Þið sjáið auðvitað að þetta herrabull nær engri átt og í þessu sambandi dugar ekki að vísa til hefðarinnar; að þetta hafi alltaf verið svona.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Fingraför feðraveldisins eru víða. Þau má til dæmis finna á orði sem við heyrum öll og sjáum á hverjum einasta degi – ráðherra. Það liggur í orðsins eðli að það var búið til af mönnum sem gerðu ekki ráð fyrir því að kona myndi nokkru sinni gegna því embætti. En það hafa þær heldur betur gert, sex talsins í dag. Og láta bara bjóða sér þetta! Að vera kallaðar herra. Ég meina, árið er 2024, og samfélagið talsvert frábrugðið því sem forfeður okkar og -mæður áttu að venjast 1904. Á sama tíma verður uppi fótur og fit ef kona er sögð vera maður, sem hún sannarlega er. Er ekki eitthvað bogið við þetta? Sama máli gegnir um orðið sendiherra. Það er löngu úrelt. Hvað verður Logi Bergmann þegar hann flytur til Washington? Sendiherraherra?

Snúum þessu til gamans við. Hvað með störf sem áður voru kvenlæg? Búið er að útrýma orðinu hjúkrunarkona, í öllu falli þurfa karlar sem sinna hjúkrun ekki að gegna þeim titli. Allir sem heyra til þeirri góðu stétt eru hjúkrunarfræðingar í dag. Orðið flugfreyja er ennþá til en karlar sem þjóna til borðs í háloftunum nota það ekki; þeir eru flugþjónar.

Þið sjáið auðvitað að þetta herrabull nær engri átt og í þessu sambandi dugar ekki að vísa til hefðarinnar; að þetta hafi alltaf verið svona. Hvernig getum við boðið konum upp á það árið 2024 að vera herrar?

Við blasir að finna kynhlutlaust orð í staðinn fyrir ráðherra eða þá sitt orðið hvort fyrir karla og konur og ég legg til að hent verði í nefnd strax í næstu viku undir forystu Braga Valdimars Skúlasonar til að leysa málið. Þess vegna ligg ég áfram á mínum hugmyndum ef ske kynni að ég yrði í nefndinni og fengi fyrir þær kaup!

Annars er tíska að rugla í ráðherratitlum. Við fengum nokkra nýja þegar annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók til starfa. Þeir eru misgóðir.

Innviðaráðherra er geggjaður titill – eins og raunar allt sem felur í sér orðið innviðir. Maður veðrast allur upp og spennir vöðvana þegar það ber á góma. Líður alltaf eins og eitthvað risastórt standi fyrir dyrum. Ég sakna hins vegar sviðsmyndaráðherra. Það djobb hlýtur að verða til næst. Matvælaráðherra er miklu verra. Þvílík gengisfelling á atvinnugreinunum sem haldið hafa lífinu í þessari þjóð gegnum aldirnar, sjávarútvegi og landbúnaði. Matvælaráðherra hljómar frekar eins og yfirmaður í sláturhúsi eða eftirlitsmaður með veitingastöðum. Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru allt of langir titlar sem enginn man og þarf að þjappa betur saman. Upplagt að kalla saman nefnd sem fyrst. Ég er laus í hádeginu á miðvikudögum.