Stjórnlaus valdníðsla breska Póstsins vekur hneyksli

Á Bretlandi er komið upp mál, sem vekur undrun og óhug. Um og upp úr aldamótum voru mörg hundruð starfsmenn breska Póstsins dregnir fyrir dóm og dæmdir fyrir fjárdrátt og máttu rúmlega 200 dúsa í fangelsi. Hið meinta misferli kom í ljós þegar innleitt var nýtt tölvukerfi hjá póstinum, en nú er komið í ljós að ekki var um að ræða fjárdrátt og þjófnað þessara starfsmanna, heldur olli villa í tölvukerfinu því að þessar fúlgur fjár virtust hafa horfið.

Það meinlega við þetta mál er að yfirstjórn Póstsins fór gegn starfsmönnunum, sem voru flestir stjórnendur útibúa um landið allt, af fullri hörku og offorsi. Gengið var svo langt að veita bónusa fyrir hvert skipti sem einhver var ákærður. Líf fólks var lagt í rúst, það var útskúfað í sinni heimabyggð og fjórir frömdu sjálfsmorð.

Nokkuð er síðan flett var ofan af hneykslinu en nýja, leikna sjónvarpsþætti um málið þurfti til að stjórnvöld tækju við sér. Stjórn landsins hyggst knýja fram lög til að fórnarlömbin fái uppreisn æru og skaðabætur. Sagði Rishi Sunak forsætisráðherra að málið væri ein mestu réttarmistök í sögu landsins.

Þetta mál sýnir hversu hættulegt það er þegar stofnanir verða eins og ríki í ríkinu og afleiðingarnar, sem það getur haft þegar hið opinbera fer offari.

Hér á landi eru sem betur fer ekki dæmi um aðra eins valdníðslu og nú tröllríður fréttum á Bretlandi, en hið opinbera gerist þó iðulega íþyngjandi og mætti kunna sér meira hóf; leitast við að auðvelda fólki lífið, en ekki flækja það.

Iðulega virðist Samkeppnisstofnun fara fram með óþarflega harkalegum hætti og setja fyrirtækjum mörk, sem engin leið er að sjá að séu neytendum til hagsbóta. Það er ekki alltaf hægt að yfirfæra aðstæður á stórum mörkuðum yfir á það sem gerist í fámenninu á Íslandi.

Þar má nefna tilhneigingu til að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins með meira íþyngjandi hætti en þar er kveðið á um. Þetta hefur verið kallað gullhúðun og eru áform um að ráðstafa tæpum hálfum milljarði króna af ríkisfé á fimm árum í að þróa og reka kerfi til að halda utan um rauntímaupplýsingar um birgðir allra lyfja dæmi um það. Að sögn Félags atvinnurekenda er hvergi lögð skylda á aðildarríkin að setja upp slíkan gagnagrunn.

Það má aldrei gleyma því að almenningur var ekki settur á laggirnar til að þjóna hinu opinbera, heldur á hið opinbera að þjóna almenningi.