Halla Þórlaug Óskarsdóttir er rithöfundur og verkefnastjóri bókmennta hjá Borgarbókasafninu.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir er rithöfundur og verkefnastjóri bókmennta hjá Borgarbókasafninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er um þessar mundir að lesa skáldsöguna Mamma eftir Vigdísi Hjorth. Bókin kom út á norsku árið 2000 en tveimur árum síðar á íslensku í þýðingu Solveigar Brynju Grétarsdóttur. Bókin greip mig strax á fyrstu blaðsíðu og mér líður eins og hver einasta síða sé uppfull af göldrum

Ég er um þessar mundir að lesa skáldsöguna Mamma eftir Vigdísi Hjorth. Bókin kom út á norsku árið 2000 en tveimur árum síðar á íslensku í þýðingu Solveigar Brynju Grétarsdóttur. Bókin greip mig strax á fyrstu blaðsíðu og mér líður eins og hver einasta síða sé uppfull af göldrum. Það er ekki langt síðan ég las aðra bók eftir sama höfund, Arf og umhverfi, í þýðingu Ísaks Harðarsonar og hreifst mjög af.

Ég lauk nýverið við DJ Bamba eftir Auði Övu og þótti mér mikið til hennar koma. Ég er ekki trans sjálf og meðvituð um mína forréttindablindu þegar ég skrifa þetta, en mér fannst sagan virkilega falleg og sársaukinn sem þar kemur fram kunnuglegur en ekki framandi. Það finnst mér benda til þess að Auður falli ekki í þá algengu gryfju að aðra trans konuna sem segir söguna.

Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur las ég og get mælt með af heilum hug, Bergþóra er ein af mínum allra uppáhalds, hún er svo djörf og greinandi rödd, bæði í skáldskap og samfélagsumræðu.

Friðgeir Einarsson slær að mínu mati nýjan tón í Serótónínendurupptökuhemlum, en hún fjallar af næmni og innsæi um þunglyndi, samskipti og samskiptaleysi.

Ég er mikið að reyna að þjálfa mig upp í að hlusta á bækur, sem mér finnst dálítið erfitt. Mig langar þó að mæla með tveimur bókum úr hljóðbókasafninu. Annars vegar bókinni Detransition, Baby eftir bandaríska rithöfundinn Torrey Peters. Bókin fjallar um Ames; karlmann sem hefur farið í aðgerð til að afturkalla kynstaðfestingu eftir að hafa lifað sem trans kona í áraraðir. Þá gerist það sem á að vera nær ómögulegt: Kona sem hann sefur hjá verður ólétt. Hann býður í kjölfarið fyrrverandi kærustu sinni, trans konu, að taka þátt í uppeldi barnsins. Bókin kom út árið 2021 og er mjög forvitnileg og vel skrifuð. Peters er bæði skörp og greinandi á samtímann og samfélag sitt.

Seinni bókin er Pageboy eftir Elliot Page. Þetta er sjálfsævisaga höfundarins, sem fór með aðalhlutverk í bíómyndinni Juno og kom út sem trans árið 2020. Ég er nýbyrjuð að hlusta en hún virkar gríðarlega sterk og höfundurinn bæði hugrakkur og djúpvitur.