Hamfarirnar og óvissan hafa reynt mikið á Grindvíkinga síðustu mánuði.
Hamfarirnar og óvissan hafa reynt mikið á Grindvíkinga síðustu mánuði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Maður fer ekkert heim í hádeginu og leggur sig eins og maður stelst til að gera hér.“

Það er gaman að taka á móti gestum, það er orðið dálítið langt síðan síðast,“ segir Halla María Svansdóttir, eigandi veitingastaðarins Hjá Höllu í Grindavík, í léttum tón þegar hún tekur á móti starfsmönnum Morgunblaðsins. Veitingastaðurinn hefur nú verið opnaður á ný eftir um tveggja mánaða lokun og það er almennt að færast líf í bæinn aftur. Við setjumst niður með Höllu og Pétri Hafsteini Pálssyni, framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, þar sem við höldum hringferð Morgunblaðsins áfram í framhaldi af 110 ára afmæli blaðsins.

Það má, og er sjálfsagt, að upplýsa að blaðamenn Morgunblaðsins voru hikandi við að sækja Grindavík heim á þessum tímapunkti í samhengi við þá hringferð sem hér er fjallað um. Það hefur ekkert með samfélagið þar syðra að gera, heldur þær aðstæður sem nú eru uppi. Við veltum því fyrir okkur hvort og hvernig hægt væri að fá íbúa til að fjalla um samfélagið og lífið í bænum sem þeir hafa ekki sjálfir mátt sækja heim í um tvo mánuði. Að sama skapi geta aðstæður breyst á einum degi og það sem sagt er í dag á ekki endilega við á morgun. Svörin liggja þó í þessum vangaveltum og þeim spurningum sem hér er velt upp. Við vitum að aðstæður hér á landi eru fjölbreyttar og við sem hér búum erum vön því að takast á við nýjar áskoranir, hversu erfiðar sem þær svo geta verið. Það er alltaf vel þess virði að segja frá. Svona eru aðstæðurnar í dag og því eðlilegt að varpa ljósi á þær.

Hörðustu naglar gráta

Það var einmitt á þessum nótum sem við hófum viðtal við þau Höllu og Pétur. Er hægt að koma því í orð þegar samfélagið sem maður býr í er tekið frá manni?

„Þetta er auðvitað mjög skrýtið og það hefur verið erfitt að aðlagast nýjum veruleika,“ segir Halla og lýsir í kjölfarið þeirri miklu nálægð sem felst í samfélaginu. Allar vegalengdir eru stuttar, innan við fimm mínútur á milli staða, og það sama á við um vini, fjölskyldur, aðgang að verslunum og þjónustu o.s.frv. Þessir sömu aðilar hafa nú verið á víð og dreif um landið.

„Ég held að það sé best að lýsa því þannig að jafnvel hörðustu naglar gráta þegar þeir hittast,“ segir Pétur í framhaldinu. „Að tala um atvinnulíf er hjómið eitt miðað við það hvað þetta er mikil áskorun fyrir sálarlíf fólks. Það er tekið af þér samfélag sem þú ert alinn upp við og þekkir upp á tíu, krakkarnir fara á milli, hjóla til ömmu og afa, spila fótbolta og körfubolta – svo ertu allt í einu rekald á stað sem þú hefur jafnvel ekki komið áður á,“ segir Pétur.

Hann segir ástandið reyna á öll sambönd, fjölskyldubönd, vinabönd og hjónabönd. Einna síst þó sambandið milli atvinnurekenda og starfsmanna því þar ríki mikill skilningur um að ástandið sé erfitt.

Hraðinn í Reykjavík berst í tal, en hann er töluvert öðruvísi en í bæjum á borð við Grindavík.

„Maður fer ekkert heim í hádeginu og leggur sig eins og maður stelst til að gera hér,“ segir Pétur í léttum tón.

Halla segir í framhaldinu að biðtíminn sé þó erfiðastur, að vita ekki nákvæmlega hvað verður og hvenær, hvort hægt verði að opna fyrirtæki á ný, sækja skóla og fleira. Pétur tekur undir og segir að fólk þurfi að læra að lifa við aðstæðurnar hverju sinni, auðvitað með tilliti til öryggis, en víða um landið sé vitað um hættur sem stafa af ýmsum þáttum, s.s. snjóflóðum, samgöngum eða öðru. Bæði vilja þau sjá ítarlegra hættumat innan Grindavíkur þar sem bærinn verði ekki allur skilgreindur sem hættusvæði eins og nú er.

Staðsetningin lykilatriði

Við víkjum þó talinu að því bæjarlífi sem var og verður vonandi aftur. Þar hefur öflugt atvinnulíf fengið að blómstra á liðnum áratugum og með bættum samgöngum síðustu hálfa öldina eða svo hefur vægi staðarins aukist verulega. Það má segja að Grindavík hafi fjölsóttasta ferðamannastað landsins, Bláa lónið, í bakgarðinum og vissulega hefur það umtalsverð áhrif á bæinn. „Við höfum stundum sagt að ef maður fær 1% af gestum Bláa lónsins til að koma til Grindavíkur, þá erum við í góðum málum,“ segir Halla.

„Staðsetningin er algjört lykilatriði,“ segir Pétur þegar hann er spurður hvað skýri þetta blómlega samfélag. Halla tekur undir og segir að hægt sé að sækja nær alla þá þjónustu sem þarf og stutt sé í aðra þjónustu sem upp á vantar. Auðvelt hefur reynst að byggja í bænum og almennt hefur ríkt nokkur velmegun í samfélaginu.

Fleiri störf en íbúar anna

Pétur segir að þegar hann flutti til Grindavíkur sem ungur drengur hafi verið þar mikið af Færeyingum, Húnvetningum og Grímseyingum. Það hafi alltaf verið þannig í Grindavík að fleiri störf sé að finna en Grindvíkingar geta mannað.

„Við höfum aldrei náð að manna atvinnutækin okkar. Við höfum alltaf þurft á mjög mörgum að halda. Áður fyrr var það vertíð. Nú eru það Pólverjar að stórum hluta, sem búa ekki beint á verbúðum, en í íbúðum og gistiheimilum. Það hefur alltaf verið mjög stór hópur aðkomufólks að vinna hérna. Það er svolítið sérstakt með þetta sveitarfélag að þetta hefur haldist alveg öll þessi ár,“ segir Pétur.

Spurningum enn ósvarað

Þau Halla og Pétur spara bæði stóru orðin þegar þau eru spurð um það hvort allir íbúar snúi til baka. Þau segja bæði að samfélagið sé eftirsótt, eins og lýst hefur verið hér, en þó sé enn mörgum spurningum ósvarað. Þar má til dæmis nefna hvort hjón geti bæði sótt vinnu og börn skóla á næstunni, hvaða ráðstafanir verði gerðar varðandi skemmd hús og þá eigi enn eftir að ákveða til hvaða ráða hægt sé að grípa þegar húsin eru heil en íbúarnir treysta sér ekki til að búa í þeim.

Áttundi þáttur Hringferðar Morgunblaðsins er birtur á öllum helstu hlaðvarpsveitum í dag. Í þættinum er einnig fjallað um þær áskoranir sem Halla hefur staðið frammi fyrir með veitingastað sinn, þá sérstaklega á Keflavíkurflugvelli, rætt er um sjávarútveginn í Grindavík, hvernig íbúaþróunin hefur verið í bænum, hina fjölbreyttu þjónustu sem hefur verið þar og einnig er litið til framtíðar þó erfitt sé á þessum erfiðu tímum.

Halla berst í gegnum storminn

Halla María Svansdóttir hefur verið í veitingarekstri í rúman áratug. Áður en hún opnaði veitingastað sinn í Grindavík, Hjá Höllu, árið 2013 hafði hún rekið lítinn stað í gömlu hafnarvigtinni í Grindavík og það gefist vel.

„Svo enduðum við hér. Tókum þennan sparisjóðsbanka í gegn og breyttum honum í veitingastað,“ segir Halla. Síðan þá hafa umsvifin orðið meiri og veitingastaðurinn Hjá Höllu var opnaður á Keflavíkurflugvelli árið 2018. Halla segir vöxtinn hafa verið aðeins of hraðan og mikinn fyrir sig, en tekst þó á við hvert áfallið á fætur öðru af æðruleysi. Rétt eftir að staðurinn var opnaður í Keflavík féll flugfélagið Wow air. Síðan skall heimsfaraldur kórónuveiru á árið 2020. Halla segir þau ekki vera búin að vinna sig almennilega út úr honum. Núna í nóvember síðastliðnum þurfti svo að rýma Grindavík. Halla bítur á jaxlinn og heldur keik áfram.