Munurinn á því að hafa fengið eitt stig út úr leiknum við Serba og á því að tapa honum er gríðarlegur og þetta stig sem íslenska liðið krækti í á ævintýralegan hátt gæti hæglega gert útslagið þegar upp verður staðið í C-riðlinum á Evrópumótinu

Munurinn á því að hafa fengið eitt stig út úr leiknum við Serba og á því að tapa honum er gríðarlegur og þetta stig sem íslenska liðið krækti í á ævintýralegan hátt gæti hæglega gert útslagið þegar upp verður staðið í C-riðlinum á Evrópumótinu.

Ungverjaland vann mjög nauman sigur á Svartfjallalandi, 26:24, í hinum leik riðilsins í München í gærkvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en Ungverjar skoruðu úr hraðaupphlaupi í blálokin.

Fyrir aðra umferðina á morgun eru því Ungverjar með tvö stig, Íslendingar eitt, Serbar eitt en Svartfellingar ekkert. Ísland mætir Svartfjallalandi í fyrri leiknum klukkan 17 og um kvöldið mætast Serbar og Ungverjar.

Öll fjögur liðin eru því áfram í slagnum um að komast upp úr riðlinum en tvö þau efstu fara í milliriðilinn sem verður leikinn í Köln.

Jafnteflið þýðir að Ísland á fram undan tvo úrslitaleiki, gegn Svartfellingum á morgun og gegn Ungverjum í lokaumferðinni á þriðjudagskvöldið.

Þegar horft er skrefi lengra og til milliriðilsins, komist Ísland þangað, virðist nokkuð ljóst að Þýskaland, Frakkland og Króatía yrðu þrír af fjórum mótherjum þar en tíu marka sigur Króata á Spánverjum í B-riðlinum í gærkvöld er líklega óvæntustu úrslit mótsins til þessa.

Þetta skýrist þó allt saman betur í dag og á morgun eftir leikina í annarri umferð í öllum riðlunum.