Sendingar Um eitt hundrað manns eru á launaskrá Dropp, segir Hrólfur Andri Tómasson framkvæmdastjóri.
Sendingar Um eitt hundrað manns eru á launaskrá Dropp, segir Hrólfur Andri Tómasson framkvæmdastjóri. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Sjötíu prósenta aukning varð í sendingum dreifingarfyrirtækisins Dropp á annasamasta tíma ársins í fyrra, nóvember og desember. Dropp býður upp á afhendingu á vörum netverslana víðs vegar um landið.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Sjötíu prósenta aukning varð í sendingum dreifingarfyrirtækisins Dropp á annasamasta tíma ársins í fyrra, nóvember og desember. Dropp býður upp á afhendingu á vörum netverslana víðs vegar um landið.

Fyrirtækið heldur því áfram hröðum vexti sínum en það þrefaldaði tekjur sínar milli áranna 2021 og 2022 og tvöfaldaði umsvifin árið þar á undan.

Dropp tók í notkun nýja flokkunarvél sl. haust sem gerir fyrirtækinu mögulegt að halda afhendingartíma óbreyttum þrátt fyrir aukið magn sendinga. „Þetta er algjör bylting,“ segir Hrólfur Andri Tómasson, stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Morgunblaðið.

Vélin samanstendur m.a. af færiböndum og skynjurum og er keypt inn frá útlöndum að sögn Hrólfs. „Tækið er algjör nauðsyn þegar magnið hjá okkur eykst,“ útskýrir hann.

35 staðir bættust við

Afhendingarstaðir Dropp eru 95 talsins. 35 nýir staðir bættust við á síðasta ári. „Við erum með fimmtíu afhendingarstaði á höfuðborgarsvæðinu. 97% Íslendinga búa í póstnúmerum þar sem við erum með starfsemi. Við náum því mjög vel út um allt land. Núna er bara spurning um að fjölga stöðunum enn frekar og dreifa álaginu þó við séum komin á flesta staði sem við viljum vera á.“

Hrólfur segir að fyrirtækinu sé mjög vel tekið hvar sem það setur upp afhendingarstað. „Oft er eftirspurn frá ákveðnum svæðum. Fólk hefur samband og vill fá þjónustuna í nágrennið. Þetta er gríðarlega góð þjónusta fyrir þá sem búa á landsbyggðinni þar sem verslanir eru færri en á höfuðborgarsvæðinu. Þá er gott að geta verslað á netinu og sótt á næsta afhendingarstað okkar.“

Helsti keppinautur Dropp er opinbera hlutafélagið Pósturinn.

Aðspurður segir Hrólfur að netverslun hafi almennt aukist mikið síðan fyrirtækið var stofnað árið 2019. Dropp njóti góðs af því. Hann segir að Ísland sé kannski komið hálfa leið í umfangi netverslunar borið saman við nágrannalöndin. „Þróunin hefur verið hröð. Starfsemi okkar tvöfaldaðist á einni nóttu í faraldrinum og vöxturinn hefur haldið áfram eftir að honum lauk.“

100 nýir viðskiptavinir

Eitt hundrað netverslanir bættust í viðskiptavinahópinn hjá Dropp í fyrra en samtals eru viðskiptavinir yfir fimm hundruð talsins. Meðal viðskiptavina er sænska netverslunin Boozt sem notið hefur mikilla vinsælda hér á landi síðustu misseri.

Starfsmönnum Dropp heldur áfram að fjölga í takt við meiri umsvif. „Við erum með eitt hundrað manns á launaskrá. Margir eru í hlutastarfi við heimsendingar á kvöldin, einkum námsmenn.“

Dropp er hætt að auglýsa með beinum hætti á samfélagsmiðlum að sögn Hrólfs. „Við viljum frekar einbeita okkur að því að bæta þjónustuna. Við treystum á að hún beri hróður fyrirtækisins áfram. Snertingar okkar við viðskiptavini eru mjög margar. Þannig treystum við á að þegar fólk kynnist okkur þá styrki það vörumerkið og orðsporið vaxi. Besti sölumaðurinn okkar er þjónustan.“

Dropp var á dögunum tilnefnt sem vörumerki ársins á fyrirtækjamarkaði hjá vörumerkjastofunni Brandr, en verðlaunin verða afhent 8. febrúar nk. Hrólfur er mjög ánægður með tilnefninguna. „Við erum ekkert smá stolt af því að komast þarna á blað. Sérstaklega í því ljósi að við erum ekki hefðbundið markaðsfyrirtæki.“

Það sem gerir vörumerkið Dropp einstakt að sögn Hrólfs er að það er með 100% fókus á síðasta skrefið í kaupferli netverslunar. „Önnur fyrirtæki á Íslandi sem bjóða upp á afhendingarþjónustu fyrir netverslanir bjóða öll upp á aðrar þjónustur líka og athyglin dreifist því í fleiri áttir,“ útskýrir Hrólfur að lokum.

Höf.: Þóroddur Bjarnason