Jón Björgvin Stefánsson fæddist 19. október 1927. Hann lést 28. desember 2023. Útför hans fór fram 11. janúar 2024.

Elsku afi minn, það eru svo margar minningar sem ég á með þér og ömmu. Fyrst auðvitað Afakot við Syðri-Reyki, þar sem ég eyddi sumrunum með ykkur, það er minnisstætt hvað það var mikið ævintýri. Nóg var af heitu vatni og því voru pottaferðirnar margar. Það þurfti ekki rafmagn í bústaðinn, en þú vildir horfa á fréttir á kvöldin og þá var tengdur geymdir við pínulítið svarthvítt sjónvarp. Svo var spilað við kertaljós eða lukt.

Á veturna eyddi ég tíma með ykkur á Skólaveginum. Í gegnum alla mína grunnskóla- og menntaskólagöngu hljóp ég til ykkar í frímínútum og hádeginu og fékk að borða. Lífið var að mörgu leyti einfalt og ekki verið að flækja hlutina, þú varst á skóverkstæðinu á morgnana, á meðan amma sá um húsverkin og matinn. Í minningunni var tvisvar í viku soðinn fiskur með kartöflum og smjöri, tvisvar í viku steiktur fiskur með kartöflum og heimatilbúinni kokteilsósu, og svo einu sinni í viku hakk og spagettí. En eftir matinn fórst þú upp í húsbóndaherbergið, lagðir þig í 20 mínútur og hlustaðir á fréttir, áður en vinnudagurinn hélt áfram á skóverkstæðinu, þar sem amma afgreiddi viðskiptavinina og hélt uppi samræðum við alla þá gesti sem þið fenguð.

Þegar maður verður eldri þá sér maður hvað þú varst ótrúlega góður að vinna í höndunum og skósmíðin átti vel við þig, rétt eins og útskurður seinna meir. En þú varst líka einstaklega duglegur. Ég hef óljósar minningar um að þú hafir verið að sprauta Cortinuna í bílskúrnum eða smíða eitthvað í Afakoti. En það lýsir þér best þegar þú ákvaðst á níræðisaldri að bæta við kvisti á Skólaveginn, ásamt því að skipta um járn á þakinu eins og ekkert væri. Alltaf duglegur, alltaf að.

Takk fyrir allann kandísinn, súkkulaðirúsínurnar og ísinn.

Takk fyrir allt, elsku besti afi, það er heiður og forréttindi að fá að bera sama nafn og þú.

Jón Björgvin
Stefánsson, yngri.