu koma á íbúafund í Eyjum. Það hefur nú verið ákveðið og fundurinn verður 30. janúar í Höllinni,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í samtali við Morgunblaðið en mikill munur er á því hvort siglt er til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar.

„Staðan í vetur hefur verið óásættanleg. Við viljum fá að heyra hverjar áætlanirnar eru um að halda uppi samgöngum yfir vetrartímann því þær hafa verið mjög erfiðar. Þessar skertu samgöngur hafa mikil áhrif á allt samfélagið, bæði íbúa og atvinnurekstur, að fara úr sjö ferðum í tvær, og mun lengri sjóleið er eitthvað sem við getum illa sætt okkur við. Eðlilega er komin þreyta í okkur öll hér í Eyjum að þetta skuli ekki ganga betur en nú er og það þarf einfaldlega að bæta þessa höfn ef hún á að vera okkar heils árs samgöngumáti, sem hún er því miður ekki í dag. Við erum að kalla eftir svörum við því.“ kris@mbl.is