Framboð Enn liggur ekki fyrir hverjir verða í kjöri til forseta. Allnokkur tími er þar til sú mynd skýrist. Það gerist 36 dögum fyrir kjördag.
Framboð Enn liggur ekki fyrir hverjir verða í kjöri til forseta. Allnokkur tími er þar til sú mynd skýrist. Það gerist 36 dögum fyrir kjördag.
Ljóst er að skiptar skoðanir eru á því meðal landsmanna hver taka eigi við embætti forseta þann 1. ágúst næstkomandi þegar öðru kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar lýkur. Fyrr í vikunni kallaði mbl.is eftir tilnefningum frá almenningi um það hver taka ætti við embættinu

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ljóst er að skiptar skoðanir eru á því meðal landsmanna hver taka eigi við embætti forseta þann 1. ágúst næstkomandi þegar öðru kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar lýkur. Fyrr í vikunni kallaði mbl.is eftir tilnefningum frá almenningi um það hver taka ætti við embættinu. Ríflega 2.500 tillögur bárust og tæplega 260 nöfn komu upp úr hattinum seinnipartinn í gær þegar farið var yfir þær tilnefningar sem þá höfðu borist.

Fjögur nöfn komu langoftast upp og skeikaði litlu á milli þeirra fjögurra einstaklinga sem þar eiga í hlut. Þetta eru þau Arnar Þór Jónsson, sem raunar hefur nú þegar lýst yfir framboði, og Halla Tómasdóttir, sem var næstefst í kosningunum 2016 þegar núverandi forseti hlaut kjör fyrra sinni. Halla hefur lýst því yfir að hún liggi undir feldi um það hvort hún taki slaginn á nýjan leik. Þá var Katrín Jakobsdóttir einnig nefnd en hún hefur ekki viljað útiloka framboð þótt hún hafi nefnt í fjölmiðlum að hún hafi ekki íhugað það heldur. Fjórði einstaklingurinn sem oftast var nefndur er svo Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur en nafn hans hefur oft borið á góma þegar mögulegt forsetaframboð hefur verið nefnt. Gerðist það bæði fyrir forsetakosningarnar 1996 og árið 2016.

Þótt þau fjögur hafi oftast verið nefnd voru fjölmargir aðrir tilnefndir. Þannig hlaut Baldur Þórhallsson prófessor allmargar tilnefningar og hið sama má segja um Ölmu Möller landlækni. Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis var einnig í hópi þeirra sem hlutu tilnefningar og sömu sögu er að segja um Bergþór Pálsson óperusöngvara.