Róbert Örn Sigurðsson fæddist 23. september 1967. Hann lést 24. desember 2023. Útför hans fór fram 11. janúar 2024.

Þegar ég hugsa um pabba kemur mér alltaf til hugar hversu glaður hann var. Ég sé fyrir mér einlæga pabbastoltsbrosið sem birtist nánast sama hvað við systkinin gerðum. Hann gerði það alltaf augljóst hvað hann var stoltur að vera pabbi okkar og ég var alltaf svo stolt í hvert skipti sem einhver líkti mér við pabba minn. Ég man eftir hvað ég var ótrúlega spennt fyrir pabbahelgunum þar sem við gerðum lítið annað en að horfa saman á einhverja töff bíómynd sem hann vildi sýna mér og svo myndum við labba saman morguninn eftir í bakaríið og kaupa karamellusnúð til að deila. Það var bara svo yndislegt að vera í kringum hann pabba minn og ég bölva því að hafa ekki erft eiginleika hans að geta talað við hvern sem er um hvað sem er. Þegar ég var minni þá var ég alltaf spennt fyrir aðfangadegi, bæði vegna jólanna og vegna þess að þá var ég viss um að hitta hann pabba til að skiptast á gjöfum og fá hresst pabbaknús. Jólatíminn var, í mínum huga, okkar. Við systkinin og pabbi sáum alltaf til þess að við hefðum okkar eigin jól þar sem við hittumst hjá pabba og nutum þess að vera öll saman. Fyrir mér var það eitt af því besta sem fylgdi jólunum. Ekkert stress, ekkert vesen, bara dýrindiskvöldmatur hjá pabba og yndisleg samverustund með litlu föðurættinni minni sem var bara mín.

Seinasta minning mín af honum er að sjá hann sitjandi einan út í horni í brúðkaupsveislunni hennar Kötu systur. Hann var alltaf maðurinn sem talaði við alla og náði svo ótrúlega vel til allra sem hann komst í nánd við, en núna vildi hann bara sitja, fylgjast með veislunni og njóta þess að sjá hvað við værum öll glöð, pabbastoltsbrosið að sjálfsögðu upp á sitt breiðasta.

Hvíldu í friði, elsku pabbi. Ég vona að Halli taki vel á móti þér og veit að þú vissir hvað þú ert endalaust elskaður af okkur í kringum þig.

Þín dóttir,

Guðrún Rósa.

Elsku pabbi, sem betur fer fékkstu að heyra þetta, en það sakar ekki að senda út í kosmósið líka.

Takk. Takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig. Takk fyrir að skilja mig þegar mér fannst enginn gera það. Takk fyrir allan hláturinn. Takk fyrir að vera alltaf með dyrnar opnar. Takk fyrir að taka mig í æfingaakstur. Takk fyrir stoltið, virðinguna og traustið sem þú sýndir mér. Takk fyrir systkini mín. Takk fyrir að fylgja mér upp að altarinu. Takk fyrir allar samverustundirnar, spjallið og þægilegu þagnirnar. Takk fyrir að vera besti pabbi í heimi.

Þín dóttir,

Katrín (Kata).

Í dag kveðjum við elskulegan systurson minn, Róbert Örn, sem lést á aðfangadag jóla eftir erfið veikindi.

Við erum harmi slegin, svo sorgmædd yfir ótímabæru fráfalli þessa öðlingsdrengs sem vildi öllum vel, hann sá það góða í aðstæðum sem mörgum okkar þættu yfirþyrmandi og gerði þær aðstæður bærilegar þrátt fyrir hindranir. Minningarnar eru margar allt frá því að hann leit dagsins ljós, fallegur lítill hnoðri í fangi mömmu sinnar, fjörmikill strákur í boltaleikjum, unglingurinn á mótunarskeiði og ungur maður með framtíðina óskrifaða. Svo liðu árin eitt af öðru með alls kyns áskorunum eins og gerist og gengur hjá okkur flestum.

Hann var svo lánsamur að eiga bestu mömmuna sem umvafði hann og studdi á erfiðum tímum, útrétta höndin hennar var alltaf til taks. Þau mæðginin voru afar náin og kærleikurinn þeirra á milli svo dýrmætur.

Róbert eignaðist fjögur yndisleg börn, Tinnu Rut, Katrínu, Patrek Örn og Guðrúnu Rósu. Ást hans til barnanna sinna var ótakmörkuð, velferð þeirra var honum allt.

Stutt er síðan fjölskyldan kom saman og fagnaði stórafmæli móður hans, Rósu systur minnar. Þar kættust allir, börn, barnabörn og önnur skyldmenni og okkar kæri Róbert í góðum gír þrátt fyrir veikindi. Hann leit björtum augum til nýs árs, staðráðinn í að þá yrðu veikindin að baki og lífið tæki stakkaskiptum. Markmið hans var meðal annars að taka þátt í móti á Spáni í uppáhaldsíþróttinni sinni með góðum vinum og félögum. Róbert var þar einn hlekkurinn í þeirri traustu og dýrmætu keðju sem sá félagsskapur er.

Nú er lífsgöngu þinni lokið og við tekur nýr kafli í lífsbók okkar hinna. Kært ertu kvaddur elsku vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt. Innilegar samúðarkveðjur elsku systir mín og fjölskylda.

Ásta frænka og fjölskylda.