Nina L. Khrushcheva
Nina L. Khrushcheva
Á meðan Rússar fylkja sér um Pútín virðast vestrænir stuðningsmenn Úkraínu vera að missa einbeitinguna.

Nina L. Khrushcheva

Þrátt fyrir mikinn stuðning Vesturlanda við Úkraínu er möguleikinn á hreinum ósigri Rússa óraunhæfur.

Graham Allison hjá Harvard sagði nýlega að þótt Kína „sé og verði harðasti keppinautur sem nokkur valdhafi hefur staðið frammi fyrir“, þá sé myndin af ósvífnum púkum sem haldið er á lofti um þjóðina meira villandi en upplýsandi. Til að „móta og viðhalda stefnu til að mæta áskoruninni frá Kína“ fullyrðir Allison að Bandaríkjamenn „verði að skilja Kínverja eins og þeir eru. Hvorki þrír metrar á hæð né á barmi hruns“.

Aldrei hafa Rússar verið virtir viðlits á slíkan hátt eftir fall Sovétríkjanna.

Þvert á móti hafa Bandaríkjamenn eytt áratugum í að skopast að Rússum sem ómissandi illmenninu í sögunni og viðkvæmum „veistu hver ég var“. Eftir innlimun Rússa á Krím árið 2014 vísaði þáverandi forseti, Barack Obama, málinu á bug sem „veikburða svæðisveldi að sýna vanmátt sinn“. Eftir innrásina í Úkraínu á síðasta ári virðast flestir hafa talið víst að Rússland og stjórn Vladimírs Pútíns myndu hrynja hratt undan þunga vestrænna viðskiptaþvingana.

Ákvörðun Pútíns um að ráðast inn í Úkraínu var knúin áfram af ranghugmyndum. Það þýðir samt ekki að mat Vesturlandabúa á ástandinu hafi verið neitt raunsærra. Þvert á móti virtust flestir vestrænir aðilar sem rýndu í stöðuna aðeins geta ímyndað sér tvær atburðarásir. Annaðhvort tæki Pútín Kíev á nokkrum dögum og breytti Úkraínu í strengjabrúðu Kremlar eða Rússar myndu fljótt bugast, sem myndi þvinga Pútín til að draga herlið sitt til baka og viðurkenna öll landsvæði Úkraínu.

Þegar upphafssókn Rússa strandaði þá útskýrir þetta að hluta til hvers vegna Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, mælti í heimsókn til Kíev að Úkraína ætti „bara að berjast“ frekar en að gera friðarsamning. Betra að láta Rússa tapa, veikja efnahag landsins, eyða upp birgðum hersins og skaða stöðu Pútíns, hugsanlega til frambúðar, en að verðlauna þá fyrir innrásina.

Og Rússar myndu tapa, sögðu fyrirsagnirnar. Á meðan Úkraína hafði fullan stuðning Vesturlanda með vopnaaðstoð og straumi hjálpargagna áttu Rússar ekki nægan búnað og það sem þeir höfðu var jafn úrelt og aðferðir þeirra. Utan vígvallarins var áður óþekktum refsiaðgerðum Vesturlanda ætlað að koma af stað harðri andstöðu gegn Pútín. Rússar sjálfir gætu jafnvel ráðist inn í Kreml til að fá aftur aðgang að evrópskum handtöskum og amerískum skyndibita. Enginn virtist gera sér grein fyrir að djöflaímyndin sem dregin var upp og útskúfun á nær öllu rússnesku gæti þjappað Rússum saman gegn Vesturlöndum. Eða að Rússar væru vel færir um að halda út í löngu stríði.

Samt er þetta nákvæmlega það sem hefur gerst. Rússar héldu áfram að nýta sér yfirburði stærðar sinnar á meðan þeir uppfærðu aðferðir sínar á vígvellinum og juku framleiðslu hergagna. Heima fyrir drógu þeir úr afleiðingum refsiaðgerðanna, ekki aðeins með því að dansa í kringum þær heldur einnig með því að tryggja að aðilar heima fyrir, þar á meðal rússneska ríkið, öðluðust eignarhald á rússneskum rekstri yfirgefinna vestrænna fyrirtækja á brunaútsölu. Á meðan byggðu þeir upp stríðshagkerfi sitt.

Venjulegir Rússar hafa það ekki alslæmt. Hillur verslana eru fullar og veitingastaðir iðandi af lífi. Lífeyrir og laun hafa hækkað, þó ekki í takt við verðbólgu, en nóg til að styðja þá frásögn sem studd er af Kreml um að Rússland standi á styrkum stoðum þrátt fyrir ýtrustu viðleitni Vesturlanda til að leggja það í rúst. Langt frá því að skilja hversu hættuleg þessi frásögn er halda vestrænir leiðtogar áfram að styrkja hana. Andrzej Duda forseti Póllands sagði til dæmis í júní við upphaf misheppnaðrar gagnsóknar Úkraínu að „Rússar þyrftu að finna fyrir beiska bragðinu af ósigri“.

Stríðið er enn ekki vinsælt í Rússlandi. 56 af hundraði Rússa sem Levada-miðstöðin spurði í október lýstu yfir stuðningi við að leita leiða í átt að friðarviðræðum. Á sama tíma vildu aðeins 34% aðspurðra styðja brottflutning rússneskra hermanna frá Úkraínu og skila aftur rússneskum yfirráðasvæðum í Úkraínu. Á sama tíma er stuðningur við Pútín enn yfir 80 prósent. Köllum það Stalíngrad-áhrifin.

Á meðan Rússar fylkja sér um Pútín virðast vestrænir stuðningsmenn Úkraínu vera að missa einbeitinguna. Fyrr í þessum mánuði mistókst leiðtogum Evrópusambandsins að knýja fram 50 milljarða evra fjárhagsaðstoð fyrir Úkraínu þótt þeir hafi samþykkt að hefja aðildarviðræður við ESB. Þessi brestur kom fram þegar Bandaríkjaþing gafst upp á að samþykkja nýjan hernaðaraðstoðarpakka fyrir Úkraínu á þessu ári.

Nú lofar Joe Biden forseti því ekki lengur að Bandaríkin muni standa með Úkraínu „eins lengi og þarf“ eins og hann var áður vanur að halda fram heldur „eins lengi og við getum“. Hann heldur því þó enn fram að Rússa skorti „auðlindir og getu“ til að halda úti löngu stríði í Úkraínu og reyndar munu refsiaðgerðir að lokum taka sinn toll af efnahag Rússlands. En Pútín mun kasta öllu sem hann á í þetta stríð og mun líklega halda töluverðum stuðningi meðal almennings á meðan það varir.

Samdráttur í erlendri aðstoð er nú þegar farinn að veikja stöðu Úkraínu á vígvellinum eftir ár þar sem úkraínskar hersveitir hafa náð litlum áþreifanlegum árangri. Á sama tíma virðist gjá vera að breikka á milli Selenskís og yfirhershöfðingja úkraínska hersins, Valerys Zaluzhnys.

Það eru þrjár sennilegar útkomur þessara aðstæðna. Í fyrsta lagi skuldbinda Vesturlönd sig aftur til að styðja Úkraínu. En pólitískar hindranir eru miklar. Andstaða repúblikana í Bandaríkjunum og ungverskt og nú síðast slóvakískt neitunarvald í ESB. Jafnvel þótt þeim verði rutt úr vegi mun Úkraína eiga í erfiðleikum með að manna herafla sinn með nýjum hermönnum.

Í annarri atburðarás legði NATO til herafla í Úkraínu. Þótt Pútín hafi aldrei haft í hyggju að ráðast inn í aðildarríki NATO gæti umræðan um að rússneskur sigur í Úkraínu myndi leiða til annarra rússneska innrása orðið til að réttlæta aðkomu vestræns herafla. Hættan er sú að Stalingrad-áhrifin myndu magnast, Rússar myndu rísa upp til að verja móðurlandið og óstöðugleiki myndi yfirtaka Evrópu.

Í þriðju atburðarásinni fyndu Vesturlönd leiðir til að eiga samskipti við Kreml. Rússland er langt frá því að vera óbrjótanlegt en það er ekki á barmi hruns og Pútín á sér líklega nokkur ár fram undan sem forseti. Jafnvel þótt honum yrði vikið frá völdum myndi djúpstætt vantraust Rússa til Vesturlandabúa ekkert minnka. Í ljósi þessa og hins harða veruleika að ólíklega muni Úkraína endurheimta allt landsvæði sitt ættu Vesturlönd að einbeita sér að því að efla varnir Úkraínu og búa sig undir að grípa hvert tækifæri sem gefst til að taka þátt í raunhæfum viðræðum við Kreml.

Höfundur er prófessor í alþjóðamálum við The New School.