Margrét hefur verið dáð og elskuð drottning en dregur sig nú í hlé og mun væntanlega sinna listsköpun eins og áður.
Margrét hefur verið dáð og elskuð drottning en dregur sig nú í hlé og mun væntanlega sinna listsköpun eins og áður. — AFP/Mads Clais Rasmussen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég vona að fólk muni minnast mín sem manneskju sem gerði sitt besta – og var ekki tímaskekkja.

Margrét Þórhildur II. Danadrottning stígur nú til hliðar eftir rúmlega hálfrar aldar valdatíma. Eldri sonur hennar Friðrik tekur við völdum og verður Friðrik X.

Hin ástsæla Margrét sagði eitt sinn að hún gæti ekki séð fyrir sér að afsala sér völdum nema erfið veikindi myndu hrjá hana. Hún orðaði þá hugsun sína skemmtilega þegar hún sagði: „Ég mun sitja í hásætinu þar til ég dett úr því.“

Í áramótaávarpi sínu, þegar hún tilkynnti um þá ákvörðun sína að víkja, sagði hún að tíminn hefði tekið sinn toll, veikindi væru farin að hrjá hana í auknum mæli, en hún hafði fyrr á árinu gengist undir erfiða bakaðgerð, og að hún gæti ekki tekið að sér jafn margar konunglegar skyldur og áður.

Einhverjar vangaveltur eru um að meint framhjáhald Friðriks sonar hennar sem komst í heimsfréttirnar hafi átt sinn þátt í ákvörðun drottningar. Hún hafi með valdaskiptum viljað gera sitt til að styrkja hjónaband Friðriks og eiginkonu hans, hinnar áströlsku Mary, sem nýtur mikilla vinsælda hjá dönsku þjóðinni.

Reykti alls staðar

Margrét er elsta barn Friðriks konungs IX. og Ingiríðar drottningar. Hún á tvær systur, Benediktu og Önnu Maríu. Hún var krýnd drottning 32 ára gömul, árið 1972, og hefur alla tíð notið hylli þjóðar sinnar. Hún giftist árið 1967 frönskum diplómat, Hinriki, sem fékk titilinn prins. Þau eignuðust tvo syni, Friðrik og Jóakim.

Sem drottning vakti Margrét mikla athygli og forvitni erlendis. Hún er þekkt fyrir að klæðast litríkum fötum, sem hún hannar stundum sjálf. Hún segir að sig dreymi í lit.

Reykingar hennar hafa oft komist í heimsfréttirnar en lengst af var hún ekkert að fela þær. Hún er stundum kölluð öskubakkadrottningin, vegna keðjureykinga sinna. Sjálf sagði hún eitt sinn: „Ég reyki alls staðar þar sem er öskubakki.“ Í opinberri heimsókn til Íslands árið 1998 fékk hún leyfi til að reykja á annars reyklausum Bessastöðum, sem varð til þess að kvörtun barst til Velvakanda Morgunblaðsins frá almennum borgara sem sagði að höfðingjar ættu að fara eftir reglum sem giltu á staðnum. Eftir bakaðgerð fyrr á þessu ári lét Margrét alfarið af reykingum.

Listræn og trúuð

Margrét talar fimm tungumál og hefur sérstakan áhuga á sögu og fornleifafræði. Hún er listræn og það er enginn vafi á því að ef hún hefði ekki orðið drottning þá hefði hún orðið atvinnulistamaður. Hún hefur alla tíð sinnt listsköpun og á valdatíma sínum hafði hún fyrir sið að taka frá einn dag í viku til að þjóna listagyðjunni. Hún málar málverk, olíu-, vatnslita- og akrílmyndir, sem hafa verið sýnd í söfnum. Árið 2015 sýndu hún og Sonja Noregsdrottning, náin vinkona hennar, verk sín á sýningu í Noregi. „Ég vona að ég geti málað meðan ég lifi,“ sagði hin listræna drottning eitt sinn og bætti við: „Ég eyði ekki miklum tíma í að mála en ég geri það hundrað prósent meðan ég er að og þá er ekkert annað sem skiptir máli.“

Hún er mjög trúuð og hefur hannað kirkjuklæði, hökla og kórkápur. Hluti þeirra var á sýningu í Þjóðminjasafninu á Listahátíð í Reykjavík árið 1998 en drottningin opnaði sýninguna.

Bragi Ásgeirsson myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins skrifaði um sýninguna, en hafði áður séð nokkur verk eftir drottninguna. Bragi skrifaði: „Í ljósi þessara kynna minna af listsköpun hátignarinnar þykir mér borðleggjandi að hún hefur náð lengst í gerð kirkjuklæða. Einfaldleiki þeirra er sláandi auk þess sem þau eru svo vel útfærð handverkslega að vart verður betur gert. Þá hlið hafa að vísu annast lærðir fagmenn með drottningunni, en þannig verða iðulega fegurstu kirkjuklæðin til, samvinna listamanns og þjálfaðra fagmanna.“

Drottningin hefur lengi gert sviðsmyndir fyrir ballettsýningar og hannað búninga. Nýleg Netflix-kvikmynd, Ehrengard: The Art of Seduction, gerð eftir sögu Karen Blixen í leikstjórn Bille August, skartar búningum eftir hana og hún gerði einnig sviðsmyndina. Hún hefur skrifað kvikmyndahandrit eftir sögum H. C. Andersen

Hún hefur myndskreytt bækur. Á áttunda áratug síðustu aldar sendi hún hinum fræga rithöfundi Tolkien aðdáendabréf þar sem hún lagði fram hugmyndir um myndskreytingu á danskri útgáfu á Hringadróttinssögu. Hún undirritaði bréf sín Ingahild Grathmer, en hætti því svo og sagði Tolkien sitt rétta nafn. Hringadróttinssaga kom út í Danmörku með teikningum drottningar, sem Tolkien sagði minna mjög á sinn eigin stíl.

Eiginmaður hennar, Hinrik prins, var sömuleiðis listrænn. Hann sendi frá sér nokkrar ljóðabækur, þar af eina árið 2000 sem drottningin myndskreytti. Tæpum tveimur áratugum áður höfðu þau í sameiningu þýtt á dönsku skáldsögu Simone de Beauvoir, Allir menn eru dauðlegir. Prinsinn gerði skúlptúra og þótti góður píanóleikari. Hann framleiddi eigið vín og var annálaður matgæðingur og kom oft fram í dönskum matreiðsluþáttum þar sem hann sýndi hvernig hann eldaði fyrir fjölskyldu sína.

Margrét leit aldrei á drottningarhlutverkið sem þvingandi. „Ég get auðvitað hugsað það sem mér sýnist eins og allir aðrir. Ég þarf aðeins að stilla mig um að segja allt sem ég hugsa,“ sagði hún. „Danmörk skiptir mig meira máli en nokkuð annað. Ég held að ég hafi aldrei látið hvarfla að mér að taka hjónaband mitt fram yfir krúnuna.“ Eiginmaður hennar var ekki jafn tryggur krúnunni og sýndist ekki sérlega glaður við opinberar athafnir. Hann lét oft í ljós óánægju með að fá ekki konungstitil og óánægja hans óx jafnt og þétt með árunum. Hinrik prins var eitt sinn útnefndur fúllyndasti konunglegi einstaklingur heims.

Ekki sáttur við að vera númer tvö

Hjónabandið virtist traust en skyndilega varð einkennileg breyting. Árið 2002 virtist sem alvarlegir brestir væru komnir í hjónaband drottningar. Hinrik prins flutti úr höllinni og kom sér fyrir á vínekru sinni í Frakklandi. Hann sagði fjölmiðlum að hann væri í alvarlegri tilvistarkreppu, honum fyndist hann ekki njóta nægilegrar virðingar innan konungsfjölskyldunnar. Ástæðan var sú að í móttöku á nýársdag var Friðrik prins gestgjafi í fjarveru drottningar en ekki Hinrik. „Í mörg ár hef ég verið númer tvö í Danmörku og hef verið sáttur við það hlutverk en ég vil ekki láta setja mig í þriðja sæti eftir svo mörg ár,“ sagði hann. Fjölmiðlar stukku á þessar fréttir og þær voru básúnaðar á forsíðum slúðurblaða. Skilnaði var spáð.

Árið 2017 sagðist Hinrik ekki vilja vera grafinn við hlið konu sinnar. Nokkrum mánuðum síðar var hann greindur með elliglöp. Hann lést árið 2018.

Árið 2022 varð uppnám í konungsfjölskyldunni þegar drottningin tilkynnti að fjögur börn yngri sonar hennar, Jóakims, yrðu svipt prinsa- og prinsessutitlum. Jóakim harmaði opinberlega þessa ákvörðun móður sinnar.

Nýi konungurinn, Friðrik X., er fyrsti meðlimur konungsfjölskyldunnar til að ljúka háskólanámi, er með próf í stjórnmálafræði. Hann er vaskur íþróttamaður sem hleypur reglulega í alþjóðlegum maraþonkeppnum og stundar siglingar af kappi. Árið 2012 hljóp hann með ólympíueldinn dágóðan spotta milli hverfa í London.

Friðriki var á yngri árum lýst sem glaumgosa. Hann er kvæntur hinni áströlsku Mary Donaldson og þau eiga fjögur börn. Bæði njóta mikilla vinsælda hjá dönsku þjóðinni. Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að Mary sé orðin aðeins vinsælli en hann. Skýringuna er að finna í meintu framhjáhaldi hans. Ýmislegt bendir þó til að hjónin séu búin að gera það mál upp sín á milli. Þau hafa sést leiðast og virðast hin ánægðustu saman.

Margrét Þórhildur sagði eitt sinn: „Ég vona að fólk muni minnast mín sem manneskju sem gerði sitt besta – og var ekki tímaskekkja.“ Hún sagði líka: „Ég er ekki framakona og hefði aldrei orðið það hefði ég lifað venjulegu lífi vegna þess að ég er ekki nógu metnaðargjörn.“